þriðjudagur, desember 26, 2006

Gleðileg jól



Höfum eitt á hreinu. Jól eru ekki kristin hátíð. Orðið „jól“ hefur verið í málinu mun lengur en kristnin í þjóðinni, það er svo fornt að uppruni þess er í raun hulin ráðgáta. Heiðnir menn héldu hátíð í tilefni af vetrarsólstöðum og kölluðu hana „jól“.
Höfum annað á hreinu. Við vitum ekki hvenær ársins Jesús fæddist. Líkurnar á að það hafi verið 24. desember eru einn á móti 365. Hafi hann fæðst þennan dag er það hrein tilviljun. Auk þess fæddist Jesús löngu áður en tímatal okkar var búið til og afar óvísindalegt er að ætla að reikna einstakar dagsetningar aftur í tímann langt aftur fyrir upphaf þess.
Höfum loks á hreinu að Jesús, sá er fæddur var af Maríu þeirri sem kölluð er „Mey“ og píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, var til. Til að trúa því að persónan Jesús Maríuson sé uppspuni frá rótum þarf mun meiri trúgirni en til þess að viðurkenna að hann hafi verið til, heimildirnar eru bara of sannfærandi. Hvað einstök æviatriði hans, ætterni í karllegg og sagnfræðilegan áreiðanleika hinna ýmsu frásagna Nýja testamentisins varðar, þá verða menn hins vegar að ákveða hver fyrir sig að trúa postullegu trúarjátningunni eða ekki – hún verður hvorki sönnuð né afsönnuð með þeim aðferðum sem við beitum hinn mælanlega raunveruleika. Í trúarsannfæringu felst nefnilega meðal annars fullvissa um að til sé sannleikur sem er dýpri og æðra eðlis en sannleikshugtak efnisheimsins. Þannig getur fjöldi manns til dæmis vitnað um áhrif bænarinnar á líf sitt þótt þau séu auðvitað ekki mælanleg með neinum þekktum aðferðum.
En þegar upp er staðið þá er ekkert skrýtið að kristið fólk skuli velja jólin til að fagna fæðingu frelsarans. Það er einfaldlega allt of gráupplagt, öll táknfræðin æpir beinlínis á það. Myrkur (fáfræðinnar, dauðans, mannvonskunnar, óttans og alls sem myrkrið getur táknað) tekur að hopa fyrir birtu (sannleikans, lífsins, kærleikans, friðarins og alls þess sem Jesús stendur fyrir).
Að þessu sögðu vil ég óska landsmönnum öllum árs, friðar og gleðilegra jóla. Ennfremur óska ég ykkur öllum til hamingju með birtuna í lífi ykkar, hvaðan sem hún er runnin.


(Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 12. 2006)

laugardagur, desember 23, 2006

Swiss Miss ...


... er ekki svissneskt kakó heldur amerískt. Mér finnst það eiginlega hálfgert svindl. Það eyðileggur alveg fyrir mér fjallakofatengdan ævintýraljómann af því að neyta þess. En það hlaut eiginlega að vera. Ef það væri svissneskt héti það ekki Swiss Miss heldur líklega Schweizerisches Fräulein, sem hljómar auðvitað ekki næstum því eins girnilega.

þriðjudagur, desember 19, 2006

sunnudagur, desember 17, 2006

Jólatrésala, jólatréssala eða jólatrjáasala?



Mér hafa borist fyrirspurnir um hvað sé rétt heiti á þeirri þjónustu að selja fólki jólatré. Elías spyr hvort það eigi að vera eitt eða tvö S í „jólatrés(s)sala“ og Bára bætir um betur og segist hafa haldið að „jólatrjáasala“ væri hið eina rétta heiti á fyrirbærinu.
Segja má að það komi vel á vondan að ég skuli vera spurður um þetta atriði, því ekki er langt síðan það var mér einmitt sérstakt kappsmál að orðinu „jólatrés(s)sala“ væri útrýmt úr íslensku og í staðinn væri talað um „jólatrjáasölu“. Gekk þetta svo langt að árum saman beindi ég öllum mínum jólatrjáaviðskiptum að flugbjörgunarsveitinni – á málræktarlegum forsendum. Hún var eini söluaðili jólatrjáa sem auglýsti þessa fjáröflun sína sem „jólatrjáasölu“. Þess ber að geta að á þessum árum var ég eindregið fylgjandi svokallaðri „preskriftífri“ málfræði.
Síðan þá hef ég mildast talsvert í afstöðu minni og finnst núorðið frekar við hæfi að tala um „viðeigandi“ og „óviðeigandi“, „eðlilega“ og „óeðlilega“ eða jafnvel „viðurkennda“ málnotkun frekar en að setja sig í það dómarasæti að kalla meðferð annarra á móðurmáli sínu „rétta“ eða „ranga“, nema maður geti fært alveg sérstaklega góð rök fyrir því. Strangt til tekið talar maður aðeins „rangt“ mál þegar maður talar þannig að maður er annað hvort misskilinn eða ekki skilinn. Því setningar og orð hafa í sjálfu sér enga aðra merkingu en þá sem samkomulag ríkir um að þau hafi.
Auðvitað segir það sig sjálft að sá sem selur jólatré selur fleiri jólatré en eitt og því er eðlilegt að rætt sé um jólatrjáasölu. Að það geri orðið „jólatrés(s)sala“ rangt er hins vegar fráleitt. Fjölmörg dæmi eru í íslensku um samsett orð þar sem fyrri hlutinn er hafður í eintölu þótt merkingarlega sé augljóst að „réttara“ væri að hafa hann í fleirtölu. Dæmi um það gæti verið orðið „rækjusalat“. Auðvitað er ekki bara ein rækja í rækjusalati, en samt kannast ég hvorki við orðin „rækjasalat“ né „ræknasalat“. Það veldur einfaldlega engum misskilingi þótt fyrri hlutinn sé hafður í eintölu. Fyrir því eru eflaust fagurfræðilegar ástæður, ætli „rækjusalat“ þyki ekki fara betur í munni en „ræknasalat“.
En vilji maður tala um „jólatré(s)sölu“, hvort á maður þá að hafa hana með einu S-i eða tveim? Að mínu mati er hér einungis um smekksatriði að ræða. Færa má rök fyrir því að eðlilegra sé að hafa tvö S, að fyrri hlutinn sé orðið „jólatré“ í eignarfalli, þ. e. „jólatrés“ enda hér um „sölu jólatrés“ að ræða. Hins vegar er eingarfallssamsetning ekki algild regla í tungumálinu og fjölmörg dæmi til um stofnsamsetningar. Þá er fyrri hluti samsetts orð ekki eignarfallsmynd heldur stofn orðsins. Sem dæmi má nefna orðin „hestbak“ (en ekki „hestsbak“) og „húsþak“ (en ekki „hússþak“). Þar sem hér er um að ræða sölu á allmörgum jólatrjám en ekki einu jólatré má jafnvel færa gild rök fyrir því að hér sé stofnsamsetning betur við hæfi en eignarfalls, að „jólatré“ sé þá eins konar magnorð, líkt og þegar talað er um „fiskbúð“ (en hvorki „fisksbúð“, „fiskjarbúð“ né „fiskabúð“).
Það hvort fólk talar um jólatrjáasölu, jólatréssölu eða jólatrésölu lýsir því að mínu mati einungis íslenskusmekk þess – ekki íslenskukunnáttu. Sjálfur tel ég ennfremur aðrar og hættulegri ógnir steðja að móðurmálinu en þá hvert þessara þriggja orða fólk notar um þá göfugu iðju að selja fólki jólatré og að við, verndarar tungunnar, ættum frekar að beina sjónum okkar að þeim.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Aukasetningar ...

... geta verið vandmeðfarnar í íslensku. Þannig fékk ég þessa tilkynningu netleiðis í dag: „Það má segja að engin vandamál hafi komið upp, sem við erum þakklát fyrir."
Hvað með vandamál sem þið eruð ekki þakklát fyrir?

Gagnrýnin sjálfsskoðun

Það er hollt og gott að stunda gagnrýna sjálfsskoðun. Sumir líta að vísu á hana sem veikleikamerki af því maður beinir einmitt sjónum sínum að veikleikum sínum. En í raun ber það vott um áræði og kjark að þora að finna sök hjá sjálfum sér og reyna að skilja hverju maður þarf að breyta til að vegna betur. Gagnrýnin sjálfsskoðun er í raun alger forsenda framfara.
Hins vegar er ekkert skrýtið að sumum standi stuggur af gagnrýninni sjálfsskoðun. Við hana kemur nefnilega eitt og annað í ljós sem miklu þægilegra er að vita ekki af. Það er mjög sársaukafullt að vera sviptur hinni ljúfu lífslygi. Það er til dæmis ekki næstum því jafnmikið vesen að lifa í þeirri trú að vinurinn sem fór í meðferð hafi verið miklu verr á vegi staddur en maður sjálfur, eins og að viðurkenna að maður hafi enga stjórn á lífi sínu. Auðvitað er miklu þægilegra að trúa því að maður sé rúinn trausti út af slúðri, baktali og kjaftagangi í skinhelgu pakki sem upphefur sjálft sig á manns kostnað, heldur en að horfast í augu við að manni sé einfaldlega ekki treystandi og að „skinhelga pakkið“ sé bara að ræða sín á milli um það sem öllum má vera ljóst. Það er miklu auðveldara að kenna öðrum um allt sem miður fer en að gangast við sjálfum sér.
Því er ég nú að velta þessu fyrir mér að nýlega flutti formaður Samfylkingarinnar flokksmönnum sínum ávarp sem töluvert áræði þurfti til að flytja, ávarp sem að nokkru leyti einkenndist af gagnrýninni sjálfsskoðun. Þar gerðust þau undur og stórmerki að íslenskur stjórnmálaflokkur reyndi að gangast við vandamálum sínum í stað þess að kenna ímynduðu „einelti“ um þau, eins og aðrir stjórnmálaflokkar gera um þessar mundir.
Það kom mér hins vegar ekki á óvart að heyra Sjálfstæðismenn hæða þennan kjark, enda myndu þeir lenda í miklum vandræðum ef sjálfsgagnrýni yrði lenska í hérlendri pólitík og þeir þyrftu að leika þetta eftir. Nýleg yfirlýsing formanns Sjálfstæðisflokksins um að „heppilegra“ hefði verið að míga ekki á stjórnarskrá lýðveldisins þegar innrásin í Írak var studd á forsendum sem ekki dugðu ríkisstjórn neins siðaðs ríkis í heiminum til að vera sama sinnis, er nefnilega það sem kemst næst því að flokkast undir einhvers konar sjálfsgagnrýni þar á bæ.
(Bakþankar í Fréttablaðinu 10. desember 2006)

laugardagur, desember 09, 2006

Staurfætur


Ég er alinn upp við þá orðanotkun að þegar einhver er sagður vera með staurfætur þýði það að hann sé stirður á velli. Fyrir mér er staurfótur ekki tréfótur eða frumstætt stoðtæki heldur einfaldlega fótur sem ekki beygist um hnéð, er stífur sem staur, þótt ekki þurfi að taka því bókstaflega. Sá sem er mjög stirðbusalegur, til dæmis í fótbolta eða danslist, gæti þannig verið „óttalegur staurfótur“.
Ég fletti orðinu upp í Orðabók Marðar og þar segir einmitt að staurfótur sé „liðstirður fótur sem ekki er t. d. hægt að beygja um hnéð“. Þar er að vísu einnig gefin upp merkingin „tréfótur“.
Því er ég að velta þessu fyrir mér að ég hef undanfarið séð teikningar af jólasveini sem er með tvo tréfætur og fengið staðfest að þetta eigi að vera Stekkjarstaur. Um Stekkjarstaur segir nefnilega í jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum að „greyið hafði staurfætur“. Teiknarinn hefur greinilega hent það á lofti að hann hafi misst báða fætur og væri því með tréfót á báðum. Þetta þykir mér hvimleitt, því ég hafði alltaf skilið vísuna þannig að hann ætti erfitt með að beygja á sér hnén og það væri ástæða þess að erfitt væri fyrir hann að sjúga ærnar.
Einkum þykir mér þetta hvimleitt vegna þess hvernig þetta stuðlar að útvötnun tungunnar. Ef staurfótur er tréfótur, hvað á þá að kalla staurfót? Þessi skemmtilega lýsing á stirðbusa er orðin lýsing á úreltu hjálpartæki fólks sem misst hefur fót/fætur. Leiðinlegast er að þetta skuli gerast á vegum fyrirtækis sem annars gefur sig út fyrir að slá skjaldborg um tunguna.
Eða sáuð þið kannski Stekkjarstaur fyrir ykkur með tréfætur?
P. S. Heitir hann ekki ábyggilega Stekkjarstaur? Á jolamjolk.is er hann kallaður Stekkjastaur (án errs).

þriðjudagur, desember 05, 2006

Fullorðnir karlmenn eru ekki með tásur

Fullorðnir karlmenn eru ekki með tásur. Aðeins konur og börn eru með tásur, hin krúttlegustu þeirra jafnvel með táslur. Fullorðnir karlmenn eru með tær og aðeins tær. Meira að segja karlmenn sem þykja sætir, jafnvel krúttlegir, eru með tær – ekki tásur, hvað þá táslur.
Eða hvernig líst ykkur á þetta:

Konungur mælti: „Heldur vil eg því að fulltingja að eigi muni fást jafnljótur fótur og svo þótt eg skyldi veðja um.“
Þá mælti Þórarinn: „Búinn em eg að veðja um það við yður að eg mun finna í kaupstaðinum ljótara fót.“
Konungur segir: „Þá skal sá okkar kjósa bæn af öðrum er sannara hefir.“
„Svo skal vera,“ segir Þórarinn.
Hann brá þá undan klæðunum öðrum fætinum og var sá engum mun fegri og þar var af hin mesta tásan.
Þá mælti Þórarinn: „Sjá hér nú konungur annan fót og er sjá því ljótari að hér er af ein tásan og á eg veðféið.“
Konungur segir: „Er hinn fóturinn því ófegri að þar eru fimm táslur ferlegar á þeim en hér eru fjórar og á eg að kjósa bæn að þér.“
(Úr Heimskringlu (með smábreytingum))

Það sjá allir að þetta gengur ekki.

föstudagur, desember 01, 2006

Litla, gula hænan: In memoriam



Ég fékk ökuréttindi snemma í janúar 1982 þannig að bráðum hef ég verið akandi í aldarfjórðung. Þegar þessi tímamót urðu í lífi mínu átti móðir mín forláta bifreið af tegundinni Autobianchi. Hún var ljósgul og af undirtegundinni Elegant. Á hlið bílsins var lítið málmskilti sem orðið „Elegant“ var letrað á og þóttu það hálfgerð öfugmæli, ef ekki beinlínis blatant lygi, eftir að bíllinn hafði verið í minni umsjá um hríð. Eftir að ég hafði haft bílpróf í einhvern tíma varð það nefnilega úr að ég fékk Autobianchi þennan til umráða.
Í minni fjölskyldu (og víðar þykist ég vita) er það til siðs að gefa bílum nafn. Þannig var fyrsti bíll fjölskyldunnar Trabant sem hét Gagarín og var skreyttur fjólubláum blómum. Mér skilst að Inda frænka hafi gefið þeim bíl nafn eftir að hann hafði drýgt einhverja hetjudáð þegar hetja augnabliksins var einmitt hinn geðþekki, sovéski geimfari. (Þó sennilega nokkrum árum síðar, þótt vissulega sýni þetta hvað ég er orðinn hundgamall.)
Autobianchi þessi fékk fljótlega nafnið Litla, gula hænan í vinahópnum – af því að hann var lítill og gulur. Í fyrstu þótti mér það ekki nógu virðulegt nafn, en smám saman varð ég að samsinna því að auðvitað var Litla, gula hænan hetja á sinni hátt. Alltjent var meira í hana spunnið en hún bar með sér þótt auðvitað sé siðgæði hennar óþrjótandi uppspretta pólitískra þræta. Og svo sannarlega var líka meira í bílinn spunnið en útlitið gaf til kynna.
Hann komst allt. Hann var svo léttur að þegar stærri og kraftmeiri bílar sukku á kaf flaut hann eins og snjóþota yfir hindranirnar. Og þá sjaldan að hann festi sig þurfti engan her heljarmenna til að losa hann. Og svo spratt hann af stað eins og gormur þegar maður gaf inn. Ég þori ekki að hengja mig upp á það, en ég held að þessi bíll hafi verið byggður á sömu grind og smæsti Fíatinn, sem ég held að heiti því frumlega nafni 126, en verið umtalsvert léttari og snarpari sem því nemur. Hægt var að taka 180 gráðu beygju á punktinum (í minningunni). Þessum bíl var svo auðvitað hægt að leggja hvar sem var, þótt á þeim árum hafi bílastæðavandamál ekki verið komin til sögunnar, enda ekki pólitískt markmið stjórnvalda á þeim tíma að hafa hvert mannsbarn á landinu yfir 17 ára aldri skuldsett áraraðir fram í tímann við að borga af sínum splunkunýja prívat bíl.
Þjarkur var þessi bíll líka. Við fórum fimm saman á honum í útilegu í Húsafell með farangur, nesti og allt tilbehör. Að vísu er mamma enn þeirrar skoðunar að hann hafi ekki borið sitt barr eftir það. Kannski má tengja það því að ég ók honum út í skurð í bakaleiðinni. Ég hafði ekið fullgreitt af því að bensínið fór að leka niður úr honum og við vorum að flýta okkur á bensínstöð áður en það yrði búið. Vegfarendur drógu okkur aftur upp á veg og á bensínstöðina komumst við heilu og höldnu. Þar náðum við Einar að gera við lekann með gúmmíhosu og tveim hosuklemmum. Það var varanleg viðgerð sem entist allan líftíma bifreiðarinnar og ekki sást að henni hefði orðið meint af volkinu.
Reyndar tók Litla, gula hænan að drabbast niður smátt og smátt eftir að ég tók við henni. Einu sinni tókst mér til dæmis að aka í veg fyrir jeppa með kerru. Jeppinn sveigði hjá, en kerran reif frambrettið farþegamegin af bílnum í heilu lagi. Ekki sást neitt á kerrunni. Steinn Ármann sat í farþegasætinu og ég held að hann hafi aldrei á ævinni orðið eins hræddur og þegar hann sá jeppatröllið koma æðandi að okkur sitjandi þarna í boxinu.
Síðar fór rafkerfið að bila og ég man að flautan var hætt að virka þegar eitthvað í bílstjórahurðinni klikkaði með þeim afleiðingum að hún lokaðist ekki og binda varð hana aftur með bandi. Einhvern tímann stöðvaði lögreglan okkur við rútínuathugun og fann ekkert athugavert sem betur fer, því ef hún hefði beðið mig um að stíga út úr bílnum hefði ég annað hvort þurft að príla yfir Stein og fara út farþegamegin eða skríða út um gluggann. Þegar við þetta bættist að fljótlega fór að vera erfitt að koma bílnum í gír var auðvitað ekki von á góðu.
Einhvern tímann vorum við að skutla einhverjum í Sparisjóðinn uppi í Norðurbæ og sátum úti í bíl og biðum eftir að hann kæmi til baka. Ég hafði staðnæmst fyrir aftan jeppa sem var þar í stæði. Þá gerðist það að bílstjóri jeppans þurfti að bakka út úr stæðinu. Jeppinn var jafnbreiður og Litla, gula hænan var löng og á háum dekkjum þannig að ekki sá hann mig út um baksýnisspegilinn. Flautan virkaði ekki, svo ekki gat ég varað hann við, og svo notaði bíllinn auðvitað þetta tækifæri til að komast ekki gír. Við gátum því aðeins setið þarna fullkomlega hjálparvana og beðið þess sem verða vildi. Jeppinn bakkaði á okkur og hélt því áfram án þess að ég fengi rönd við reist, alveg þangað til bílstjóri hans fann að þarna væri nú einhver fyrirstaða og fór að kanna málið.
Á þessum bíl lenti ég líka einu sinni í því að ég hélt að vélin væri komin í mask. Það var á malarvegi, ábyggilega á leiðinni úr Húsafelli eða af Hvítárbökkum, þegar þessir ofboðslegu skruðningar og læti tóku að glyma framan úr bílnum. Ég stöðvaði ökutækið, opnaði vélarhlífina og bjóst við að sjá rústir einar, en þar virtist allt í lagi (upp að því marki sem ég var dómbær á það). Í þessu botnaði ég ekki neitt þangað til ég sá að önnur skrúfan sem hélt uppi bílnúmerinu að framanverðu hafði brotnað með þeim afleiðingum að númerplatan var nú lóðrétt og plægði upp veginn eins og tönn í vélskóflu. Nú var ráfað um í sveitasælunni í smástund til að finna lausn sem birtist okkur í gömlu baggabandi sem fokið hafði og sest á nálæga girðingu. Númerið var bundið upp með baggabandinu og ekið sem leið lá í bæinn án frekari málalenginga. Mig rekur ekki minni til þess að baggabandinu hafi nokkurn tímann verið skipt út fyrir öflugri festingu, þótt líklega hafi það nú verið gert.
Einu sinni um þetta leyti var bíllinn í óvenjugóðu skapi og auðvelt að koma honum í gír. Þegar þetta gerðist var töluvert síðan búið átti að vera að skoða hann og greip ég því tækifærið og fór með hann í skoðun niður á lögreglustöð sem þá var við Suðurgötuna í Hafnarfirði, gegnt Gúttó. Skoðunarmaðurinn kom út, settist upp í bílinn og kom honum ekki í bakkgír. Ég settist upp í bílinn og reyndi það, en án árangurs. Þá prófaði hann aftur og tókst það, en bíllinn tók af stað afturábak – út á Suðurgötuna í veg fyrir umferð - án þess að kúplingin virkaði þegar maðurinn steig á hana svo hann steig á bremsuna og kæfði við það vélina. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, séð skoðunarmann beinlínis reiðan, enda nýsloppinn úr lífsháska. Bíllinn fékk rauðan miða með þjósti: Úr umferð – beina leið á verkstæði. Ég hef ekki heldur séð rauðan skoðunarmiða hvorki fyrr né síðar.
Það sem varð þessum undarbíl fyrir rest að aldurtila var sú frámunalega heimskulega ákvörðun mín að fara með hann í smurningu. Ég hafði heyrt talað um að svoleiðis gerðu menn með reglulegu millibili og þar sem ég átti aldrei þessu vant einhvern pening brá ég mér með hann upp á smurstöð, dældaðan, rispaðan og flekkóttan sem hann var orðinn af öllu slarkinu. Þar keyrði ég yfir gryfjuna og bað manninn að skipta um olíu á bílnum. Hann skreið ofan í gryfjuna og skrúfaði tappann neðan úr vélinni, en í stað þess að þaðan læki óhrein olía kom bara ryk svífandi. Hann skrönglaðist forviða upp úr gryfjunni og æpti á mig sárreiður: „Skipta um olíu? Það er engin olía á vélinni til að skipta um!“ Það vantaði bara að hann hnýtti við: „Það eru menn eins og þú sem gera þetta starf viðbjóðslegt! “
Þarna var ég semsagt, án þess að gera mér grein fyrir því sjálfur, búinn að finna upp eilífðarvélina, bílvélina sem ekki þurfti að smyrja. Því daginn eftir að olía var sett á bílinn brotnaði vélin í honum. Það var í Lönguhlíðinni á móts við Háteigskirkju. Bíllinn var dreginn upp í Gufunes þar sem hann er nú grafinn í jörðu.
Svo yndislegur þótti mér þessi bíll að skömmu síðar, þegar ég keypti mér minn eigin bíl í fyrsta sinn, varð einmitt annar Autobianchi fyrir valinu. Þessi var eilítið nýrri árgerð og hvítur. Hann hlaut sæmdarheitið Svanurinn. Átti nafnið að kinka kolli til forvera hans og vera vísun í annað ævintýri um lítinn fugl, andarunga í þessu tilviki. Svanurinn öðlaðist aldrei sömu sögu og sál og Litla, gula hænan, enda lenti hann aldrei í viðlíka ævintýrum, en þó dugði hann ágætlega. Eftir að hafa átt tvær Autobianchi bifreiðar get ég því ekki annað en gefið þeim mín bestu meðmæli.
Það skemmtilegasta við Litlu, gulu hænuna var þó sennilega límmiðinn sem mamma gaf mér til að setja í bakgluggann á henni. Hann var þar alla tíð og olli jafnan kátínu. Á honum stóð stórum stöfum: „PASSION WAGON“ og fyrir neðan, smærra letri: „Don't laugh, your daughter may be inside. “