þriðjudagur, júlí 13, 2010

Dómaramistök

Einu sinni var ég dómari í spurningakeppni. Ég tók starfið alvarlega og lagði metnað minn í að vera eins sanngjarn og nákvæmur og mér var unnt. Þegar mér urðu á mistök tók ég þau hugsanlega óþarflega nærri mér. Einu sinni eftir alvarleg mistök sór ég þess eið að þetta skyldi ég aldrei gera aftur.

Samt þáði ég boð um að gera þetta aftur þegar mér bauðst það. En þá setti ég skilyrði, því ég hafði gert mér ljóst hvað olli flestum mistökum. Keppendur svöruðu í flýti, hver ofan í annan og töluðu óskýrt. Svörin bárust eyrum mínum beint frá keppendum en ekki úr hljóðnemunum á borðinu fyrir framan þá, sem tóku upp hljóðið sem sent var út. Áhorfendur heima í stofu heyrðu m.ö.o. betur hvað keppendur sögðu en ég, sem átti að úrskurða hvort svörin væru rétt eða röng. Skilyrðið sem ég setti var að aðstoðardómari sæti í myndstjórninni og benti mér á hugsanleg mistök. Alloft breytti aðstoðardómarinn stigagjöf minni. Sömuleiðis áskildi ég mér rétt til að skoða upptökur af svörum ef ég var í vafa um hvort þau væru rétt eða röng. Það kom fyrir að ég nýtti mér þessa tækni og leiðrétti í kjölfarið fyrri úrskurð. Enginn kvartaði yfir þessu. Engum þótti ég vera að breyta reglunum. Jafnvel liðin sem misstu stig við þetta virtu sanngirnissjónarmiðið.

Þess vegna er það mér hulin ráðgáta hvers vegna knattspyrnuyfirvöld þrjóskast við að taka tæknina í þjónustu sína, jafnvel þegar sjálfur heimsmeistaratitillinn er í húfi. Staðreyndin er sú að HM í knattspyrnu 2010 hefur liðið ótrúlega fyrir yfirsjónir dómara, jafnvel eyðilagt ánægjuna af keppninni fyrir fjölda manna. Í útsláttarkeppninni fullyrði ég að afglöp dómara hafi oftar en ekki ráðið úrslitum, ef ekki um lokatölur þá a.m.k. um framvindu og þróun leikjanna. Það er með öllu óviðunandi. Milljónir áhorfenda um allan heim sjá betur en þeir, sem dæma eiga leikinn, hvað raunverulega á sér stað á vellinum.

Öll rök gegn því að styðjast við upptökur flokkast undir það sem á góðri íslensku heitir kjaftæði. Það væri ekki verið að breyta neinum reglum, heldur einmitt að gera allt sem hægt er til að sjá til þess að réttum reglum sé fylgt. Það væri ekki verið að breyta því hvernig íþróttin er leikin, það væri ekki einu sinni verið að breyta því hvernig hún er dæmd. Það væri aðeins verið að tryggja unnendum hinnar göfugu íþróttar sanngjörn úrslit.

Bakþankar í Fréttablaðinu 10. 7. 2010

2 ummæli:

spritti sagði...

Hjartanlega sammála þér Davíð. Þessi orð mætti einnig beina til annarra íþrótta og íþróttadeilda eins og HM í handbolta, NBA og þ.h.

Nafnlaus sagði...

Það kallar bara á leiðindi, endalaus stopp og hlaup að hliðarlínu til að skoða atvikið aftur og aftur, leikurinn hættir að "flæða", verður steríll og flatur, það sem dómari dæmir stendur, hitt er annað að þar sem spurt er um staðreyndir og svör eru röng eða rétt og ekkert álitamál hvað er rétt eða rangt má vel nýta svona tækni, en ekki í fótbolta.