þriðjudagur, mars 31, 2009

Týndur sauður

(Lag og ljóð: Bob Dylan/íslenskur texti: D. Þ. J.)

Áður varstu fín og flott í sýn,
þá flæddi kampavín og gæfa þín var ógurleg.
Þig allir voru að fjalla um og skjalla,
undan fæti halla myndi varla á nokkurn veg.
Þú hlóst bæði hátt og snjallt
að hinum sem var ekki gefið allt.
En drambið nú þú deyða skalt,
það dugar skammt ef manni er kalt
og þarf að sníkja bæði brauð og næturstað.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Alltaf vel til fara með aðdáendaskara,
eftirsótt vara, þú þekktir bara gleði og glaum.
Svo brugðust loks þinn eiginn máttur og megin,
nú máttu felmtri slegin þrauka einhvern veginn ein og aum.
Þú sórst þess eið í allmörg sinn
aldrei að fara milliveginn,
en nú er afslátturinn útrunninn.
Enginn er lengur vinur þinn,
nema fyrir greiða í greiða stað.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Aldrei nokkurn tíma í brjálæðisins bríma
þú baksviðs máttir híma né leggja þig í líma, því er ver.
Í innantómum dofa hver draumur fékk að sofa
og daga uppi vofa, því aðrir höfðu ofan af fyrir þér.
Þó að þú umgengist þotulið,
þvælt væri og lúið gullkortið,
nú tekur ómæld einsemd við,
enginn sem stendur þér við hlið,
horfnir þeir sem þú taldir þig eiga að.
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?

Að rista svona grunnt er ekki mörgum unnt,
egósentrísk trunta, bara upp á punt að skemmta sér.
Þú hafðir skotið rótum á heldrimanna mótum
hjá harðsvíruðum þrjótum, en lukkan kippti fótunum undan þér.
Þú gerðir endalaust grín að því
ef gagnrýndu einhver nóboddí
þá gerviveröld sem varstu í.
Þú vissir ekki um neitt svínarí
og hafðir jú ekkert að fela, eða hvað?
Hvernig er það?

Hvernig er það
að vera ein og snauð,
að vera öllum dauð,
að hafa misst sinn auð,
minna á týndan sauð?


Þetta er nýjasta afurð Þorsteins Eggertssonar-heilkennisins míns, áráttukenndrar þráhyggju að þýða erlenda söngtexta.
Like a Rolling Stone hefur verið valið besta rokklag allra tíma. Það hefur lengi verið eitt af mínum eftirlætislögum í heiminum, svo mjög að mér hraus hálfpartinn hugur við að reyna að snara því – mér fannst það jafnvel jaðra við helgispjöll. Auðvitað er þó ekki um eiginlega þýðingu að ræða, heldur aðeins tilraun til að miðla þeim hughrifum sem ég sjálfur verð fyrir af textanum. Ég byrjaði á þessu í haust, en gafst upp í miðju kafi. Í síðustu viku kom andinn yfir mig aftur og ég kláraði þetta.
Bragfræði Dylans er afar sundurleit og handahófskennd. Fjöldi atkvæða í línu virðist varla fylgja neinni reglu, heldur aðeins því hve mörg orð skáldið þurfti til að segja það sem það vildi koma til skila. Þess vegna elti ég ekki heldur ólar við að hafa öll erindin nákvæmlega eins í hrynjandinni.
Í fyrstu fjórum línunum er hins vegar ekki bara hrynjandin út og suður hjá Dylan heldur sjálft bragmynstrið líka. Mér finnst það aftur á móti lýti á íslenskum kveðskap. Þess vegna held ég rímformi Dylans úr fyrsta erindinu (inn- og endaríminu A-A/A-A-B/C-C/C-C-B) til streitu í gegn um öll fjögur erindin. Það kann að virðast mjög anal, en sama er mér. Hitt lítur að mínu mati út eins og höndum hafi verið kastað til við verkið.
Upphaflegi textinn hefur sögulega skírskotun til einstaklinga í áhangendahópi Andys Warhols. Dylan mun hafa fundist ein vinkona sín fara illa út úr veru sinni í honum og ort lagið um það. Sú skírskotun á að mínu mati ekkert erindi í dag, þótt áhugaverð sé. Lagið er einfaldlega löngu vaxið upp úr sögulegum bakgrunni sínum.
Kannski má finna vísun í nýlegri og nærtækari atburði í mínum texta, ég veit það ekki. En finnist einhverjum þessi texti fjalla um einhverja raunverulega persónu, lífs eða liðna, gerir hann það algerlega á eigin ábyrgð – ég sá bara fyrir mér einhverja nafnlausa meikdollu sem sápukúlan sprakk utan af.
Auðvitað er þetta misstirt hjá mér, en ég held að hægt eigi að vera að syngja þetta án mikilla harmkvæla. Langi einhvern að flytja þennan texta við eitthvert tækifæri er honum það frjálst hvar og hvenær sem er, ef hann aðeins getur höfundar.

mánudagur, mars 30, 2009

Iðrun og yfirbót

Það er gott og blessað að biðjast afsökunar. Þegar manni hefur orðið það á að skaða einhvern eða meiða af gáleysi hlýtur það að vera forsenda þess að um heilt geti gróið á ný. Aftur á móti er algerlega ófullnægjandi að láta þar við sitja. Iðrun er góðra gjalda verð, en aðeins ef yfirbót fylgir í kjölfarið.
Ef einhver myndi ræna mig eða skemma eitthvað fyrir mér þætti mér vissulega ágætt að fá afsökunarbeiðni þegar og ef hann sæi að sér. En afsökunarbeiðnin ein og sér myndi ekki gera neitt fyrir mig nema hvað ég fengi það kannski á tifinninguna að viðkomandi væri þess albúinn að bæta fyrir brot sitt og mér liði eilítið betur. Þegar á liði og yfirbótin léti á sér standa væri hins vegar sennilegt að mér þætti þessi afsökunarbeiðni einber hræsni og tilgerð, siðferðileg sjálfsfróun til að auðvelda honum, ekki mér, að lifa með því sem hann gerði mér.
Ef við þetta bættist að viðkomandi sæi fram á dóm fyrir það sem hann gerði mér, dóm sem fyrirgefning mín og vitnisburður um einlæga eftirsjá hans gæti mildað, kynni jafnvel að læðast að mér sá grunur að hugur fylgdi ekki máli. Þá þætti mér líklega einsýnt að afsökunarbeiðinin hefði þjónað þeim tilgangi einum að hjálpa honum að sleppa við afleiðingar gjörða sinna, ekki að bæta mér neinn skaða.
Sumt tjón verður aldrei að fullu bætt. Þó er hægt að fyrirgefa þeim sem veldur því ef maður sér einlæga viðleitni til að bæta ráð sitt hjá viðkomandi, að orð hans og hegðun bendi til þess að hann hafi séð að sér, lært af mistökum sínum og muni ekki endurtaka þau. Þá gæti yfirbótin einfaldlega falist í því að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og taka þeim, undbragða- og bætiflákalaust.
Nú þegar loksins hefur borist einhver vísir að afsökunarbeiðni frá Sjálfstæðisflokknum, hálfu ári eftir að vitfirrt fjármálastjórn hans lagði íslenskt efnahagslíf í eyði, en kortéri fyrir kosningar, er kannski við hæfi að þjóðin hafi þetta í huga. Hvernig iðrun er lýst með því að ekkert hafi verið við stefnuna að athuga, vandamálið hafi verið einstaklingarnir sem framfylgdu henni? Er þá ekki eini lærdómurinn sem dreginn hefur verið af mistökunum sá að skipta þurfi um fólk, ekki stefnu eða stíl? Hefur slíkur flokkur bætt ráð sitt? Hvar er yfirbótin?

þriðjudagur, mars 17, 2009

Gert út á greindarskort almennings

Árdagar búsáhaldabyltingarinnar eru mér enn í fersku minni, þótt þeir virðist mörgum öðrum gleymdir nú. Þjóðin stóð á Austurvelli og barði saman pottum og pönnum til að koma þeim skilaboðum inn í Alþingishúsið að hún væri búin að fá sig fullsadda af vanhæfni og úrræðaleysi valdhafa. Ég man líka að snertileysi Sjálfstæðismanna við raunveruleikann var svo algert að það sem átti að taka til umfjöllunar var frumvarp um að leyfa sölu áfengra drykkja í matvöruverslunum.
Þeir héldu í alvörunni að þeir gætu haldið áfram eins og ekkert hefði ískorist, að óbeit þjóðarinnar á stjórnarfari þeirra og starfaðferðum væri eitthvað tímabundið óþol sem ekkert myndi skilja eftir sig og hægt væri að sitja af sér uns það gengi yfir. Þeir héldu að fólkið með pottanna og pönnurnar væri fámennur hópur kverúlanta og „atvinnumótmælenda“ á launaskrá Vinstri-grænna. Það er nefnilega löng hefð fyrir því innan Sjálfstæðisflokksins að hafa hvítliðasveitir á sínum snærum og þess vegna halda þeir að aðrir flokkar vinni eins. Hvítliðum Sjálfstæðismanna hefur að vísu aðeins einu sinni í lýðveldissögunni verið sigað á almenning, en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.
Margur heldur mig sig. Þannig trúir Davíð Oddsson því að í Fréttablaðinu séu birtar upplognar skoðanakannanir til að koma höggi á sig. Hann vann nefnilega sjálfur á Mogganum í kalda stríðinu og finnst slík vinnubrögð því ekki fráleit.
Þjóðin kom á óvart. Ógeð hennar á ríkisstjórn Geirs Haarde blés henni í brjóst áður óþekktri elju og með seiglunni tókst að svæla Sjálfstæðismenn frá völdum. Þeir kunna því illa og í síðustu viku sóuðu þeir takmörkuðum tíma Alþingis í að mótmæla því að lýðræði í landinu sé aukið og eflt í stað þess að þar sé fjallað um bráðnauðsynlegar efnahagsaðgerðir. Þær hljóta væntanlega að felast í því að koma brennivíni í búðir. Alltjent hafði Sjálfstæðisflokkurinn lítið annað til málanna að leggja þegar hann var í ríkisstjórn og hagkerfið var nýhrunið.
Ekki kom fram í málþófi Sjálfstæðismanna nákvæmlega hve heimska þeir telja kjósendur vera, en ljóst má vera af tilburðunum að þeir álíta þá annað hvort verulega greindarskerta eða minnislausa. Í apríl verður þeim vonandi sýnt að það er ranglega ályktað.
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. 3. 2009

laugardagur, mars 14, 2009

Ómar Reykjavíkur

Grafið mig grunnt er ég kveð
svo nemi ég óminn eyrunum með.
Það hressir mig og gleður mitt geð
gjálfrið í reykvískum ræsum.

Ruslið safnast alls staðar að.
Á Lækjartorgi liggur það.
Skrýðir mjög og skreytir þann stað
skrjáfið í reykvísku rusli.

Ef Smiðjustíg þú smellir þér á
daunill og lúin dúkkar upp krá.
Er húma tekur heyra þar má
háreysti í reykvískum rónum.

Um Laugaveg fer lýður á sveim
druslur að finna og draga með heim,
sig berhátta og böðlast á þeim.
Brakar í reykvískum rúmum.

Á Hlemmtorgi er handrukkað,
lánlausir fíklar lamdir í spað.
Er hrekkur sundur herðablað
hriktir í reykvískum ræflum.

Grafið mig grunnt er ég kveð
svo nemi ég óminn eyrunum með.
Það hressir mig og gleður mitt geð
gjálfrið í reykvískum ræsum.

Þetta er þýðing/staðfæring á írsk-bandarísku ættjarðarkvæði sem lengi hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér, The Rolling Mills of New Jersey. Ég sný því upp í óð til hljómkviðu höfuðborgarinnar.

laugardagur, mars 07, 2009

Staka

Þessa stöku orti ég til konu minnar í gær. Hún er bragfræðilegt stef við gamansögu sem hún sagði mér af tónsmíðaaðferðum Jóhanns Sebastíans Bachs.

Ef yrki ég um atlot þín
og ástar hamingjuna
verð ég bæði að vanda rím
og stuðlasetninguna.

miðvikudagur, mars 04, 2009

Náð og friður


Síðasta sunnudag var æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar. Af því tilefni var ég beðinn að prédika í Grafarvogskirkju og beina orðum mínum sérstaklega til fermingarbarna. Hér er það sem ég sagði:

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hæ. Velkomin í kirkju. Mér er það sönn ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér á þessum Drottins degi. Ég hafði sagt að ég myndi tala út frá guðspjallstexta dagsins, en ég vona að mér fyrirgefist að gera það.
Hefðbundin upphafsorð prédikana, þau sem ég hóf mál mitt á, urðu mér nefnilega tilefni til umhugsunar. Í raun má segja að ég hafi aldrei komist út úr ávarpinu. Í dag er nefnilega æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar og þess vegna er prédíkun dagsins beint að æskunni, einkum fermingarbörnunum. Og hvað þýðir það fyrir fermingarbarn að vera ávarpað með þessum orðum, náð sé með þér og friður? Hvað er það? Hvenær heyrir íslenskt ungmenni þessi orð, annars staðar en í kirkju – og þá yfirleitt án þess að bókstafleg merking þeirra sé útskýrð?
Við verðum nefnilega að varast að gera grunnhugtök trúar okkar að merkingarlausum orðaleppum. Þá er betra að heilsa bara með því að segja Hæ. Það skilja alla vega allir hvað átt er við með því. Náð og friður er nefnilega aðeins meira en bara það hvernig prestum er kennt að segja hæ. Orðin hafa merkingu og þau eru notuð af ástæðu.
Sjálfsagt væri hægt að tengja hugtakið náð við einhvers konar miskunn, það að vera náðaður – þurfa ekki að taka út refsingu sína. En hver er að refsa okkur – og fyrir hvað? Guð refsar okkur ekki. Hann elskar okkur, hann skapaði okkur eins og við erum og færi aldrei að refsa okkur fyrir það sem hann gerði. Við erum aftur á móti sköpuð í Guðs mynd og verkið lofar meistarann. Við erum sem betur fer flest útbúin með fyrirbæri sem kallað er samviska, fyrirbæri sem á stundum refsar okkur harðlega – þegar hún hefur ástæðu til eða telur sig jafnvel ranglega hafa ástæðu til. Náð gæti því verið fólgin í því að vera ekki sífellt pískaður áfram af samviskunni.
Sá sem er undir náð er ekki samviskulaus, en hann hefur kannski ástæðu til að vera sáttur við samvisku sína og samviska hans ástæðu til að vera sátt við hann. Við þurfum ekki að vera fullkomin, við þurfum ekki að vera fallegri eða gáfaðari en við erum, við þurfum ekki stærri brjóst eða meiri vöðva, fleiri tattú eða flottara tan til að Guð elski okkur – til að við getum verið sátt við Guð og menn og, umfram allt, við okkur sjálf.
Sá sem veit að hann er undir náð þarf ekki að vera þjakaður af vanmáttarkennd. Náð getur verið í því fólgin að vita og treysta því að Guð elskar þig eins og þú ert. Hann getur verið ósáttur við eitthvað sem þú gerir og notað samvisku þína til að koma þeim skilaboðum til þín. En hann elskar þig. Náð sé með ykkur öllum.
Hitt orðið, friður, er auðskiljanlegra. Friður fyrir botni Miðjarðarhafsins virðist fjarlægur draumur, það þarf að skapa frið um Seðlabankann, nú er nauðsynlegt að friður ríki á vinnumarkaði.
Ég vona að þið fyrirgefið mér að gerast svolítið fræðilegur í smástund og slá um mig með minni takmörkuðu hebreskukunnáttu. Orðið sem hér er til grundvallar er „shalom“. Það merkir ekki alveg friður. Í Síðari Samúelsbók segir frá því þegar Davíð konungur kallar hraustan hermann sinn, Úría Hetíta, á sinn fund. Hann spyr hann m. a. að því hvernig hernaðurinn gangi. Þar segir bókstaflega að hann spyrji hann um „shalom“ stríðsins. Frið stríðsins?
Hebreska orðið shalom er m. ö. o. ekki andheiti orðsins ófriður. Nær væri að þýða það sem „velgengni“ eða kannski enn frekar „jafnvægi“. Þar sem allt er í lagi ríkir „shalom“ – óháð því hvort þar sé allt með ró og spekt eða ekki. Það fer nefnilega eftir kringumstæðum hverju sinni í hverju jafnvægi eða eðlilegt ástand er fólgið.
Til dæmis má nefna fuglabjarg. Þar á allt að iða af lífi og varla að heyrast mannsins mál fyrir hávaða og gargi. Ef allt er í lagi með fuglabjargið er þar lítill friður. Þar er hins vegar „shalom“. Ef farið væri með eldvörpu á fuglabjargið og öllu lífi eytt þar væri þar meiri friður. Það er hins vegar ekki „shalom“. Á heimili þar sem börn búa er oft lítill friður. Heilbrigð börn leika sér og hafa hátt, skilja dótið sitt eftir í gangveginum og krefjast athygli, jafnvel þótt verið sé að elda mat eða brjóta saman þvott. Þannig á lífið að vera.
Það er ekkert eðlilegt við það að í lífi manns og sál ríki alltaf eitthvað endalaust drottins dýrðarinnar koppalogn. Fólk eldist og deyr. Það er eðlilegt að missa og sakna. Harmur og sorg er eðlilegur hluti mannlegrar tilveru. Það er ekkert eðlilegt við líf sem er laust við allt slíkt. Það er ekkert eðlilegt við það að líða í gegn um lífið á skýi og verða aldrei fyrir neinu áreiti af umheiminum. Það er ekkert eðlilegt við að þekkja ekkert annað hugarástand en einhverja endalausa, sólskinsbjarta sálarró. Það er ekki það sem ég á við þegar ég segi „Friður sé með þér“.
Það hljómar hins vegar dálítið sótthreinsað og klínískt að segja: „Sátt og andlegt jafnvægi sé með ykkur“, þótt það sé kannski eitthvað í þá áttina sem átt er við. Þess vegna segjum við: „Náð sé með ykkur og friður.“ En við segjum meira. Við bætum við þetta orðunum: „... frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.“
Nú um stundir – og ekki bara nú um stundir heldur ansi lengi – hefur mikið verið hamast á fermingunni og henni fundið flest til foráttu. Fermingarbörn hafa engan andlegan þroska til að taka þessa ákvörðun, þau stjórnast af annarlegum hvötum, eigingirni og græðgi. Þau eru ekki orðin sjálfstæðar hugsandi verur og eru að þóknast umhverfinu, þrýstingi foreldra og jafnaldra. Á þessum aldri er ekkert eins hræðilegt og ógnvekjandi og að stinga í stúf, að falla ekki inn í hópinn. Þess vegna fermast allir þótt enginn trúi á Guð. Gott ef ekki heyrist að kirkjan sé að kalla óheyrileg fjárútlát yfir heimilin í landinu til þess eins að drýgja tekjur prestastéttarinnar – af því að hún er svo vond.
Ég ætla ekki að standa hér og hræsna með því að láta eins og öll þessi gagnrýni sé gjörsamlega úr lausu lofti gripin. Ég ætla ekki að telja ykkur trú um að ég sé þess fullviss að hvert einasta fermingarbarn á Íslandi sé svo rótfast og stöðugt í sinni persónulegu trúarsannfæringu að henni verði ekki hvikað það sem það á eftir ólifað. Ég ætla ekki að láta eins og ég geri mér ekki grein fyrir því að í hugum sumra fermingarbarna séu fermingargjafirnar ofar á blaði en náðin og friðurinn frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Ég ætla heldur ekki að láta eins og víða sé ekki gert mun meira tilstand út af fermingunni en að mínu mati er nokkur ástæða til; það þarf ekkert að klára að flísaleggja forstofuna eða skipta um sófasett svo barnið geti fermst.
Fermingarbörn hafa ekki tekið út fullan andlegan þroska, það er alveg satt. Ef ég má gerast persónulegur þá hafði ég reyndar ekki tekið út fullan andlegan þroska á þrítugsafmælinu mínu. Reyndar, þegar ég rifja upp fertugsafmælið mitt fyrir fjórum árum, þá verður mér ljóst að ég hafði ekki heldur tekið út fullan andlegan þroska þá. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að óska þess að ekkert okkar hér inni hafi tekið út fullan andlegan þroska. Lífið á að vera stanslaust þroskaferli. Ef við ætlum að bíða með að fermast þangað til við höfum náð fullum andlegum þroska endar það með því að við verðum að slá fermingunni saman við síðustu smurninguna.
Þessi árgangur fermingarbarna, eins og allir aðrir árgangar á undan honum, á eftir að kynnast tískustraumum í kenningum og hugsun um andleg málefni. Þau eiga eftir að halda áfram að þjálfa rökhugsun sína á spurningunni: Guð, húmbúkk eða heilagur sannleikur? Það er hollt og gott. Mörg eiga eftir að komast að þeirri niðurstöðu að vísindin útskýri mannlega tilveru mun betur en trúin, að Guð sé óþarfur og þarafleiðandi hugarburður. Eflaust eiga þau mörg hver eftir að halda ræður þar sem þróunarkenning Darwins er sögð afsanna kristnar hugmyndir um tilurð mannsins. Að þróun og sköpun geti ekki farið saman þegar mannskepnan er viðfangið, jafnvel þótt hvorki sé hægt að benda á nokkra aðra þróun sem ekki felur í sér sköpun né nokkra aðra sköpun sem ekki felur í sér þróun. Hvort sem um er að ræða vöru, þjónustu eða hugmyndir virðast sköpun og þróun einatt haldast í hendur. Jafnt húsbúnaður sem kökuuppskriftir verða til fyrir samspil sköpunar og þróunar, en uppskrift að manni virðist af einhverjum ástæðum aðeins geta verið annað hvort, samkvæmt þeim sem nú á dögum ganga harðast fram í trúboði fyrir meinta gagnrýna hugsun. En þetta var útúrdúr.
Málið er að lífið gerist. Og við rekum okkur flest fyrr eða síðar á það að lífið lýtur ekki lögmálum gagnrýninnar hugsunar. Við verðum ástfangin af vitlausum aðila, sem er náttúrlega bara heimskulegt. Við gerum eitthvað sem við ætluðum ekki að gera eða, það sem verra er, eitthvað sem við vorum búin að ákveða að gera ekki. Í hundrað barna fermingarhópi munu 10 – 20 eiga eftir að glíma við drykkjuvandamál. Aðeins fleiri munu ganga í gegn um hjónaskilnað, svo ég nefni tvennt sem margir upplifa en enginn velur sér. Þetta er ekkert náttúrulögmál og ég er svo sannarlega ekki að óska neinum neins ills. Ég er bara að horfa hlutlægt á málin og hef enga ástæðu til að ætla að þessi árgangur sé það frábrugðinn öllum öðrum að öll tölfræði varðandi hann verði öðruvísi en um árgangana á undan honum.
Lífið gerist. Og við stöndum frammi fyrir því að hugsun okkar og máttur hrökkva skammt. Við stöndum frammi fyrir því að skynsemi okkar skilar okkur ekki á þá staði í lífi okkar sem við hefðum kosið. Við stöndum frammi fyrir því að við erum ófær um að koma lífi okkar í lag af eigin rammleik. Við erum ósátt og við erum ekki í jafnvægi. Okkur vantar eitthvað.
Þá rifjast það kannski upp fyrir okkur að einhvern tímann í fyrndinni tókum við þá ákvörðun að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar. Kannski áttum við okkur á því að það er ákvörðun sem við höfum ekki staðið við, að einhvern tímann tókum við þá ákvörðun að ákveða eitthvað annað, jafnvel þótt það hafi ekki verið meðvituð og yfirveguð ákvörðun. Við komum okkur upp öðrum leiðtoga – okkur sjálfum. Og kannski áttum við okkur á því að það er sú ákvörðun sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum á.
Og kannski rifjast meira upp fyrir okkur. Kannski rifjast upp hugtökin náð og friður og við gerum okkur ljóst að það er einmitt það sem líf okkar skortir svo sárlega. Jafnvel kynnum við að muna eftir fleiru sem okkur var kennt, til að mynda því að Guð gleðst yfir hverjum týndum sauði sem snýr aftur. Að við erum ávallt velkomin í hans hús, sama hvað við höfum verið lengi í burtu, sama hvað á daga okkar hefur drifið. Þá gerist það að spurningin „Guð, húmbúkk eða heilagur sannleikur“ hættir að vera áhugaverð rökfræðiæfing á framhaldsskólastigi og verður sáluhjálparatriði.
Ef ferminginn nær að lauma þeirri hugmynd að okkur að við erum einstakt og elskað sköpunarverk Guðs, en ekki bara tár í mannhafinu sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi, þá er hún aldrei tilgangslaus, sama hve miklum óþarfa er hlaðið utan á hana. Ef hún nær að sá því fræi í hugskot okkar að kristinn maður er undir náð og að náð Guðs er eilíf og óþrjótandi og stendur öllum til boða, er fermingin alltaf til góðs, sama á hvaða andlega ferðalag við förum í kjölfarið. Ef fermingin verður til þess að við vitum hvar náð er að finna þegar við finnum að það er einmitt hún sem okkur vantar, hafa allir gott af því að fermast.
Að því sögðu langar mig að óska ykkur öllum náðar og friðar frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

mánudagur, mars 02, 2009

Álftagarg úr Svörtuloftum

Nú vikunni henti sá voveiflegi atburður íslenskt efnahagslíf að Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri, tjáði sig opinberlega. Slíkt hefur einatt leitt af sér hinar mestu hörmungar, enda hefur nú verið komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Tjón af þessum toga er nefnilega „fyrirbyggjanlegt“.
Viðtalið var þó hið athyglisverðasta, einkum vegna þess hve glögga innsýn það veitti í hugarheim Davíðs. Til að mynda byrjaði hann á að kannast ekkert við að hann væri óvinsæll. Þótt skoðanakannanir sýndu að 90% þjóðarinnar vildu losna við hann af fóðrunum tók hann ekkert mark á því, enda birtust þær í Baugsmiðlum. Hann dró í efa að þessar kannanir hefðu nokkurn tímann verið gerðar. Hann trúir því m. ö. o. einlæglega að á ritstjórnarskrifstofum Fréttablaðsins sitji þeir Bónusfeðgar og skáldi upp skoðanakannanir, sem aldrei eru framkvæmdar, til að koma höggi á hann.
Þessu til áréttingar sagði hann að fjöldi manna segði hann einan hafa haldið haus í útrásarfárinu og goldið við því varhug. Farið á Youtube og leitið að myndbandinu „Útrásarsöngur Davíðs“. Annað hvort er þar illur tvífari Davíðs á ferð að koma á hann óorði eða minni Davíðs af orðum sínum og gjörðum í fortíðinni er svo selektíft að það hlýtur að jaðra við hreina ósannsögli. Þetta sýnir auðvitað betur en nokkuð annað hvílík nauðsyn það var að koma æðstu peningastofnun þjóðarinnar í hendur fólks sem ekki stendur alveg svona völtum fótum í raunveruleikanum.
Viðtalið fór illa af stað og síðan hélt áfram að syrta í álinn. Ný lög um Seðlabanka beindust gegn honum persónulega og það þótti honum ógeðfellt. Það var ekki eins og þessi sami Davíð hefði forðum daga keyrt fjölmiðlalög í gegn um Alþingi, sem augljóslega miðuðu aðeins að því að knésetja persónulega óvildarmenn hans sjálfs. Hér mætti láta gamminn geysa um grjót og glerhús, flísar og bjálka, en ég læt það ógert.
Burtséð frá því hve geðfellt slíkt er, hlýtur það þó að mega teljast alveg ótrúleg bíræfni að sami Davíð og ákvað upp á sitt einsdæmi að svívirða stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins með því að gera þjóðina meðseka um stríðsglæpi Bandaríkjahers í Írak skuli nú telja sig þess umkominn að upplýsa okkur um geðfellda stjórnsýslu.
Farvel, nafni. Þín verður ekki saknað.
Bakþankar í Fréttablaðinu 28. 2. 2009