föstudagur, október 14, 2005
Hann-sem-ekki-má-nefna
Ég er mikill aðdáandi Harry Potter bókanna. Ég er ekkert yfir það hafinn að viðurkenna að ég les þær sjálfum mér til mikillar ánægju og veigra mér ekki við að standa í biðröð í bókabúðum að næturþeli til að verða mér úti um nýjustu bókina í ritröðinni áður en hún selst upp. Þessar bækur eru einmitt gott dæmi um fyrirtaks barnaefni, en eitt helsta einkenni þess er einmitt að fullorðnir hafa gaman af því líka. Boðskapurinn er líka í anda allra góðra barnabóka: Dyggðir eins og hugrekki, réttsýni, staðfesta og sönn vinátta eru meira virði en skilyrðislaus hlýðni, undirgefni og virðing fyrir yfirvaldinu.
Illmennið í Harry Potter bókunum er Voldemort, en af honum stafar slík ógn að hann gengur alla jafna undir nafninu Hann-sem-ekki-má nefna. Voldemort er allt sem Harry er ekki. Valdagræðgi hans nær út yfir gröf og dauða, hann óttast ekkert eins mikið og einmitt dauðann og gleymskuna og til að ná sínu fram beitir hann kúgunum, ofbeldi og huglausum handbendum sem uppfylla allar hans óskir af ótta við reiði foringjans og afleiðingum þess að óhlýðnast honum, því þeim sem ekki makka rétt er jafnan refsað grimmilega. Sjálfstæð hugsun er dauðasök í þeim félagsskap.
Það er reyndar merkilegt að svona starfsaðferðir virðast einmitt einkenna leiðtoga sem ekki má nefna, en eins og alþjóð er orðið kunnugt hefur fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins einmitt gengið undir nafninu Hann-sem-ekki-má-nefna á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins um allnokkra hríð.
Ég er viss um að Hann-sem-ekki-má-nefna hefur lesið Moggann í gær með blendnum tilfinningum. Þegar ég sá það fyrst fann ég fagnaðarbylgju fara um mig, því aukablöð á borð við það sem fylgdi honum í gær eru nefnilega yfirleitt ekki gefin út nema um dauða menn. En við lestur kom í ljós að hann er enn á lífi og sparkandi og ekkert skárri í skapinu, eins og sást best á skítafýlubombunni sem hann startaði landsþingi sinna manna með í gær.
Auðvitað er það þrúgandi kvöl að vera undir foringja af þessu tagi, að stjórnast af ótta við reiði að ofan, að vera viljalaust verkfæri geðvonsku og duttlunga leiðtogans. Þess vegna fagna fáir því meira en einmitt dyggustu fylgjendur hans þegar hann loksins hverfur af sjónarsviðinu. Þeir gefa jafnvel út heil aukablöð með lofrullu um hann strax og hann kveður ... óþreyjan eftir því að losna undan ægivaldi hans er orðin slík að frelsinu verður að fagna strax. Það er ekki hægt að bíða þess að gröfin gleypi hann áður en skrifuð er minningargrein, öfugt við það sem gert er í þeim tilfellum þegar fólk elskaði leiðtogann og dáði en óttaðist hann ekki bara og skelfdist.
Nú verður gaman að sjá hvort Sjálfstæðismenn geti aftur um frjálst höfuð strokið og farið að hugsa sjálfstætt eða hvort ógnarvald Hans-sem-ekki-má-nefna nái út yfir pólitíska gröf og dauða, hvort íhaldið finni sér önnur pólitísk markmið en þau að klekkja á þeim sem feita fíflinu er persónulega í nöp við, hvort stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins einkennist á næstunni af almennum borgaralegum sjónarmiðum eða hvort hún verði áfram einvörðungu listi yfir það sem ekki þjónar undir hégómleika ónefnds einstaklings, persónulegur gremjulisti Hans-sem-ekki-má-nefna.
og nefndi:
Fjölmiðlar,
Pólitík
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
hahaha
get ekki annað en pælt í hverja maður getur nú kallað death eaters...
Ætli trúnaður manna við "hann sem ekki má nefna" verði ekki áfram innmúraður og óumdeilanlegur. Ég óttast að það verði hægt að stjórna úr Seðlabankanum.
Lífið er spaugilegt! Mér fannst eitthvað áhugaverður efsti linkurinn á síðunni sem heitir "Mamma" og sá eftir lestur nýjasta pistilsins þar hvað börn geta verið mikill spegill foreldra sinna. Nema þið hefjið daginn á símtali...
Enda er ég hæstánægð með börnin mín!
Skrifa ummæli