þriðjudagur, október 04, 2005

Vonandi eru vitsmunaverur á öðrum plánetum því ekki eru þær á þessari


Á undanförnum árum hefur glæný tegund sjónvarpsþátta skotið upp kollinum hérlendis sem víðar. Hér á ég við svokallað raunveruleika- sjónvarp. Sjálfur er ég ekki mikill aðdáendi þessa sjónvarpsefnis, en ég er engu að síður þakklátur fyrir þessa þróun vegna þess að fyrir mér hefur hún varpað nýju ljósi á hugtakið raunveruleiki. Ég hélt nefnilega lengi vel að raunveruleikinn væri nokkuð klipptur og skorinn, hann væri aðeins einn og að annað hvort væru hlutir raunverulegir eða ekki. Í dag geri ég mér hins vegar grein fyrir því að hugtakið er miklu loðnara og að það sem aðrir upplifa sem raunveruleika á kannski ekkert skylt við það hvernig minn raunveruleiki er frá degi til dags.
Ég er miklu meira fyrir vandað, leikið sjónvarpsefni. Einkum er ég hrifinn af Star Trek. Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að ég væri aðdáandi, eða svokallaður "Trekkie", en mér finnst þessir þættir yfirleitt skemmtileg ævintýri með jákvæðan boðskap. Það fer þess vegna dálítið í taugarnar á mér, þegar ég ræði þennan áhuga minn á Star Trek við fólk, hve lágt þessir þættir eru almennt skrifaðir sem sjónvarpsefni hjá öllum þorra manna. Fólk virðist einkum horfa á ytra útlit þáttanna og neita að taka boðskap þeirra alvarlega vegna þess hve óraunverulegar geimverurnar eru. Ég vil leyfa mér að vera á öðru máli. Ég held að sú staðreynd að geimverurnar í Star Trek eru einmitt raunverulegar en ekki tölvuteiknaðar geri það að verkum að fólk tekur þær ekki alvarlega. Nú má vel vera að raunverulegar geimverur líkist hvorki Vúlkönum né Klingonum, en mér vitanlega veit enginn lifandi maður hvernig geimverur líta út í raun og veru, þannig að mér fyndist eðlilegt að leyfa geimverunum í Star Trek að njóta vafans að minnsta kosti þangað til mannkynið uppgötvar eitthvað sem raunverulega kollvarpar þessum hugmyndum. Geimverurnar í Star Trek eru nefnilega ekki óraunverulegar, þær eru bara ekki alveg sams konar hugarburður og allur annar hugarburður um geimverur sem sem haldið hefur verið að okkur til þessa.
Þegar upp er staðið eru geimverurnar í Star Trek aðeins hverjar aðrar framandi vitsmunaverur, þótt þær líti ekki eins út og þær framandi vitsmunaverur sem hver maður þarf að eiga samskipti við dags daglega og kallaðar eru annað fólk. Boðskapur þáttanna er yfirleitt sá að með umburðarlyndi og hugrekki sé hægt að sigrast á ótta, hroka og hleypidómum sem aðeins valda angist og tjóni, bæði þeim sem haldnir eru þessum kvillum og þeim sem þeir beinast að. Það er ekkert óraunverulegt við það. Þvert á móti vil ég fullyrða að þessi boðskapur sé áþreifanlegur raunveruleiki, bæði í mínu lífi og fjölda annarra, og mun nær þeim raunveruleika sem ég þekki heldur en það sem fyrir augu ber í meintum raunveruleikaþáttum eins og Survivor eða Newlyweds.
Reyndar vil ég ganga svo langt að segja að í Star Trek sé raunveruleikinn, eins og hann birtist mér, skrumskældur og afbakaður í mun minni mæli en í þeim vinsælu og virtu leiknu sjónvarpsþáttum Staupasteini, eða Cheers upp á ensku. Áður en ég held áfram vil ég taka fram að mér finnst þættirnir um Staupastein frábærir, þeir eru fyndnir og skemmtilegir, vel skrifaðir og persónusköpunin hreint afbragð. Ég er ekki að gagnrýna þessa þætti. Hins vegar get ég ekki stillt mig um að benda á að þeir eiga ekkert skylt við raunveruleikann.
Sjálfur hef ég verið þaulsætinn á börum og þykist vita nokkuð vel hvernig lífið gengur fyrir sig á þannig stöðum. Og það get ég fullyrt að hefði ég einhvern tímann álpast inn á barinn Staupastein og ætlað að sitja þar að sumbli hefði ég látið mig hverfa eftir tvo þrjá bjóra og ekki látið sjá mig þar aftur – sama hve skemmtilegur félagsskapurinn hefði verið. Nú geri ég mér fulla grein fyrir því að Sam Malone, sá sem á og rekur barinn, á að vera óvirkur alkóhólisti en mér finnst það samt engin afsökun fyrir því að servera gestum það piss sem hann greinilega gerir og vogar sér að kalla bjór. Piss, segi ég, því þarna sitja menn og þamba þessar veigar, daginn út og inn, og aldrei sér vín á nokkrum manni. Minnist kannski einhver þess að í Staupasteini hafi einhver farið að drafa og orðið leiðinlegur, einhver dottið um stól eða borð, einhver farið að æpa samhengislaust rugl út í bláinn og farið að angra aðra gesti, einhver hætt að halda þræði, sagt sömu söguna þrisvar sinnum eða jafnvel sofnað fram á barborðið? Minnist þess einhver að þjónustustúlkurnar hafi orðið fyrir ósmekklegum kynferðislegum aðdróttunum ef ekki beinlínis líkamlegu áreiti, að barþjónarnir hafi orðið fyrir hótunum, að þurft hafi að henda einhverjum út eða jafnvel að slagsmál hafi brotist út? Allt er þetta daglegt brauð á öllum almennilegum börum, börum þar sem áfengi er haft um hönd. Ef taka ætti Staupastein trúanlegan er því alveg ljóst að þar er verið féfletta viðskiptavinina, það er verið að selja þeim eitthvað allt annað en bjór – eins og hann er í raunveruleikanum – og slíkur bar ætti einfaldlega enga fastakúnna. Menn sem mæta daglega á barinn, svona eins og Norm og Cliff, þeir eru ekki komnir þangað út af félagsskapnum heldur bjórnum. Með öðrum orðum: Geimverurnar í Star Trek gefa mun réttari mynd af framandi vitsmunaverum heldur en fastakúnnarnir á Staupasteini gefa af drykkjumönnum.
Raunveruleikinn er nefnilega ekki allur þar sem hann er séður. Það er hægt að gera raunveruleikann svo lygilegan að við afskrifum hann umhugsunarlaust og lygina svo raunverulega að við gleypum hana hráa.
(pistill fluttur Rás1 29. júlí síðastliðinn)

1 ummæli:

kerling í koti sagði...

Frábært! Skelli tengli á þig á síðuna hjá mér. Sjáumst!