þriðjudagur, október 04, 2005

Um ótta


Ég reyki. Ég veit að það er stórhættulegt og að árlega deyr fjöldi Íslendinga af völdum reykinga. Ég reyki sem sagt ekki vegna fáfræði um afleiðingarnar heldur af því að ég er haldinn nikótínfíkn, sem lýsir sér í því að þegar mig vantar nikótín fyllist ég vanlíðan, ég verð eirðarlaus, skapstyggur og óánægður. Mér dettur ekki í hug að afsaka það og skynsemi mín býður mér að þessum ósið verði ég að sigrast á – einhvern tímann.
Einn góður vinur minn reykir líka. En hann hefur komið sér upp þeim sið að áður en hann kveikir í sígarettunni hitar hann endann á filterinu með kveikjaranum. Ég spurði hann einhvern tímann að því hvers vegna í ósköpunum hann væri að þessu og svarið var að með þessu móti brenndi hann fyrir lausa bómullarþræði í filterinu sem hann öðrum kosti myndi soga ofan í lungu, bómullarþræðir þessir væru stórhættulegir og því væri þetta gert af heilsufarsástæðum. Hugsanaferlið á bak við þessa athöfn er með öðrum orðum eitthvað á þessa leið: "Nú ætla ég að soga tjöru, koltvísýring, blásýru og fjöldann allan af krabbameinsvaldandi efnum sem árlega valda dauða hundruð Íslendinga ofan í lungun á mér, en fjandinn fjarri mér að ég ætli að storka örlögunum og ógna heilsu minni með því að anda að mér bómullarþráðum." Þetta finnst mér hljóma álíka gáfulega og að fara yfir götu á rauðu ljósi og hafa meiri áhyggjur af því að verða fyrir eldingu en bíl. Það sem kemur mér á óvart er að þetta er alla jafna skynsemispiltur, svona eins og ég.
Einhvern tímann var mér sagt að gallinn við almenna skynsemi væri að hún væri hvorugt. Það er hvorki almenn né skynsemi og við félagarnir, jafn vel gefnir og við nú erum, erum sennilega lýsandi dæmi um sannleiksgildi þessarar fullyrðingar.
Mannsheilinn virðist nefnilega hafa eitthvað alveg sérstakt lag á að brengla raunveruleikaskynið til að fylla okkur öryggiskennd, að leiða hjá sér rauverulegar hættur og blása aðrar upp úr öllu valdi í staðinn svo við höfum nú eitthvað að óttast, eitthvað viðráðanlegt. Þetta mætti kalla "flug og bíll" heilkennið, með vísan til þeirrar alkunnu staðreyndar að mun fleiri eru hræddir við að fljúga en að ferðast með bíl, jafvel þótt öll tölfræði sýni að mun líklegra er að deyja eða slasast alvarlega í bílslysi en flugslysi.
Það er skemmtilegt að bera saman það sem fólk óttast, svo sem sjúkdóma, ofbeldi, hættuleg áhöld og skaðræðisskepnur svo eitthvað sé nefnt, og það sem fólki raunverulega stafar ógn af. Þannig sýna tölur til dæmis að það er þrjátíu sinnum líklegra að verða fyrir eldingu en að smitast af HIV veirunni við blóðgjöf. Í Bandaríkjunum deyja ár hvert þrisvar sinnum fleiri úr inflúensu en úr alnæmi. Við höfum meiri áhyggjur af því að verða fyrir ofbeldi á götum úti en að slasast heima hjá okkur þótt öll tölfræði sýni að margfalt fleiri slasist á hnífum, svo dæmi sé tekið, af eigin völdum í eldhúsinu heima hjá sér en af annarra völdum. Í Bandaríkjunum slasast ár hvert tæplega 30.000 manns við að iðka hnefaleika eða íshokkí samanlagt, en á sama tíma slasast 45.000 manns við að iðka dans og 56.000 manns við að spila golf. Þrettán sinnum fleiri Bandaríkjamenn slasa sig ár hvert á stólum en á keðjusögum. Í Bretlandi slasast tvöfalt fleiri á eyrnapinnum en á rakvélablöðum. Tölur frá sama landi sýna að fleiri slasa sig á skrúfjárnum en nokkurn tímann á logsuðutækjum, borvélum, öxum, keðjusögum eða hjólsögum. Árlega deyja um 200 Bandaríkjamenn við að keyra á dádýr á meðan þess er ekki eitt dæmi í sögu landsins að skaðræðisskepnan úlfur hafi orðið manni að bana. Og í heiminum deyja árlega margfalt fleiri af völdum leikfangabangsa en raunverulegra bjarndýra.
Auðvitað er þessi brenglaða skynjun á hættu nauðsynlegt sjálfsvarnarviðbragð. Það er ekkert líf að ganga um í hnút af áhyggjum yfir öllu sem við höfum raunverulega ástæðu til að óttast, að þora ekki að taka til hendinni eða eiga sér tómstundagaman af ótta við að fara sér að voða, að þora ekki yfir götu af ótta við að verða fyrir bíl, að þora ekki út á meðal ókunnugra af ótta við að verða fyrir ofbeldi, að þora jafnvel ekki að mynda tilfinningatengsl við aðrar manneskjur af ótta við að vera særður.
Hins vegar virðumst við hafa meðfædda þörf fyrir ótta og þess vegna finnum við okkur eitthvað nógu ólíklegt til að óttast. Líf nútímamannsins væri undirlagt af angist ef hann óttaðist bifreiðar en hins vegar flýgur hann akkúrat nógu sjaldan til að geta óttast það og fengið sinn nauðsynlega skammt af skelfingu með reglulegu millibili án þess að lífið allt verði gjörsamlega óbærilegt. Það væri erfitt að miða allt sitt líf við að komast aldrei í tæri við leikfangabangsa, en það er auðvelt að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá raunverulegum bjarndýrum, rétt eins og það er auðveldara að forðast keðjusagir en stóla.
Og ef maður er nikótínifíkill er miklu auðveldara og þægilegra að óttast bómullina en blásýruna.
(pistill fluttur á Rás 1 2. september síðastliðinn)

1 ummæli:

Þorbjörn sagði...

Uss, bara spreðar út öllum góðu pistlunum þínum frá því í sumar. Þetta er eins og að klára þrjú kíló af makkintossi á fáum klukkutímum...
Ég beið alltaf eftir sumarstefi á föstudögum í sumar til að heyra þessa pistla. Takk fyrir mig!