þriðjudagur, október 04, 2005

Allt í plati!


Mig langar að byrja á því að biðja ykkur afsökunar á því að í dag fáið þið ekki alvörupistil frá mér heldur meira einhvers konar platpistil. Ég veit að þið eruð alvöru hlustendur sem verðskuldið alvörupistil, en ég neyðist því miður til að svíkja ykkur um það í dag, vegna þess að ég heyrði það í fréttum í vikunni að ég væri ekki á alvörukaupi við að skrifa og flytja þessa pistla og mér finnst eðilegt að fyrir platkaup sé skilað platvinnu. Reyndar var það mér ákveðinn léttir að heyra þetta með alvörukaupið af því að mér fannst það útskýra svo margt fyrir mér, til dæmis þjónustustigið í hinum og þessum verslunum sem ég hef átt viðskipti við að undanförnu. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að maður fái alvöruþjónustu hjá fólki sem er á platkaupi. Hvað um það. Hef ég þá lesturinn – ef mig skyldi kalla.
Ég er mikill aðdáandi stjörnuspáa. Ekki svo að skilja að ég taki eitthvað mark á þeim, frekar en við steingeiturnar almennt, en engu að síður geri ég mér alltaf far um að lesa þær, þótt ekki sé nema til að hneykslast með sjálfum mér á því að virðulegir fjölmiðlar skuli voga sér að koma fram við mig, sem lesanda, sem slíkan fæðingarhálfvita að ég láti telja mér trú um að dagurinn sem er í vændum muni verða keimlíkur, ef ekki alveg eins, hjá okkur öllum sem fædd erum þessar vikur sitt hvorum megin við áramótin og allt öðruvísi en hjá þeim sem fæddir eru á öðrum tímum ársins. Mér finnst það einhvern veginn of augljóst til að hafa orð á því að sennilega eru háralitur og skóstærð líklegri til að hafa áhrif á það hvernig dagurinn verður hjá manni heldur en afmælisdagurinn manns (nema náttúrulega á afmælisdaginn sjálfan) og í rauninni óskiljanlegt að í öllu nýaldarruglinu sem dunið hefur á manni, einkum hér fyrr á árum, skyldi engum hafa dottið í hug að reyna að hagnast á þekkingu sinni á því hvernig dagurinn yrði hjá ljósskolhærðu fólki eða þeim sem nota skóstærð 43, einkum ef haft er í huga hve margir hafa reynt að ráðskast með líf manns og skilgreina persónuleika manns út frá öðru sem jafnólíklegt er að hafi nokkur áhrif á nokkurn skapaðan hlut, s. s. feng shui, talnaspeki, kínverskri stjörnuspeki, augnlit, blóðflokki og líkamsgerð, svo fátt eitt sé nefnt.
Hvað um það. Nú á mánudaginn las ég stjörnuspána mína í Blaðinu (með stóru Béi, svo það fari nú ekki á milli mála um hvaða blað ég er að tala) og hún hófst á þessum orðum: "Þú ert með báðar fæturnar á jörðinni." Þetta þótti mér merkilegt. Ég vissi ekki einu sinni að ég ætti fóttur, hvað þá tvær fætur. Reyndar vissi ég ekki einu sinni hvað fóttir var og þar sem ég fann orðið ekki í neinni orðabók datt mér fyrst í hug að hér væri um prentvillu að ræða og þarna ætti að standa "báðar dæturnar" (F og D eru einmitt hlið við hlið á lyklaborðum flestra ritvéla) en dætur á ég einmitt tvær og þótti gott að heyra að ég væri með þær báðar á jörðinni, þótt ég verði nú reyndar að viðurkenna að það hafði ekki hvarflað að mér að ég gæti verið með þær einhvers staðar annars staðar. Önnur þeirra er að vísu á interrail-ferðalagi um Evrópu um þessar mundir, en síðast þegar ég vissi einskorðuðust slíkar ferðir við yfirborð reikistjörnunnar og ég hafði nú ekkert miklar áhyggjur af því að hún væri mér óafvitandi komin á mála hjá evrópsku geimferðastofnuninni, svo ég segi nú bara alveg satt og rétt frá.
En þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði, eins og mér er tamt, verið að flækja hlutina fyrir mér. Málið var auðvitað miklu einfaldara, málfræðilega séð. "Fæturnar" er auðvitað ekki fleirtala orðsins "fóttir" heldur orðsins "fæta" og samkvæmt orðabókum merkir sögnin að fæta að glíma eða berjast. Nafnorðið fæta hlýtur þarafleiðandi að vera glíma eða barátta. Ég er með öðrum orðum með báðar glímurnar á jörðinni. Þarna opnuðust fyrir mér gáttir dýpri skilnings á lífinu og tilverunni. Barátta mín, bæði fyrir veraldlegum og andlegum verðmætum, er háð hér á jörðinni. Allt sem ég þarf til að lifa fullnægjandi lífi, jafnt andlega sem líkamlega, er hér allt í kring um mig. Ég þarf ekki að leita langt yfir skammt, það sem líkaminn þarf sér til viðurværis er í næstu búð og það sem sálin þarfnast til að halda heilsu er ekki einhver fjarlægur guð úti í blánum heldur er hann hér mitt á meðal okkar, hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í nafni hans. Báðar fæturnar eru á jörðinni
Það sem ég skil samt ekki er af hverju stjörnuspekingur Blaðsins þurfti að flækja þetta svona. Einna helst er ég á því að hann sé ekki á alvörukaupi, frekar en svo margir Íslendingar, og þar sem allar stjörnuspár eru eðli sínu samkvæmt bara plat, hafi hann ekki aðra leið til að réttlæta kjör sín en þá að hafa hana á plat-íslensku.
Mig langar samt að þakka honum fyrir að hafa sett þessi einföldu sannindi fram á þennan kryptíska hátt, því ekki er einasta að þetta hafi orðið til þess að auka orðaforða minn, heldur gaf þetta mér jafnframt tilefni til mjög flókinna og skemmtilegra vangaveltna við eldhúsborðið heima hjá mér, þar sem ég sat og pældi í þessu með hönd undir kinn. Gott ef ég var ekki fyrir rest hreinlega kominn með báða höndana undir kinn.
(pistill fluttur á Rás1 5. ágúst síðastliðinn)

Engin ummæli: