þriðjudagur, október 04, 2005

Um sannleiksástina


Það er gott að hafa rétt fyrir sér. Einkum og sér í lagi er mikilvægt þegar mann greinir á við umhverfi sitt að hafa það á tilfinningunni að maður hafi sannleikann sín megin. Sannleiksást er dyggð. En til eru fleiri dyggðir og þeirra æðst er ekki sannleiksástin – heldur kærleikurinn. Þegar sannleiksástin verður kærleikanum yfirsterkari er því ekki um dyggð að ræða, heldur löst.
Þetta segi ég því að um þessar mundir standa tveir menn í eldlínu fjölmiðla vegna þeirrar sannfæringar sinnar að þeir hafi á réttu að standa og jafnvel þótt allt sé í björtu báli í kringum þá hanga þeir á því eins og hundar á roði ekkert sé rangt við það sem þeir séu að gera og heimurinn sé ósanngjarn við þá. Vissulega er heimurinn oft ósanngjarn, en það er nú engu að síður mín reynsla að þegar ég hef haft það á tilfinningunni að ég hafi haft rétt fyrir mér og allir aðrir rangt hefur það nú yfirleitt reynst vera ég sem var úti að aka þegar upp var staðið, en ekki heimurinn.
Annar þessara manna er sóknarpresturinn í Garðabæ sem búinn er að kæra nánast alla sem nöfnum tjáir að nefna vegna ranginda sem hann telur sig beittan í starfi. Nú þekki ég ekki öll efnisatriði þess máls og ætla svosem ekki að draga það neitt sérstaklega í efa að presturinn hafi réttinn sín megin, hins vegar vil ég leyfa mér að draga það stórlega í efa að rétt sé að prestur standi jafnstaðsfastur í illindum af þessu tagi og nú er að eiga sér stað í Garðabænum. Reyndar tel ég það svo rangt að það sé í raun orðið algjört aukaatriði hver hafi rétt fyrir sér og hver rangt. Við skulum hafa í huga presturinn er þjónn guðs og kærleikans, ekki réttar síns sem opinbers starfsmanns. Presturinn er ekki broddborgari í leit að vegtyllum til að bólstra sitt brothætta egó með eins og títt er um safnaðarnefndarformenn, heldur boðberi þess að sælir séu þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því þeirra sé himnaríki. Ég minnist þess ekki að í fjallræðunni sé minnst á að sælir séu þeir sem hafi sitt fram hvað sem það kostar.
Hinn maðurinn er ritstjóri tímaritsins Hér og nú, en hann hefur sætt gríðarlegu ámæli fyrir efnistök að undanförnu í sambandi við það hvernig hann hefur fjallað um skilnaðarmál þjóðþekkts tónlistarmanns. Hann hefur birst í viðtölum og réttlætt gjörðir sínar með því að hann hafi sagt satt og rétt frá öllu og því hafi hann ekkert að skammast sín fyrir – fréttin sé rétt og það að frétt sé rétt sé næg ástæða fyrir birtingu hennar. Það að fréttin komi illa við fólk sem er að ganga í gegn um erfitt tímabil í lífi sínu og hún sé þess eðlis að venjulegt fólk botnar hvorki upp né niður í því hvað þetta komi því við er algert aukaatriði í huga hans, hann er þjónn sannleikans, ekki kærleikans, og sannleikurinn skal koma fram, hvað sem það kostar og hve lítið sem öðrum en þeim sem beinan hlut eiga að máli kemur hann við.
Sjálfsagt er það að bera í bakkafullan lækinn að bætast í hóp þeirra sem hneykslast á þessum skrifum, en mig langar þó að leiðrétta ritstjóra þennan varðandi það að fréttin sé sönn. Hún er það ekki, hún er lygi.
Nú veit ég ekki hvaða reynslu ritstjóri þessi hefur af mannlegum samskiptum, en engu er líkara en að hann standi í þeirri trú að einn góðan veðurdag vakni kona sem býr í hamingjuríku hjónabandi, er fullnægð á sál og líkama og með allt í lukkunnar velstandi og ákveði að halda fram hjá manninum sínum.
Að baki hjónaskilnaða er yfirleitt löng og sorgleg saga flókinna og viðkvæmra mannlegra tilfinninga. Í raun getur enginn dæmt um það hvað hafði átt sér stað áður en til skilnaðarins kom, við hljótum að trúa því að fólk grípi ekki til þess ráðs að yfirgefa maka og foreldri barna sinna nema það sjái eftir ítarlega umhugsun ekki annan kost í stöðunni til að tryggja hamingju sína.
Auðvitað er það ekki frásagnarvert að maður vanræki konuna sína, sé sívinnandi og þess á milli í laxi, kreisti tannkremstúbuna fremst, þrífi aldrei vaskinn eftir að hann hefur rakað sig, skilji setuna eftir uppi og allt þetta sem karlar gera sem konum finnst gera þá óþolandi í sambúð. Ekki heldur að kona sé hætt að nenna að hafa sig til fyrir manninn sinn, sé sítuðandi í honum, skilji ekki álagið sem er á honum og geri ósanngjarnar kröfur, svo eitthvað sé nefnt af því sem konur eiga það til að gera sem körlum finnst gera þær óþolandi í sambúð. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé nákvæmlega það sem gerðist í þessu ákveðna hjónabandi, ég er bara að fabúlera út frá nokkuð algengum aðdraganda hjónaskilnaða. Þegar ástandið er hins vegar orðið þannig að annar aðilinn leitar út fyrir hjónabandið að hlýju og einhverju til að láta honum líða vel með sjálfan sig og finnast hann vera eftirsóttur og þráður – þá fara kjaftatífurnar af stað, enda er málið þá loksins komið niður fyrir beltisstað og hætt að snúast um eitthvað sem er fallegt og göfugt og erfitt að henda reiður á eins og ást og aðrar viðkvæmar mannlegar tilfinningar.
Sannleikurinn er vandmeðfarinn. Það er engin tilviljun að í amerískum réttardrömum eru menn ávallt áminntir, ekki einasta um að segja sannleikann, heldur allan sannleikann. Það er nefnilega alltaf lygi að segja aðeins hluta af sannleikanum. Þannig er það með öðrum orðum eðli sínu samkvæmt alltaf ósatt þegar maður greinir frá því að einhver hafi haldið fram hjá einhverjum, af því að það er aldrei nema brotabrot af sannleikanum.
(pistill fluttur á Rás 1 24. júní síðastliðinn)

Engin ummæli: