mánudagur, júlí 20, 2009

Fyll'ann gremju


Þegar ég var yngri voru bensínstöðvar staðir þar sem vegfarendur numu staðar ef þá vantaði bensín. Þar var reyndar einnig boðið upp á ýmsa aðra þjónustu fyrir bílinn. Maður var ekki bara spurður hvort ætti að „fyll'ann“ heldur jafnvel líka hvort það ætti að athuga olíuna eða strjúka af framrúðunni. Þetta heyrir sögunni til. Æ víðar eru komnar afgreiðslustöðvar þar sem maður verður sjálfur að veita sér alla þá þjónustu sem mann vanhagar um, væntanlega til að koma í veg fyrir hvimleið persónuleg samskipti við starfsfólk. Eina leiðin til að „fyll'ann“ er að vita fyrirfram upp á krónu hve mikið bensín í viðbót tankurinn rúmar.
Þetta virðist þó ekki gert til að spara starfsfólk. Öðru nær. Flestar bensínstöðvar eru nefnilega orðnar einhver ofursjoppa, jafnvel smákjörbúð með Smáratorgsdrauma. Þar er nú öll áherslan lögð á að bjóða svo fjölbreytt úrval af samlokum, gosdrykkjum, smáréttum, grillmat og útilegudóti, auk þess sem þar eru sjaldnast færri en tvær alþjóðlegar skyndibitakeðjur með aðstöðu, að ekkert pláss er eftir fyrir frostlög eða vinnukonur.
Þá voru loftmælar líka einföld, sjálfsögð og auðskilin tæki og til á öllum bensínstöðvum. Þeir líktust penna sem smellt var á ventilinn. Þrýstingurinn ýtti þartilgerðum pinna út. Því lengra út sem pinninn fór, þeim mun meiri var þrýstingurinn. Allt saman eins frumstætt, analóg og auðskilið og framast gat orðið. Nú hefur bansett framþróunin einnig náð inn á þetta svið. Horfin er sú vinalega spurning: „Getiði lánað mér loftmæli?“ Enda er auðvitað óskiljanlegt hvað samloku- eða hamborgarasali ætti að gera við slíkt tæki. Á bensínstöðvum þar sem eru mexíkanskir skyndibitastaðir er spurningin kannski eðlilegri. Loftleiðslan kemur engum inni á staðnum við, er digítal og tölvuvædd. Maður slær inn æskilegan loftþrýsting og bíður eftir pípi, eftir að einhver góðhjartaður hefur útskýrt fyrir manni hvernig þetta virkar.
Verst er þó að þegar maður lætur móðan mása af réttlátri vandlætingu eftir að hafa heimsótt þá framtíðar-dystópíu sem íslenskar bensínstöðvar eru upp til hópa orðnar, þá góna börnin manns á mann eins og maður sé að missa vitið. Þau heyra ekki hvöss snjallyrði reiða, unga mannsins sem glymja í eyrum manns sjálfs, heldur bara tuð í geðillu gamalmenni sem ekki nær að fylgjast með. Svona læðist tíminn aftan að manni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 18. júlí 2009

mánudagur, júlí 06, 2009

Fréttir og fótbolti

Síðasta sunnudag var úrslitaleikur svokallaðrar álfukeppni í knattspyrnu leikinn. Þar áttust við lið Bandaríkjamanna og margfaldir heimsmeistarar Brasilíumanna. Leikurinn var hin besta skemmtun. Bandaríkjamenn komu verulega á óvart með frækilegri framgöngu og í hálfleik var staðan 2-0 þeim í vil. Þá bitu Brasilíumenn í skjaldarrendur. Þeir skoruðu þrjú mörk í síðari hálfleiknum og fóru með sigur af hólmi. Leikurinn var skólabókardæmi um flest það sem gert hefur knattspyrnu að vinsælustu íþrótt í heimi. Sjónvarpið á heiður skilinn fyrir að sýna leikinn í beinni útsendingu.
Leikurinn fór fram á hefðbundnum fréttatíma hérlendis. Fyrir vikið varð að hliðra fréttatímanum til, eins og áralöng hefð er fyrir þegar heimssögulegir atburðir eða Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva eiga í hlut. Þrátt fyrir þetta sáu einhverjir ástæðu til að fjargviðrast yfir því að fréttirnar skyldu ekki vera á réttum tíma. Einn fór mikinn á blogginu sínu, fannst nú sem Icesave væri mikilvægara en einhver fótbolti og óafsakanlegt að taka afþreyingarefni í hæsta gæðaflokki fram yfir nýjasta þvargið í stjórnmálaleiðtogunum okkar um það viðkvæma mál. Fréttirnar eiga að hans mati að vera klukkan sjö en ekki sex og allt annað að víkja á þeim tíma. Á honum var að skilja að kreppan hans dýrmæta myndi seyrna og skemmast ef hann fengi ekki nýjustu eymdarfréttirnar stundvíslega á hverjum degi.
Auðvitað ætti Sjónvarpið fyrir löngu að vera búið að koma sér upp sérstakri rás til að sýna frá merkilegum viðburðum, sem einhverjir kynnu ekki að hafa áhuga á, í stað þess að dagskráin fari alltaf öll á ská og skjön með reglulegu millibili, t.d. í kringum HM eða EM í fótbolta og Ólympíleika. En í raun er þessi tilfærsla dagskrárliða fyrir löngu orðinn rótgróinn hluti af íslenskri sjónvarpshefð og engum ofraun að fylgjast með því hvenær fréttirnar eru þegar þannig ber undir. Kreppufréttir og Icesave-umræða eru vitaskuld bráðnauðsynlegar lýðræðinu í landinu. En kreppan er ekki að fara neitt. Hún verður hér enn eftir að næsti fótboltaleikur er búinn og líka sá þarnæsti.
Allt hefur sinn tíma. Og stundum er einfaldlega tími til að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða – þótt það sé kreppa.
Bakþankar í Fréttablaðinu 4. júlí 2009