laugardagur, desember 09, 2006

Staurfætur


Ég er alinn upp við þá orðanotkun að þegar einhver er sagður vera með staurfætur þýði það að hann sé stirður á velli. Fyrir mér er staurfótur ekki tréfótur eða frumstætt stoðtæki heldur einfaldlega fótur sem ekki beygist um hnéð, er stífur sem staur, þótt ekki þurfi að taka því bókstaflega. Sá sem er mjög stirðbusalegur, til dæmis í fótbolta eða danslist, gæti þannig verið „óttalegur staurfótur“.
Ég fletti orðinu upp í Orðabók Marðar og þar segir einmitt að staurfótur sé „liðstirður fótur sem ekki er t. d. hægt að beygja um hnéð“. Þar er að vísu einnig gefin upp merkingin „tréfótur“.
Því er ég að velta þessu fyrir mér að ég hef undanfarið séð teikningar af jólasveini sem er með tvo tréfætur og fengið staðfest að þetta eigi að vera Stekkjarstaur. Um Stekkjarstaur segir nefnilega í jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum að „greyið hafði staurfætur“. Teiknarinn hefur greinilega hent það á lofti að hann hafi misst báða fætur og væri því með tréfót á báðum. Þetta þykir mér hvimleitt, því ég hafði alltaf skilið vísuna þannig að hann ætti erfitt með að beygja á sér hnén og það væri ástæða þess að erfitt væri fyrir hann að sjúga ærnar.
Einkum þykir mér þetta hvimleitt vegna þess hvernig þetta stuðlar að útvötnun tungunnar. Ef staurfótur er tréfótur, hvað á þá að kalla staurfót? Þessi skemmtilega lýsing á stirðbusa er orðin lýsing á úreltu hjálpartæki fólks sem misst hefur fót/fætur. Leiðinlegast er að þetta skuli gerast á vegum fyrirtækis sem annars gefur sig út fyrir að slá skjaldborg um tunguna.
Eða sáuð þið kannski Stekkjarstaur fyrir ykkur með tréfætur?
P. S. Heitir hann ekki ábyggilega Stekkjarstaur? Á jolamjolk.is er hann kallaður Stekkjastaur (án errs).

17 ummæli:

Alda Berglind sagði...

stekkur
stekk
stekki
stekkjar

Á örugglega að enda með r-i, en hitt veit ég svo ekki, hvað í ósköpunum stekkur er?

Ekki nema það sé:

stekkjar
stekkjar
stekkjum
stekkja

sem er orð sem ég held ég hafi verið að búa til núna rétt í þessu...

Unknown sagði...

Orðið "Stekkjastaur" skilar ríflega 12.000 niðurstöðum á www.google.com
Orðið "Stekkjarstaur" gefur okkur vel undir þúsund niðurstöður.

Það segir okkur svosem bara að Stekkjastaur sé þekktari en Stekkjarstaur.

En er gaurinn þá staur?

Nafnlaus sagði...

Alveg er ég sammála þér. Ekki sá ég Stekkjarstaur fyrir mér sem forvera Össurar hf., heldur einmitt svein sem átti erfitt með að beygja fætur um hné. Til hvers hefði Jóhannes úr Kötlum annars átt að taka það fram að Stekkjarstaur væri "stinnur eins og tré?"

Stekkur er í ef. annaðhvort stekkjar eða stekks.

Stekkur var nk. rétt sem notuð var til að færa lömbin frá ánum. Lömbin voru tekin frá ánum og sett í sk. lambakró sem var inni í stekknum yfir nóttina til að venja við aðskilnað. Við fráfærur voru ærnar síðan reknar úr stekknum og í sel þar sem þær voru mjólkaðar, en lömbunum væntanlega slátrað.

Nafnlaus sagði...

Jóhannes skrifar „Stekkjastaur.“ Mér finnst það nú líka rökréttara, þar sem hann hefur væntanlega farið á milli margra stekkja. Enda held ég að ég hafi aldrei áður séð þetta skrifað Stekkjarstaur.

Alda Berglind sagði...

Kolbeinn: Vill bara svo til að þú vitir þetta eða flettirðu orðinu upp?
(er það bara ég eða allir aðrir líka?)

Takk!

Nafnlaus sagði...

Ég vissi hvað stekkur var, en játa að ég fletti þessu upp til að fá allt tæknilingóið, kró, fráfærur og það allt.

Í Jólin koma sem ég á stendur svart á hvítu "Stekkjarstaur kom fyrstur..." ég veit ekki hvaðan Eyvindur hefur hitt. Verð þó að viðurkenna að mér finnst hans skýring ansi lógísk, enda væntanlega um fleiri en einn stekk að ræða. T.a.m. heitir hann Pottaskefill en ekki Pottsskefill og Askasleikir en ekki Askssleikir.

Þó gæti hann verið af eintöluætt jólasveinanna, sbr. Þvörusleikir sem ætti að heita Þvarasleikir nema hann haldi sig við einu og sömu þvöruna eða hvað?

Nafnlaus sagði...

Ég hef þá máltilfinningu sá sem er með straurfót sé með fót sem er stirður um hné. Staurfótur sem merking um að viðkomandi sé með tréfót kannast ég ekki við þótt einhver það sé til teikning af svoleiðis fígúru.

Haf þökk fyrir skemmtilega bloggsíðu. Greinin um Lancia bílinn var óborganleg.

-Sjálfur á ég bíl sem fer ekki í gang í rigningu....

Eitt sinn tók ég til í bifreið þáverandi kærustu minnar sem var gömul Zaztava frá Júgóslavíu og fann undir þykku lagi af niðurtrömpuðu rusli, gamla
mjólkurHYRNU. Það þótti mér skrýtið og þykir enn.

Nafnlaus sagði...

Ég hef alltaf séð þetta skrifað Stekkjastaur, en þegar þetta barst í tal hér gúglaði ég þetta bara, og fann eitthvað grunnskólapróf þar sem textinn var skrifaður upp, og þá stóð Stekkjastaur. Ég ætla ekki að fullyrða að kennarinn sem bjó til prófið gæti ekki hafa misskrifað, en mér finnst samt Stekkjarstaur hljóma eitthvað undarlega. En það er kannski bara ég.

Anna Kristjánsdóttir sagði...

Ætli Stekkjarstaur sé þá með tásur eftir allt saman?

Unknown sagði...

Í fyrirsögninni á jólamjók.is er Stekkjastaurinn með engu R-i en þegar gluggað er í textann er nafnið ritað með R-i.

Mér finnst ástæða til að hafa meiri áhyggjur af Giljagaur, hvort það eru einhverjir sem skrifa það með R-i Giljar gaur, það gæti verið áhyggjuefni.

Davíð Þór sagði...

Stekkjarstaur er með tær – ekki tásur!

Og hvað konur og börn varðar ... þá varð það ekki ætlun mín að patrónísera konur með þessari orðanotkun. Hins vegar eiga tær kvenna og barna það sameiginlegt að vera yfirleitt tiltölulega litlar og nettar og alla jafna hárlausar. Fullorðnir karlmenn eru hins vegar með langar, kræklótar og loðnar tær. Þess vegna fannst mér, tásulega séð, óhætt að tala um konur og börn sem einn hóp.

Nafnlaus sagði...

Tásulega séð!! Snilld! Ætli þetta sé í fyrsta skipti sem þetta orðatiltæki er notað? Það verður hins vegar notað oft héðan í frá. Tásulega séð finnst mér...

Nafnlaus sagði...

Ný í athugasemdum hér,hef heimsótt síðuna stöku sinnum og skemmt mér konunglega.
Mér hefur gramist það undanfarið að sjá guttann minn teikna Stekkja(r)staur með tréfætur og reynt að útskýra fyrir honum hvað orðatiltækið þýðir, í samkeppni við mjólkursamsöluna! Hvað ERRIÐ varðar hef ég hins vegar alltaf tekið Stekk sem fleirtölu???

Nafnlaus sagði...

Sæll meistari.
Ég segi Stekkjastaur í fleirtölu stekkjanna sem málið varða, ég bjó eitt sinn það vel að eiga ömmu sem hafði staurfót, og höfðu læknar einmitt gert fótinn þann stífann um hné. Hinsvegar geta karlmenn verið með afbrigðið "tásufýlur" af tábúnaði.

Egill Ó sagði...

Í mínum huga er stekkja(r(whatever))staur einmitt 'stirður eins og tré'. Sá sem er með tréfót, eða nútímalegri gervilimi, er ekki stirður. Þennan skilning á eðli jólasveinsins kemur einmitt úr téðu kvæði.

Öll hugrenningatengsl sem varða tréfætur enda hjá sjóræningjum í mínu hugarkoti.

Egill Ó sagði...

Þessi skilningur meinaði ég.

Cosmo King sagði...

En hvað með Giljagaur? Ætti hann þá ekki að kallast Gilsgaur?