þriðjudagur, desember 26, 2006

Gleðileg jólHöfum eitt á hreinu. Jól eru ekki kristin hátíð. Orðið „jól“ hefur verið í málinu mun lengur en kristnin í þjóðinni, það er svo fornt að uppruni þess er í raun hulin ráðgáta. Heiðnir menn héldu hátíð í tilefni af vetrarsólstöðum og kölluðu hana „jól“.
Höfum annað á hreinu. Við vitum ekki hvenær ársins Jesús fæddist. Líkurnar á að það hafi verið 24. desember eru einn á móti 365. Hafi hann fæðst þennan dag er það hrein tilviljun. Auk þess fæddist Jesús löngu áður en tímatal okkar var búið til og afar óvísindalegt er að ætla að reikna einstakar dagsetningar aftur í tímann langt aftur fyrir upphaf þess.
Höfum loks á hreinu að Jesús, sá er fæddur var af Maríu þeirri sem kölluð er „Mey“ og píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, var til. Til að trúa því að persónan Jesús Maríuson sé uppspuni frá rótum þarf mun meiri trúgirni en til þess að viðurkenna að hann hafi verið til, heimildirnar eru bara of sannfærandi. Hvað einstök æviatriði hans, ætterni í karllegg og sagnfræðilegan áreiðanleika hinna ýmsu frásagna Nýja testamentisins varðar, þá verða menn hins vegar að ákveða hver fyrir sig að trúa postullegu trúarjátningunni eða ekki – hún verður hvorki sönnuð né afsönnuð með þeim aðferðum sem við beitum hinn mælanlega raunveruleika. Í trúarsannfæringu felst nefnilega meðal annars fullvissa um að til sé sannleikur sem er dýpri og æðra eðlis en sannleikshugtak efnisheimsins. Þannig getur fjöldi manns til dæmis vitnað um áhrif bænarinnar á líf sitt þótt þau séu auðvitað ekki mælanleg með neinum þekktum aðferðum.
En þegar upp er staðið þá er ekkert skrýtið að kristið fólk skuli velja jólin til að fagna fæðingu frelsarans. Það er einfaldlega allt of gráupplagt, öll táknfræðin æpir beinlínis á það. Myrkur (fáfræðinnar, dauðans, mannvonskunnar, óttans og alls sem myrkrið getur táknað) tekur að hopa fyrir birtu (sannleikans, lífsins, kærleikans, friðarins og alls þess sem Jesús stendur fyrir).
Að þessu sögðu vil ég óska landsmönnum öllum árs, friðar og gleðilegra jóla. Ennfremur óska ég ykkur öllum til hamingju með birtuna í lífi ykkar, hvaðan sem hún er runnin.


(Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 12. 2006)

13 ummæli:

Kristín sagði...

Gleðileg jól.

Alda Berglind sagði...

Ég heyrði um daginn (frá danskri vinkonu)að orðið "jól" /"jul" kæmi úr finnsku.

Gleðilega hátíð.

Nafnlaus sagði...

Gleðilega hátíð og takk fyrir pistla ársins sem er að líða.

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð Þór og gleðilega hátíð. Takk fyrir okkar samskipti á árinu og öll gegnum tíðina.

Orðið jól gæti orðsifjafræðilega verið skylt lýsingarorðinu gul. Að því hníga ýmis rök sem er of lang mál að rekja hér.

Ég veit að þú ert anzi verseraður í etýmólógíu og það væri gaman að heyra þína útlistan á þessari kenningu.

Með beztu kveðjum og óskum um gleðilegt nýtt ár,

Magnús Einarsson

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð og jólin og allt það. Ég er að reyna að ná í þig í síma, en númerið sem ég er með á þig virkar ekki. Eins hef ég skipt um póstforrit síðan ég sendi þér síðast póst og er því ekki með netfang á þig. Gætirðu haft samband við mig í 659-0860 eða kolbeinn@kaninka.net og þá mun ég senda þér glaðning um hæl!

kveðja,
Kolbeinn

kerling í koti sagði...

Ég las nýverið einhvers staðar að orðið jól gæti verið dregið af Jólnir sem er eitt af höfnum Óðins og það nafn haldist á þessari sólhvarfahátíð í norrænum löndum þótt kristni kæmist á.

Nafnlaus sagði...

„Líkurnar á að það hafi verið 24. desember eru einn á móti 365.“

Eru þær ekki almennt taldar mun minni en það? Hirðar voru úti með kindur sínar þegar hann fæddist og veturinn er kaldur þar: Betlehem er rétt hjá Jerúsalem, þar sem er þriggja stiga frost akkúrat núna (sé tekið tillit til vinds; það gera kindur eflaust).

Nafnlaus sagði...

Ég las í bók Árna Björnssonar að orðið jól gæti einnig verið komið frá ýlir skv. gamla tímatalinu og hefst í lok nóvember. Annars er Árni með ýmsar kenningar með nafnið. Ég óska þér og þínum gleðilegra jóla og þakka fyrir skrifin þín á árinu. kv. Anna

Nafnlaus sagði...

átti hann ekki að hafa fæðst á jóladag? Það er 25 en ekki 24... annars er mér sama

Nafnlaus sagði...

Jólin eru sett saman úr ýmsum venjum og áttum. Til dæmis sú venja að fjölskyldumeðlimir skiptast á gjöfum. Sá siður er líklega upprunninn í Rómaveldi hinu forna en þar var haldin Satúrnusarhátíð þann 17. desember þar sem ættin kom saman og stundaði þennan skemmtilega sið.

Þaðan má einnig draga nöfn daganna okkar að hluta en Rómverjar nefndu þá alla eftir himintunglum m.a. eftir Satúrnus eins og haldist hefur með laugardag hjá enskumælandi þjóðum.

Svona er nú sagnfræðigrúsk mitt nýtilegt við og við.

Með ósk um góða heilsu og hamingju á nýju ári - Palli Svans

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól og farsælt komandi ár og takk fyrir stórskemmtileg skrif á árinu. Vona að þú haldir áfram á sömu braut! Kær kveðja frá tryggum lesanda af Skaganum og gömlum samstarfsmanni.

Nafnlaus sagði...

Jól voru, og eru, haldin til að fagna endurkomu sólarinnar. Jól og Kristsmessa eru 2 óskyldar hátíðir. Kirkjan færði Kristsmessuna á jólin af hreinum og klárum pólítískum ástæðum á fjórðu öld eftir Krists burð. Áður hafði Kristsmessan verið haldin 25 mars. Sem er reyndar anzi nálægt jafndægri á vori. Vorjafndægur eru talin fæðingardagur Adams af gyðingum. Kirkjan var í grimmri samkeppni við önnur trúarbrögð í árdaga og hikaði aldrei að fórna grundvallaratriðum fyrir ávinning og völd. Hún hikar ekki enn í dag. Afleiðingin er í einföldum máli sú að nú eru jólin orðin að skrípaleik kauphéðna, Græðgisorgía sveipuð helgislepju. Horfið heldur til himins og fagnið lífinu, dásamlegt og ógnvekjandi sem það er. Fagnið endurkomu sólarinnar sem kveikti lífið. Þá má líka þakka í leiðinni fagnaðaerindið sem Jesús Maríuson færði okkur.

Pétur Sigurðsson sagði...

Sæll Davíð og gleðilegt ár, og þakka skemmtilegheit undanfarinna ára.
Einhverntíma heyrði ég Allsherjargoðann segja að eitt nafna Óðins sé Jólnir.