mánudagur, júlí 26, 2010

Norðlenska hljóðvillan I

Íslensk tunga er dýrasti arfur þjóðarinnar. Íslendingar hafa staðið sig allvel í varðveislu tungunnar, tökuorð eru færri en í flestum öðrum málum og málvillum og öðrum lýtum á hreinni og ylhýrri íslensku hefur miskunnarlaust verið sagt stríð á hendur. Þannig tókst með almennri vitundarvakningu að útrýma flámæli á sínum tíma með því að spotta það og hæða.

Nú er kominn tími til að stíga næsta skref og útrýma með sama hætti hinni hvimleiðu norðlensku hljóðvillu sem svo mjög lýtir mál margra. Norðlenska hljóðvillan einkennist af meiri fábreytni málhljóða en íslensku er sæmandi og gríðarlegri einföldun framburðarreglna. Hún er í raun aðeins aulalegur stafsetningarframburður.

Eitt megineinkenni þessarar hljóðvillu er sú úrkynjun að nefhljóð og hliðarhljóð (l, m og n) eru borin fram rödduð á undan fráblásnum lokhljóðum í orðum eins og „stúlka“, „lampi“ og „menntun“. Þetta eru dönsk áhrif, enda dönsk menningaráhrif meira áberandi á svæðinu þar sem þessi villa hefur skotið dýpstum rótum, heldur en víðast hvar annars staðar á landinu. Dönskukennarar þreytast enda ekki á að benda nemendum sínum á að dönsk orð þar sem þessar samstöfur koma fyrir skuli ætíð bera fram með „akureyrskum“ hreim.

Í fyrstu málfræðiritgerðinni, sem skrifuð var snemma á tólftu öld, er gerð úttekt á hljóðkerfi íslenskunnar. Vissulega hefur margt breyst í framburði manna síðan þá þótt tungan sé nánast hin sama, einkum ritmálið. Meðal þess sem þar kemur fram er að átta málhljóð geti verið „kveðin í nef“. Mörgum þessara nefhljóða hefur íslenskan nú glatað, þótt meginþorri þjóðarinnar hafi góðu heilli varðveitt þau betur en norðlenska hljóðvillan leyfir. Fullyrða má að fjölbreytt nefhljóð, rödduð þegar svo ber undir og órödduð á undan lokhljóðum, séu því bæði upprunalegri og íslenskari, og þar af leiðandi hljómfegurri, en hinn marflati, litlausi og hljómsnauði norðlenski framburður, sem týnt hefur órödduðu nef- og hliðarhljóðunum. Síðan er tilgerðin slík að jafnvel þeir, sem mest hreykja sér af hljóðvillu þessari og leyfa sér að kalla eðlilegan framburð „linmælgi“, gleyma að radda l í orðum eins og „piltur“, „mjaltir“ og „salt“, sem þeir ættu auðvitað að gera væru þeir sjálfum sér samkvæmir.

Í næsta pistli mun ég fjalla áfram um norðlensku hljóðvilluna og þá stafsentingarframburð fráblásinna lokhljóða.

Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 7. 2010

þriðjudagur, júlí 13, 2010

Dómaramistök

Einu sinni var ég dómari í spurningakeppni. Ég tók starfið alvarlega og lagði metnað minn í að vera eins sanngjarn og nákvæmur og mér var unnt. Þegar mér urðu á mistök tók ég þau hugsanlega óþarflega nærri mér. Einu sinni eftir alvarleg mistök sór ég þess eið að þetta skyldi ég aldrei gera aftur.

Samt þáði ég boð um að gera þetta aftur þegar mér bauðst það. En þá setti ég skilyrði, því ég hafði gert mér ljóst hvað olli flestum mistökum. Keppendur svöruðu í flýti, hver ofan í annan og töluðu óskýrt. Svörin bárust eyrum mínum beint frá keppendum en ekki úr hljóðnemunum á borðinu fyrir framan þá, sem tóku upp hljóðið sem sent var út. Áhorfendur heima í stofu heyrðu m.ö.o. betur hvað keppendur sögðu en ég, sem átti að úrskurða hvort svörin væru rétt eða röng. Skilyrðið sem ég setti var að aðstoðardómari sæti í myndstjórninni og benti mér á hugsanleg mistök. Alloft breytti aðstoðardómarinn stigagjöf minni. Sömuleiðis áskildi ég mér rétt til að skoða upptökur af svörum ef ég var í vafa um hvort þau væru rétt eða röng. Það kom fyrir að ég nýtti mér þessa tækni og leiðrétti í kjölfarið fyrri úrskurð. Enginn kvartaði yfir þessu. Engum þótti ég vera að breyta reglunum. Jafnvel liðin sem misstu stig við þetta virtu sanngirnissjónarmiðið.

Þess vegna er það mér hulin ráðgáta hvers vegna knattspyrnuyfirvöld þrjóskast við að taka tæknina í þjónustu sína, jafnvel þegar sjálfur heimsmeistaratitillinn er í húfi. Staðreyndin er sú að HM í knattspyrnu 2010 hefur liðið ótrúlega fyrir yfirsjónir dómara, jafnvel eyðilagt ánægjuna af keppninni fyrir fjölda manna. Í útsláttarkeppninni fullyrði ég að afglöp dómara hafi oftar en ekki ráðið úrslitum, ef ekki um lokatölur þá a.m.k. um framvindu og þróun leikjanna. Það er með öllu óviðunandi. Milljónir áhorfenda um allan heim sjá betur en þeir, sem dæma eiga leikinn, hvað raunverulega á sér stað á vellinum.

Öll rök gegn því að styðjast við upptökur flokkast undir það sem á góðri íslensku heitir kjaftæði. Það væri ekki verið að breyta neinum reglum, heldur einmitt að gera allt sem hægt er til að sjá til þess að réttum reglum sé fylgt. Það væri ekki verið að breyta því hvernig íþróttin er leikin, það væri ekki einu sinni verið að breyta því hvernig hún er dæmd. Það væri aðeins verið að tryggja unnendum hinnar göfugu íþróttar sanngjörn úrslit.

Bakþankar í Fréttablaðinu 10. 7. 2010

mánudagur, júlí 05, 2010

Af hverju skiptir Íslandsdeild Amnesty International sér ekki af máli níumenninganna?

Sem formaður Íslandsdeildar Amnesty International hef ég nokkrum sinnum verið spurður þessarar spurningar að undanförnu. Spurningin er eðlileg og rétt að henni sé svarað. Rúmlega 10.000 félagar í Íslandsdeildinni eiga rétt á því að þeim sé gerð grein fyrir því. Málið hefur að sjálfsögðu verið rætt í stjórn deildarinnar, bæði formlega og óformlega í spjalli stjórnarfólks.

Fyrst mætti kannski nefna að það er meginregla í starfi Amnesty International að landsdeildir vinna alla jafna ekki í málum innan eigin landamæra. Það er grundvallaratriði að samtökin séu og sjáist vera ópólitísk og óháð öllum pólitískum hreyfingum og samtökum. Þau hafa ekki pólitískar skoðanir (í hefðbundinni merkingu). Með þessu móti er reynt að koma í veg fyrir að landsdeildir Amnesty International dragist inn í pólitískar þrætur í löndum sínum. Á þessari meginreglu eru þó auðvitað gerðar undantekningar ef ástæða er til, eins og fjölmörg dæmi eru um. Til dæmis vinna ýmsar deildir í Mið-Evrópu um þessar mundir ötullega í þágu réttinda Roma-fólks í löndum sínum.

Aðalástæða þess að Íslandsdeild Amnesty International hefur kosið að tjá sig ekki opinberlega um mál níumenninganna er einfaldlega sú að ekki er verið að brjóta á mannréttindum þeirra. Þetta krefst e.t.v. útskýringa. Mannréttindi eru nefnilega ekki loðið og óljóst hugtak. Þau eru ekki bundin persónulegum skilningi manna á hugtökum á borð við réttlæti og sanngirni, sem oft er ólíkur á milli einstaklinga. Mannréttindi eru skýrt skilgreint í mannréttindayfirlýsingu SÞ og öðrum mannréttindasáttmálum. Sjálfum finnst mér málshöfðunin á hendur níumenningunum bæði ósanngjörn og óréttlát, en það er persónuleg skoðun mín, byggð á réttlætistilfinningu minni – ekki mannréttindum eins og þau eru skilgreind opinberlega.

Það heyrir ekki undir mannréttindi að vera friðhelgur fyrir opinberri ákæru ef ákæruvaldið telur ástæðu til að leggja hana fram. Það heyrir aftur á móti undir mannréttindi að „njóta réttlátrar, opinberrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómi“ (10. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ). Ekki verður séð að níumenningarnir njóti ekki þeirra réttinda. Þeim er skipaður hæfur verjandi og áfrýjunarréttur þeirra er virtur. Verjandi a.m.k. eins þeirra hefur að auki lýst því yfir að falli dómur ákæruvaldinu í vil verði úrskurðinum áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þannig verður ekki betur séð en að réttindi níumenninganna til sanngjarnar málsmeðferðar séu að fullu virt. Ekki verður heldur ráðið að þeir sæti „pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“ (5. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ) samkvæmt neinum viðteknum skilgreingum þeirra hugtaka.

Nokkuð hefur í þessu sambandi verið rætt um svokallað „opið réttarhald“. Hafa einhverjir kosið að túlka það á þann hátt að dómstólum beri að tryggja að hverjum þeim, sem á því hefur áhuga, skuli kleift að vera viðstaddur réttarhöld. Þetta er ekki rétt skilið. Opnu réttarhaldi er aðeins ætlað að tryggja gegnsæi. Opið réttarhald getur aldrei verið opnara en húsrúm leyfir, að því tilskyldi að húsrúm sé nægilega mikið til að nógu margir geti verið viðstaddir til að áreiðanlegt sé að ekkert fari fram sem ekki þolir dagsins ljós. Öðrum kosti væri hægt að lama framvindu dómsmála með því að neyða dómstóla til að fresta ákveðnum málum þangað til húsnæði á borð við Laugardalshöllina losnar. Að draga mál á langinn með þeim hætti væri tæplega sakborningum í hag. Hafa ber í huga að slíkum brögðum mætti þá líka beita markvisst einmitt í þeim tilgangi að draga mál á langinn.

Reyndar virðist mannréttindaumræðan um mál níumenninganna ekki hafa snúist aðallega um það hvort málsmeðferðin sé sanngjörn og eðlileg, heldur það hvort lögin, sem kært er fyrir, standist mannréttindi. Þau eru svohljóðandi: „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“ (100. gr. almennra hegningarlaga) Samkvæmt orðanna hljóðan er þessari grein ætlað að tryggja að tilraunir til valdaráns með ofbeldi varði við lög og við því séu skýr refsiákvæði. Það er því í raun ekkert í lögunum sjálfum sem ástæða er til að fetta fingur út í út frá sjónarhorni mannréttinda.

Til hins ber þó að líta að nokkurri furðu virðist sæta að ríkissaksóknari meti málavöxtu með þeim hætti að hann telji líklegt að dómur falli ákæruvaldinu í hag, þ.e. að dómstólar telji sannað að níumenningarnir hafi með athæfi sínu gerst brotlegir við einmitt þessa lagagrein. Kemur þar einkum þrennt til:

Í fyrsta lagi er lagaleg skilgreining á „árás“ einskorðuð við líkamlega valdbeitingu, eftir því sem ég kemst næst. Árás með orðum telst því ekki árás skv. lögum heldur heyrir undir önnur lagaákvæði, sem varða t.d. meiðyrði og hótanir.

Í öðru lagi kveður lagagreinin ekki á um refsingu við árás á Alþingi, sem slíkri, heldur kveður hún á um refsingu við árás á Alþingi sem sé með þeim hætti að því eða sjálfstæði þess sé hætta búin.

Í þriðja lagi leggur ákvæði um lágmarksrefsingu aukna sönnunarbyrði á hendur ákæruvaldinu. Því ber m.ö.o. að sanna með óyggjandi hætti bæði að athæfið flokkist undir „árás“, skv. lagalegri skilgreiningu á því hugtaki, og einnig, sé sannanlega um „árás“ að ræða, að hún hafi verið nógu alvarleg til að Alþingi eða sjálfræði þess hafi óvefengjanlega verið hætta búin af henni. Allan vafa á því að svo sé ber að túlka sakborningum í hag.

Þetta gerir það að verkum að Íslandsdeild Amnesty International fylgist með málinu og framvindu þess af miklum áhuga. Á meðan mannréttindi sakborninga eru virt hefur hún þó enga ástæðu til að skipta sér af því með neinum hætti. Þegar niðurstaða fæst í málinu mun deildin að sjálfsögðu kynna sér hana ítarlega og í kjölfar þess taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að aðhafast eitthvað í málinu.