laugardagur, mars 14, 2009

Ómar Reykjavíkur

Grafið mig grunnt er ég kveð
svo nemi ég óminn eyrunum með.
Það hressir mig og gleður mitt geð
gjálfrið í reykvískum ræsum.

Ruslið safnast alls staðar að.
Á Lækjartorgi liggur það.
Skrýðir mjög og skreytir þann stað
skrjáfið í reykvísku rusli.

Ef Smiðjustíg þú smellir þér á
daunill og lúin dúkkar upp krá.
Er húma tekur heyra þar má
háreysti í reykvískum rónum.

Um Laugaveg fer lýður á sveim
druslur að finna og draga með heim,
sig berhátta og böðlast á þeim.
Brakar í reykvískum rúmum.

Á Hlemmtorgi er handrukkað,
lánlausir fíklar lamdir í spað.
Er hrekkur sundur herðablað
hriktir í reykvískum ræflum.

Grafið mig grunnt er ég kveð
svo nemi ég óminn eyrunum með.
Það hressir mig og gleður mitt geð
gjálfrið í reykvískum ræsum.

Þetta er þýðing/staðfæring á írsk-bandarísku ættjarðarkvæði sem lengi hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér, The Rolling Mills of New Jersey. Ég sný því upp í óð til hljómkviðu höfuðborgarinnar.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ógeðslega góður textinn þinn á baksíðu Fréttablaðsins í dag. Right to the point.
Takk fyrir.

Þorbjörn sagði...

Nákvæmlega, fullkomlega sammála. Góður bakþanki. Það þarf að halda áfram að minna fólk á.

spritti sagði...

Þetta er vikilega hnittið og skemmtilegt.

Nafnlaus sagði...

Þessi stórkostlega fyrirsögn birtist á vefmiðlinum AMX í morgun: "Logos vann fyrir Baug vegna skaðabótamál á hendur íslenska ríkisins"

Væri ekki tilvalið að koma henni að í málfarshluta Gettu betur?