Íslensk tunga er dýrasti arfur þjóðarinnar. Íslendingar hafa staðið sig allvel í varðveislu tungunnar, tökuorð eru færri en í flestum öðrum málum og málvillum og öðrum lýtum á hreinni og ylhýrri íslensku hefur miskunnarlaust verið sagt stríð á hendur. Þannig tókst með almennri vitundarvakningu að útrýma flámæli á sínum tíma með því að spotta það og hæða.
Nú er kominn tími til að stíga næsta skref og útrýma með sama hætti hinni hvimleiðu norðlensku hljóðvillu sem svo mjög lýtir mál margra. Norðlenska hljóðvillan einkennist af meiri fábreytni málhljóða en íslensku er sæmandi og gríðarlegri einföldun framburðarreglna. Hún er í raun aðeins aulalegur stafsetningarframburður.
Eitt megineinkenni þessarar hljóðvillu er sú úrkynjun að nefhljóð og hliðarhljóð (l, m og n) eru borin fram rödduð á undan fráblásnum lokhljóðum í orðum eins og „stúlka“, „lampi“ og „menntun“. Þetta eru dönsk áhrif, enda dönsk menningaráhrif meira áberandi á svæðinu þar sem þessi villa hefur skotið dýpstum rótum, heldur en víðast hvar annars staðar á landinu. Dönskukennarar þreytast enda ekki á að benda nemendum sínum á að dönsk orð þar sem þessar samstöfur koma fyrir skuli ætíð bera fram með „akureyrskum“ hreim.
Í fyrstu málfræðiritgerðinni, sem skrifuð var snemma á tólftu öld, er gerð úttekt á hljóðkerfi íslenskunnar. Vissulega hefur margt breyst í framburði manna síðan þá þótt tungan sé nánast hin sama, einkum ritmálið. Meðal þess sem þar kemur fram er að átta málhljóð geti verið „kveðin í nef“. Mörgum þessara nefhljóða hefur íslenskan nú glatað, þótt meginþorri þjóðarinnar hafi góðu heilli varðveitt þau betur en norðlenska hljóðvillan leyfir. Fullyrða má að fjölbreytt nefhljóð, rödduð þegar svo ber undir og órödduð á undan lokhljóðum, séu því bæði upprunalegri og íslenskari, og þar af leiðandi hljómfegurri, en hinn marflati, litlausi og hljómsnauði norðlenski framburður, sem týnt hefur órödduðu nef- og hliðarhljóðunum. Síðan er tilgerðin slík að jafnvel þeir, sem mest hreykja sér af hljóðvillu þessari og leyfa sér að kalla eðlilegan framburð „linmælgi“, gleyma að radda l í orðum eins og „piltur“, „mjaltir“ og „salt“, sem þeir ættu auðvitað að gera væru þeir sjálfum sér samkvæmir.
Í næsta pistli mun ég fjalla áfram um norðlensku hljóðvilluna og þá stafsentingarframburð fráblásinna lokhljóða.
Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 7. 2010
8 ummæli:
sjúklega skemmtileg lesning!!!!
Með skemmtilegustu málfræðitextum sem ég hef lesið (og hef ég þó stautað mig í gegnum þá allmarga).
Atli
Sæll Davíð,
Mikið hafa þeir glatt hjarta mitt, pistlarnir þínir tveir um hina norðlensku hljóðvillu. Ég er alinn upp á Akureyri, sem borið er fram Ak Hureyri af þorpsbúum sjálfum. Það er gæfa mín að hafa flutt úr plássinu á níunda ári, tímanlega svo hinn ósmekklegi höggborsframburður sem þar tíðkast festist mér ekki í munni.
Ég hef tilhneigingu til að hætta að hlusta þegar norðlendingar mæla, því grjóthrunsframsögn þeirra veldur mér líkamlegum óþægindum. Ég upplifi að verið sé að beita mig ofbeldi þegar ég neyðist sitja undir þessum ófögnuði.
Kv.,
Mörður (úr Latínu í HÍ hér um árið)
Sæll Davíð
Mig langar að spyrja um orðin sem notuð eru á norðulandi s.s. kók í dós, viskaleður, púnterað(er ekki alveg viss hvernig á að skrifa það).
Er rétt að nota þessi orð eða eru Akureyringar bara svona þrjóskir að þeir halda áfram að nota þau ?
Kv Dísa
Dísa. Þessi orð eru ekki röng, þau eru dönsk.
Dísa, "Kók í bauk" :)
Blessaður, ég er ekki alveg viss hvort að ég geti veri sammála þér varðandi þetta.
Ég bý á Akureyri og hef gert allt mitt líf og ég hef ekki hitt nema örfáa, kannski 5 til 10 manns í allra mesta lagi á ævinni sem að tala svona, og öll eld æva gömul. Ég stórefa meira að segja að það nái jafnvel upp í 50 manns á norðurlandi eystra sem að tali svona.
Ég vil nú ekki vera alltof grófur, en það er algjör vitleysa að þetta sé eitthvað vandamál. Til dæmis hafði ég aldrei heyrt þennan framburð fyrr en einhverjir sunnlenskir krakkar komu á boltamót hér á Akureyri þegar að ég var strákur og þeir fóru að stríða okkur með þessum fáránlega hreim.
Ég held líka að skilgreining okkar í linmælsku sé ekki endilega sú sama. Alvöru linmælska fer meira í taugarnar á mér en sprungnir sperðlar og volgt kók í bauk.
Venjuleg manneskja myndi segja: Það var svo vott og blautt á götunum í Reykjavík að ég þurfti að taka strætó.
Linmæltur myndi segja: Það var svo vodd og blaudd á gödunum í Reygjavíg að ég durfdi að daga drædó.
Glöggt er að þetta hafi lítið að gera með það að draga t.d. m í "prumpa í stampinn". Þetta eru tveir algjörlega ólíkir hlutir
Annars er síðan þín stórskemmtileg.
Kveðjur frá Akureyri, Maggi Villi.
P.S. Pulsa er eintóm danska. Ég hallast líka að því að "að punktera" sé frekar enska (puncture) frekar en danska. En ég hef engar heimildir fyrir því.
Það eru til undantekningar frá röddun. Venjulega er -alt ekki raddað og ég held bara aldrei nema annað atkvæði komi á eftir og enginn raddar -ilt nema þeir sem eru að gera sér upp norðlenskan framburð.
Skrifa ummæli