þriðjudagur, október 04, 2005

Haltu ekki að þú sért eitthvað

Mig langar að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með sjónvarpsstöðina Sirkus sem fer í loftið í kvöld og þá ekki síður blaðið með sama nafni, vegna þess að síðasta nýjung á fjölmiðlamarkaðinum, Blaðið – og þá á ég við Blaðið með stóru B-i – veldur mér ákveðnu hugarangri. Ekki vegna þess að Blaðið er eins og að njóta ásta með konu sem maður elskar út af lífinu – manni er alveg sama þótt maður fái það ekki – heldur vegna þess að nafnið á blaðinu, Blaðið, finnst mér ekki bera andagift þeirra sem að því standa fagurt vitni. Það er eins og menn hafi beinlínis lagt sig í framkróka við að finna nafnið sem síst væri til þess fallið að maður tæki eftir fyrirbærinu.
Reyndar hafa áður komið út blöð á Íslandi sem báru hið marflata nafn Blaðið. Þegar Guðlaugur Þór Þórðarsson var ungur maður, á þeim aldri þegar frjó og frumleg hugsun fólks er alla jafna í hámarki, gaf hann einmitt út blað með þessu nafni og stærði sig jafnvel að því í viðtölum hve vel til fundið það hefði verið. Ég vil leyfa mér að vera hjartanlega ósammála honum í þeim efnum sem fleirum. Blaðið er vont nafn á blaði.
Ég er orðinn svo gamall að ég man þá tíð að á Íslandi voru gefin út blöð sem hétu hljómfögrum og tignarlegum nöfnum, svo sem Tíminn og Þjóðviljinn – og sé farið lengra aftur í tímann komu á sínum tíma út blöð hérlendis sem hétu Ísafold og Þjóðólfur. Hnignunin í frjórri hugsun er himinhrópandi. Í dag heita blöðin Morgunblaðið (af því að það kemur út á morgnana), Fréttablaðið (af því að í því eru fréttir) og DV (en á bak við það nafn er löng og leiðinleg saga sem ég nenni ekki að rekja). Nýjasta innleggið heitir síðan Blaðið, væntanlega af því að öll góðu nöfnin voru upptekin, eða hvað?
Reyndar hefur það lengi angrað mig hvað Íslendingum virðist tamt að forðast það eins og heitan eldinn að vera frumlegir. Þegar sjónvarpsstöð númer tvö fór í loftið fékk hún það ferska og vel til fundna nafn Stöð 2 og þegar þriðja stöðin fór í loftið var meira að segja efnt til hugmyndasamkeppni um nafnið á henni og viti menn – vinningshafinn lagði til að stöðin myndi heita Stöð 3 og fékk vegleg verðlaun fyrir þessa stórkostlegu hugmynd. Þegar Skjár 1 fór í loftið kom það eins og ferskur andblær inn í nafnaflóruna að hann skyldi ekki heita Stöð 1 ... eða fjögur.
Þessi tignarfælni í nafngiftum lýsir sér sérstaklega vel í nöfnum nýrra sveitarfélaga á Íslandi. Þannig var sameinað sveitarfélag Keflavíkur og Njarðvíkur nefnt þeirri hræðilegu flatneskju Reykjanesbær, rétt eins og Grindavík og Sandgerði séu ekki Reykjanesbæir. Sú augljósa staðreynd að víkurnar tvær, Keflavík og Njarðvík, ganga báðar inn úr firði sem heitir því hljómfagra nafni Stakksfjörður, virðist ekki hafa gefið neinum þá hugmynd að nýja sveitarfélagið gæti heitið Stakksfjörður og að Keflvíkingar og Njarðvíkingar gætu átt það sameiginlegt að vera Stakkfirðingar. Í staðinn eru þeir Reykjanesbæingar.
Hvað hefur gerst? Datt engum í hug að nýja blaðið gæti heitið eitthvað eins og Gjallarhornið eða Dagrenning, en í Færeyjum kemur út blað með því fallega nafni Dimmalætting, sem einmitt merkir dagrenning eða dimmu-létting. Jafnvel Hádegisblaðið, sem hefði verið nokkuð lýsandi fyrir Blaðið, virðist hafa verið of ,,væld" fyrir þá sem að Blaðinu standa.
Kannski var það bara einhver skammlíf tískubóla rétt í kringum þjóðernisvakninguna að leita að tignarlegum nöfnum á fólk, staði og fyrirtæki, að þjóð sem hafði heitið Jón og Sigurður öldum saman og glatað þjóðlegum og fallegum nöfnum eins og Hrútur og Skúta og Styr rétti úr kútnum, bæri höfuðið hátt og bæri virðingu fyrir glæsileika. Í dag er eins og ,,haltu ekki að þú sért eitthvað" hugarfarið hafi á ný hafið innreið sína og það að hleypa hnarreistur af stokkunum blaði sem heitir eitthvað annað en Blaðið eða að kalla sveitarfélag nafni sem ekki endar á bær eða byggð, þyki gamaldags og hallærislegt ef ekki hreinlega tilgerðarlegt.
Mig er nefnilega farið að gruna að andagift og sjálfsvirðing hafi í raun alltaf verið eitur í beinum þessarar þjóðar, svona hvunndags, þrátt fyrir allt tal um elsku hennar á skáldskap og listum. Þannig sló það mig um daginn að ég las grein um fornleifauppgröft úti á landi þar sem var verið að grafa upp bæ sem farið hafði undir hraun. Bærinn hét Bær og var í litlu héraði sem hét Litla-Hérað.
Þannig er það eflaust aðeins afturhvarf til þjóðlegra hefða að lesa blaðið Blaðið. Það er bara í stíl við að fara yfir jökulsána Jökulsá til að renna fyrir laxi í laxánni Laxá. Með sama áframhaldi ber framtíðin það líklega í skauti sér að við flykkjumst á skemmtistaðinn Skemmtistaðinn, beint á móti bíóinu Bíóinu í nýja hverfinu Nýja-Hverfi.
Auðvitað á ekki að dæma fólk út frá því hvað það heitir og ekki staði heldur. En nöfnin segja okkur þó heilmikið um sjálfsmynd og andagift þeirra sem völdu nöfnin á staðina og fólkið – og blöðin.
(pistill fluttur á Rás 1 1. júlí síðastliðinn)

1 ummæli:

Anna Kristjánsdóttir sagði...

Það er kannski nokkuð seint að gera athugasemdir við þennan pistil seinnipart október, en mér datt bara í hug hinn frjói svörður í Lundarreykjadalnum og blómið sem þaðan spratt, Gísli Einarsson. Hann ritstýrði því ágæta héraðsblaði Skessuhorni.
Ekki amalegt nafn á blaði það!