(Lag: Hardy Drew and the Nancy Boys/Texti: D. Þ. J.)
Nú bylur á okkur hreint ægilegt drama
en auðvitað'er hér enginn Barack Obama.
Barack er Íri, það allir fá séð,
svo auðmjúkt er fas hans og lipurt hans geð.
Það teldist seint einkenna Íslendings blóð,
enda'er í hyldjúpum skít okkar þjóð.
Þótt hljómi hér óp eins og áður í Rama
er enginn hér hetja sem Barack Obama.
Írskur sem Melkorka og Melkólfur þræll,
mýkri en Guinness og rjóður og sæll,
ei rammur sem hákarl né hrjúfur sem ull
hann þekkir verðmæti önnur en gull.
Hann stendur og fellur í kram allra krama,
kappinn og fullhuginn Barack Obama.
Þó að þú dragir upp logandi ljós
og leitir um baðstofur, hlöður og fjós
þú munt ekki finna hér mann eins og hann.
Mörlandinn glysi og hégóma ann.
Um Imbu og Geira mér alveg er sama.
Ég óska'eftir kempu sem Barack Obama.
Á Fróni er pólitík aðeins til ama.
Við eigum ei neinn eins og Barack Obama.
Klikkaða Alaskakerlingin sár
og kurfurinn hærugrár fella nú tár,
en Írar í Keníu og Jókóhama
ákaft nú hylla þeir Barack Obama.
Öldungur feyskinn og alvitlaus dama
auðmýkt og sigruð af Barack Obama.
Bandarískt samfélag batnar nú senn
því brátt ráða landinu heiðvirðir menn.
En hvenær, ég spyr, munu Frónbúar fá
forystusauði sem treysta má á?
Hjá okkur er stjórnvaldið alveg farlama
og enginn með dug á við Barack Obama.
Af sjálfsdáðum hófst upp til fræðgar og frama
hinn frómi og hugdjarfi Barack Obama.
Þú heyrir hann tæplega hiksta og stama
hugsuðinn flugmælska Barack Obama.
Alþýðu kjarklausa og leiðitama
eldmóði fyllt getur Barack Obama.
Hálsrauðu durtana gerir hann grama,
garpurinn hugprúði Barack Obama.
4 ummæli:
Vá, snilldin hjá þér maður...
Það verður ekki af þér skafið. Þú ert snillingur. Góður texti hjá þér.
Góður!
Þetta er algjör snilld Davíð!. Bestu kveðjur
Ragga (og Lalli LH)
Skrifa ummæli