Mig langar til að deila með ykkur uppgötvun sem ég er tiltölulega nýbúinn að gera og mér finnst alveg stórmerkileg. Ég geri mér grein fyrir því að þessi uppgötvun á eftir að verða umdeild, enda gengur hún þvert á viðteknar skoðanir á viðfangsefninu og gæti valdið uppþoti meðal þeirra fjölmörgu sem helgað hafa líf sitt því að vera öndverðrar skoðunar, hafa jafnvel hagað lífi sínu gagngert þannig að það sanni hið gagnstæða. Þessi merka uppgötvun er á þessa leið: Lífið er auðvelt.
Já, ég veit að þetta hljómar eins og hroki og sjálfumgleði. Einhverjir kunna að hugsa sem svo: "Það má vera að þitt líf sé auðvelt, en þú ættir nú að fara varlega í svona alhæfingar, vinur minn. Þú veist sko ekki hvernig það er að vera ég." Því er rétt að ég útskýri þetta betur. Lífið er auðvitað ekkert auðvelt ef maður vill ekki hafa það þannig. Ef maður gengur um hokinn af þeirri sannfæringu að lífið sé ein þrautaganga um dimman táradal þá bregst það auðvitað ekki, þá munu eymd og erfiðleikar blasa við manni hvert sem litið er. Hvert verk sem þarf að vinna verður auðvitað mun erfiðara ef maður gengur til þess með því hugarfari að þetta verði nú ljóti þrældómurinn sem ósanngjarnt sé af lífinu að leggja á mann. Það er því kannski rétt að bæta aðeins við fullyrðinguna svo hún verði ekki misskilin. Lífið er auðvelt þegar maður hættir að gera sér það erfitt.
Á Skjá einum er um þessar mundir verið að sýna þætti sem heita Worst Case Scenario, sem útleggja mætti sem "Það versta sem getur gerst". Þessi þáttur er sérhannaður fyrir vænisjúka ameríkana og gengur út á að leiðbeina fólki um það hvernig það getur bjargað lífi sínu þegar allt fer í hund og kött. Þarna er fólki meðal annars kennt að henda sér út úr bifreið á ferð, að bregðast rétt við því þegar brjálaður bílstjóri reynir að þvinga það út af veginum og hvað það á að gera ef bremsurnar bila þegar það er einmitt á fleygiferð niður í móti eftir þröngum og kræklóttum vegarslóða. Sjálfsagt eru þetta allt þarfar og góðar upplýsingar og gott að búa að þessari þekkingu þegar maður lendir í þessum aðstæðum. En þegar líf manns er orðið eitt Worst Case Scenario ætti maður kannski að hugsa sinn gang aðeins. Við megum ekki gleyma því að líkurnar á því að maður lendi í þessum kringumstæðum eru hverfandi. Og þegar maður getur ekki farið í bíltúr án þess að vera ávallt viðbúinn því einhver reyni að þvinga mann út af veginum, bremsurnar hætti að virka á lífshættulegum stað og maður verði að vera tilbúinn til að fleygja sér út úr bílnum á ferð ... þá er nú ánægjan af sunnudagsbíltúrnum orðin ansi lítil, ekki satt?
Það er nefnilega ekki það sama að vera viðbúinn hinu versta og að búast stöðugt við hinu versta. Það fyndna er að þegar í harðbakkann slær þá gerir það mann ekkert hæfari til að bregðast við að hafa verið í keng árum saman af áhyggjum yfir því að svo bregðist krosstré sem önnur og allt kunni nú enn að fara á versta veg. Eiginlega þvert á móti. Þeim sem helgað hefur líf sitt og vilja því að það sé kvalræði að vera til og bara tímaspursmál hvenær allt fari í kaldakol fellur allur ketill í eld þegar út af ber, þarna fékk hann kærkomna staðfestingu á því að hans versti ótti hafi verið á rökum reistur og það sé ekki til neins að ætla að stríða gegn beiskum forlögunum, á meðan sá sem er sannfærður um að lífið sé auðvelt áttar sig á því að þetta hefði nú getað farið miklu verr og það hljóti nú að vera hægt að kippa þessu í liðinn.
Þetta er ekki bara eitthvað innihaldslaust hamingjuþrugl í mér, ef þið haldið það. Nei, vísindalegar rannsóknir á heppni hafa leitt í ljós að heppið fólk er í raun ekkert heppnara en annað fólk. Það sem heppið fólk á meðal annars sameiginlegt er að það sér tækifæri þar sem aðrir sjá vesen og að það væntir góðs af lífinu og sú lífssýn skyggir á það sem aflaga fer, því auðvitað sleppur enginn alveg við óhöpp. Ennfremur treystir heppið fólk öðru fólki og er reiðubúið að taka áhættu. Eitt af því sem gerir lífið erfitt, eða öllu heldur: sem maður gerir líf sitt erfitt með, er nefnilega ótti við það hvað aðrir halda um mann. Þessar áhyggjur þjaka heppið fólk í minna mæli en ógæfumenn.
Það er gömul og góð speki að maður myndi hafa miklu minni áhyggjur af því hvað aðrir hugsa um mann ef maður gerði sér grein fyrir því hvað þeir gera það sjaldan. Það er nefnilega í raun alveg dæmalaus frekja að vera að gera sér í hugarlund hvað aðrir halda um mann, að ætlast til þess af öðru fólki að það sé að eyða tíma sínum og orku í að hafa á manni skoðun. Ennfremur er það hrein og bein mannfyrirlitning að ganga alltaf út frá því að fólk haldi hið versta um mann, þar með er maður ekki einasta svo sjálfhverfur að maður sé að gera öðru fólki upp áhuga á manni, heldur er maður aukinheldur að ætla því mannvonsku og illgirni. Eða svo ég vitni í þekkta dæmisögu þá er auðvitað erfitt að fá lánaðan tjakk ef það fyrsta sem maður segir við alla sem á annað borð gætu lánað manni tjakk er: "Eigðu þinn helvítis tjakk sjálfur!"
Nei, lífið er auðvelt. Og það yndislegasta við þessa fullyrðingu er að eftir því sem maður er sannfærðari um að hún sé sönn, þeim mun réttara hefur maður fyrir sér.
(pistill fluttur á Rás 1 26. ágúst síðastliðinn)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli