þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Spektir


Að kasta eggjum og tómötum er góð skemmtun. Það er löng hefð fyrir því að það sé táknræn athöfn til að láta í ljós megna óánægju. Enginn meiðist og ekkert skemmist og því er hvorki hægt að flokka það sem ofbeldi né skemmdarverk. Veður og vindar afmá öll vegsummerki á nokkrum dögum. Það er ekki stigsmunur á því að kasta eggum og tómötum og því að kasta grjóti og mólótoffkokteilum, heldur er þar eðlismunur á. Mólótoffkokteilum og grjótkasti er ætlað að skemma og meiða.
Þess vegna er óneitanlega hlægilegt að fylgjast með fréttamönnum, afmynduðum í framan af vandlætingu, segja frá eggja- og tómatakasti eins og um stórhættuleg skrílslæti hafi verið að ræða. Fjallað hefur verið um slíka atburði í tengslum við nýleg mótmæli eins og af þeim hefði getað hlostist stórfellt líkams- og eignatjón. Jafnvel mætti halda að eggjarauður og tómatklessur, svo ekki sé minnst á blaktandi Bónusfána, væru meiri svívirða við Alþingi um þessar mundir en framferði Alþingismanna. Að sífellt fleiri þúsund Íslendinga mæti á Austurvöll til að láta í ljós að afglöp stjórnvalda misbjóði þeim, fellur þannig í skuggann af óeirð örfárra einstaklinga.
Hvað Bónusfánann varðar þá fékk ég ekki greint á myndum að Kalli á þakinu hefði haft mikið nesti með sér þangað upp. Hann hefði því væntanlega komið niður af sjálfsdáðum þegar hungrið hefði farið að sverfa að. Það eina sem hugsanlega hefði getað valdið einhverju eigna- og líkamstjóni í undanförnum mótmælum á Austurvelli voru því aðgerðir lögreglunnar. Samt var ekki sagt frá þeim af viðlíka vandlætingu. Það versta sem hefði getað gerst ef hún hefði látið þetta afskiptalaust er að um síðir hefðu allir farið ómeiddir heim til sín.
Nú má alls ekki skilja þessi orð mín sem svo að ég sé að mæla sóðaskap bót, öðru nær. Það er bara algjör óþarfi að gera úr honum annað og meira en hann í raun og veru er. Þetta eru engin spellvirki. Aukinheldur get ég ekki stillt mig um að benda á tvennt:
Í fyrsta lagi er vitlaust hús að verða fyrir barðinu á þessari gremju. Hún ætti með réttu að beinast að Stjórnarráðinu við Lækjartorg og Seðlabankanum við Kalkofnsveg.
Í öðru lagi er ljótt að henda mat. Þeir sem telja sig geta leyft sér það hafa ekki efni á að kvarta yfir kreppu.

Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 11. 2008.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Obama er ekki hér

(Lag: Hardy Drew and the Nancy Boys/Texti: D. Þ. J.)

Nú bylur á okkur hreint ægilegt drama
en auðvitað'er hér enginn Barack Obama.

Barack er Íri, það allir fá séð,
svo auðmjúkt er fas hans og lipurt hans geð.
Það teldist seint einkenna Íslendings blóð,
enda'er í hyldjúpum skít okkar þjóð.

Þótt hljómi hér óp eins og áður í Rama
er enginn hér hetja sem Barack Obama.

Írskur sem Melkorka og Melkólfur þræll,
mýkri en Guinness og rjóður og sæll,
ei rammur sem hákarl né hrjúfur sem ull
hann þekkir verðmæti önnur en gull.

Hann stendur og fellur í kram allra krama,
kappinn og fullhuginn Barack Obama.

Þó að þú dragir upp logandi ljós
og leitir um baðstofur, hlöður og fjós
þú munt ekki finna hér mann eins og hann.
Mörlandinn glysi og hégóma ann.

Um Imbu og Geira mér alveg er sama.
Ég óska'eftir kempu sem Barack Obama.
Á Fróni er pólitík aðeins til ama.
Við eigum ei neinn eins og Barack Obama.

Klikkaða Alaskakerlingin sár
og kurfurinn hærugrár fella nú tár,
en Írar í Keníu og Jókóhama
ákaft nú hylla þeir Barack Obama.

­Öldungur feyskinn og alvitlaus dama
auðmýkt og sigruð af Barack Obama.

Bandarískt samfélag batnar nú senn
því brátt ráða landinu heiðvirðir menn.
En hvenær, ég spyr, munu Frónbúar fá
forystusauði sem treysta má á?

Hjá okkur er stjórnvaldið alveg farlama
og enginn með dug á við Barack Obama.
Af sjálfsdáðum hófst upp til fræðgar og frama
hinn frómi og hugdjarfi Barack Obama.
Þú heyrir hann tæplega hiksta og stama
hugsuðinn flugmælska Barack Obama.
Alþýðu kjarklausa og leiðitama
eldmóði fyllt getur Barack Obama.
Hálsrauðu durtana gerir hann grama,
garpurinn hugprúði Barack Obama.

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Reiði


Þjóðin er reið. Eðlilega. Það væri ljóta samansafnið af geðluðrum sem ekki reiddist ástandinu sem okkur hefur verið steypt í. Gallinn við reiði er hins vegar sá að hún er í eðli sínu hvorki kærleikur né skynsemi og það er alltaf óhollt að stjórnast af öðru en því.
Sumir reiddust því svo að íslenskur banki væri beittur fjárglæfra- og hryðjuverkalögum að þeir létu taka af sér ljósmyndir til að sanna að þeir væru ekki hryðjuverkamenn. Líklega áttu myndirnar að sýna að hvítt fólk í lopapeysum gæti ekki verið hryðjuverkafólk. Í sömu viku myrti bandaríski herinn nefnilega fjögur hryðjuverkabörn í Sýrlandi án þess að þetta fólk véfengdi réttmæti þeirra ásakana. Auðvitað er bankakerfi sem er tífalt stærra en hagkerfið sem ber ábyrgð á því hreinræktuð fjárglæfrastarfsemi sem heyrir undir þaraðlútandi lög. Hvort eðlilegt sé að þau séu undir sama hatti og hryðjuverkalög er bara allt annað mál.
Aðrir mótmæltu opinberlega en gátu hvorki komið sér saman um hvar, hvenær né hverju. Pólitísk ljósmóðir Davíðs Oddssonar, Jón Baldvin Hannibalsson, hrópaði þar af tröppum mannlauss ráðherrabústaðar að ástandið hefði verið fyrirbyggjanlegt. Enginn viðstaddra virtist átta sig á að besta vörnin hefði auðvitað verið í því fólgin að hleypa ekki af stokkunum tæplega tveggja áratuga harðstjórn hömlulausrar frjálshyggju úti í Viðey árið 1991.
Enn aðrir eru svo reiðir að þeir krefjast þess að strax sé kosið aftur. Þeir virðast trúa að stóra lausnin sé í því fólgin að flytja þingmenn á milli flokkanna fimm sem bera ábyrgð á ástandinu. Sumir vilja kannski meina að tveir þeirra séu stikkfrí. En gleymum ekki að í aðdraganda þessara fyrirsjáanlegu þrenginga voru helstu áhyggjuefni þeirra annars vegar fjöldi Pólverja á Íslandi („vandamál“ sem nú er að leysa sig sjálft) og hins vegar liturinn á ábreiðunum á fæðingardeildinni. Það er gott og blessað að vilja núna afnema eftirlaunaósómann, en það er of lítið of seint.
Reiði getur verið drifkraftur til góðra verka sé hún virkjuð af kærleika og skynsemi. Annars afmyndar hún fólk og sviptir það reisn. Reiðumst því að bankarnir gerðu okkur að þjófum. Reiðumst því að stjórnvöld gerðu okkur að betlurum. En gætum þess að láta reiðina ekki gera okkur að fíflum.

Bakþankar í Fréttablaðinu 9. nóvember 2008