Ég var að hlusta á útvarpið í dag, nánar tiltekið á Helga Björns syngja með miklum ágætum eitthvað lag eftir Magnús Eiríksson. Í því kom fyrir setningin: "Hvenær verður allt eins og áður?" eða eitthvað á þá leið. Fínt lag og tiltölulega aulahrollslaus texti eins og yfirleitt úr þeirri átt. En Magnús er alls ekki eina skáldið sem ort hefur eitthvað á þessa leið. Svo virðist vera að sú hugmynd að draga ánægjustundir lífsins eins mikið á langinn og kostur er sé eftirsóknarverð í hugum ótrúlegra margra. Ég vil leyfa mér að vera ósammála, ekki bara á forsendunum: "... ef það væru alltaf jólin ..." o. s. frv.
Það er eðli lífsins að það heldur áfram. Það líður og það sem leið er og verður liðið. Jafnvel mesti ánægjudagur lífsins yrði að "Groundhog Day" kvalræði ef maður þyrfti að ganga í gegn um hann nokkurhundruð sinnum í röð. Ekki vildi ég að "allt yrði eins og áður" jafnvel þótt þetta "áður" vísaði til mestu gleðistunda lífs míns. Ef allt yrði aftur eins og það var þá ... þá gæti ég ekki minnst þeirra stunda, hlýnað um hjartaræturnar og fyllst þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa þær.
Allt sem lifir tekur breytingum. Reyndar heldur það líka áfram að taka breytingum eftir að það deyr en þá er það dautt svo það nær ekki að verða vitni að þeim. Ef lífið væri alltaf eins og það var þegar það var best væri það ekki líf. Það væri ekki einu sinni dauði. Það væri einhvers konar steingervingur með meðvitund ... örlög verri en dauðinn!
Kannski er ekki að marka mig og auðveldara fyrir mig en flesta að vera laus úr viðjum fortíðardýrkunarinnar, en ég bý við það að fortíð minni hefur verið mokað upp á vörubílspalla og dreift um byggðir landsins.
Ég var í sveit á hverju sumri fram að fermingu hjá afa mínum og ömmu á Stóru-Fellsöxl í Skilmannahreppi. Þar voru iðjagræn tún, kýr á beit, mjór malarvegur fram hjá bænum og urð og melar fyrir ofan bæinn alveg upp í fjall. Gömlu hjónin voru nítjándualdarfólk, fædd í torfbæjum löngu fyrir vélvæðingu sveitanna. Þau urðu vitni að meiri samfélagsbreytingum en nokkur önnur kynslóð Íslendinga. Á bænum var farið með rímur, kveðist á og afi minn kenndi mér ferskeytlur og undirstöðuatriði bragfræðinnar. Á haustin fór ég síðan heim í Vesturbæinn í Reykjavík. Ég ólst með öðrum orðum upp í skáldsögu eftir Ármann Kr. Einarsson. Nema Ármann hefði líklega ekki haft hugmyndaflug til að setja malagryfju í jaðarinn á heimatúninu.
Þegar ég var lítill var malargryfjan bara lítil hola þar sem skurðgröfur náðu öðru hverju í vörubíl og vörubíl af möl þegar einhvers staðar vantaði möl í nágrenninu. Einhvern tímann á unglingsárum mínum gerðist það hins vegar að ákveðið var að reisa járnblendiverksmiðju í landi næsta bæjar, Klafastaða. Hún gengur í dag undir nafninu Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Þetta kostaði miklar vegaframkvæmdir, mikla möl.
Síðar var ákveðið að bora göng undir Hvalfjörðinn og leggja Hringveginn í gegn um þau, með þeim afleiðingum að nú liggur hann um túnin hans afa míns, þar sem áður var mjór malarvegur með þriggja stafa númeri (afleggjari af afleggjaranum út á Akranes). Í það þurfti líka mikla, mikla möl.
Gömlu hjónin brugðu búi, húsið lenti fljótlega í niðurníðslu og hefur nú verið rifið. Þegar maður ekur um Þjóðveg 1 undir Akrafjalli má sjá skrýtinn trjálund uppi í hlíðinni, litlu norðan við Fellsenda, lítinn reit með undarlega háum trjám. Þetta er garðurinn sem áður var við bæinn Stóru-Fellsöxl. Á ferðum mínum um landið renni ég stundum upp að gamla bæjarstæðinu og labba þar um, svona til að jarðtengja mig og muna hvaðan ég kem (einhvern veginn finnst mér það hjálpa mér að átta mig á því hver ég er að minna mig á það hvaðan ég er).
Stundum labba ég út fyrir jaðarinn á heimatúninu og skoða gömlu malarnámuna. Hún er horfin. Reyndar er allt horfið, melarnir og móarnir sem ég rak kýrnar um í gamla daga ... horfið. Þarna er eitt gapandi tóm. Megninu af jörðinni hans afa míns hefur verið mokað burt, margir hektarar (að því er mér finnst) af æskuslóðum mínum eru horfnir, farnir – þar er nú laust loft og margir metrar niður á fast land sem er bara sandur og sviðin jörð eins langt og augað eygir. Landið þar sem ég steig bernskunnar spor er horfið og í staðinn er komið gat ofan í jörðina, margra metra djúpt og nokkrir hektarar að flatarmáli.
Ekki er einasta að landið sem ég rak kýrnar um sem ungur drengur sé horfið. Kýrnar eru horfnar, bærinn er horfinn, sveitabragurinn er horfinn, afi og amma eru horfin og ungi drengurinn er líka horfinn. Hann varð að manni og heimurinn varð að ... þessu.
Það er erfitt að fyllast fortíðarþrá þegar fortíðin er svona gjörsamlega horfin ... ekki bara í merkingunni liðin, dáin og grafin - heldur bókstaflega rifin niður, mokað upp á vörbílspalla og ekið burt.
1 ummæli:
Fallegur pistill sem gladdi mitt gamla hjarta.
Skrifa ummæli