þriðjudagur, október 04, 2005

Um hamingjuna

Ég á það til að vorkenna sjálfum mér alveg óskaplega mikið. Stundum finnst mér það hreint ekki enleikið hvað forlögin hafa leikið mig grátt og hvað ég verðskulda að staða mín í lífinu sé miklu betri en hún er. Einkum á ég það til að láta hjúskaparstöðu mína valda mér eymd og fá það á tilfinninguna að væri hún skárri myndu öll mín vandamál einhvern veginn leysast af sjálfu sér á svipstundu, að ef ég aðeins gæti komið mér upp ungri, fallegri og hæfileikaríkri kærustu sem sæi ekki sólina fyrir mér þá færi lukkan kannski loksins að brosa við mér og hjól örlaganna að snúast mér í hag. En svo horfi ég á Newlyweds.
Fyrir þá sem ekki vita það er Newlyweds sjónvarpsþáttur á Sirkus, svokallaður rauveruleikasjónvarpsþáttur þar sem segir frá hveitibrauðsdögum hjónakornanna Jessicu Simpson og Nicks Lachleys en þau eru ungt tónlistarfólk í Bandaríkjunum. Nick þessi kemur nokkuð vel fyrir, hann virðist að flestu leyti vera ósköp venjulegur strákur, ekkert ofboðslega djúpur, svolítið massaðari en gengur og gerist og auk þess syngur hann eins og engill og er efnilegur upptökustjóri og útsetjari. Jessica eiginkona hans er vissulega ung, falleg og hæfileikarík, en þar með er eiginlega allt það jákvæða sem hægt er að segja um hana upp talið. Hún er í raun holdgervingur kattarins í sekknum.
Jessicu þessari líður svo illa í sínu eigin skinni að hverja mínútu sem hún nýtur ekki athygli eiginmanns síns óskiptrar líður henni eins og hún sé að hverfa. Hæfileikar hennar til mannlegra samskipta eru í stuttu máli sagt minni en engir og aðeins í því fólgnir að sjúga athygli og orku úr öllum nærstöddum. Í þessum þáttum hef ég meðal annars séð hana fara á límingunum yfir því að Nick greyið færði einhverjar mublur til á heimilinu, eins og ungra, framkvæmdasamra manna er háttur. Mublurnur voru hins vegar ekki eins og hún vildi hafa þær, án þess þó að hún gæti sagt neitt um það hvernig hún vildi hafa þær því hún væri jú ekki innanhússarkítekt. Jessica getur ekki farið út í búð og keypt sér bikíní án þess að uppgötva skömmu síðar að hún borgaði fyrir það tæplega þúsund bandaríkjadali og hringja í kærastann sinn í vinnuna, kjökrandi yfir því að hún hafi ekki vit á að líta á verðmiða, og eyðileggja fyrir honum daginn líka. Í einum þætti var verið að gera myndband við eitt laga Nicks og Jessica mætti á staðinn og eipaði yfir því að dansararnir í því ættu í raun og veru að snerta manninn hennar. Hún linnti ekki látum fyrr en búið var að breyta dansatriðinu og fór heim ánægð með sjálfa sig. Satt best að segja er ég farinn að bíða spenntur eftir því hvaða tittilingaskítur lætur heim Jessicu hrynja í næstu viku.
Þessir þættir hafa fært mér heim sanninn um það að maður skyldi fara varlega í að óska sér ungrar, fallegrar og hæfileikaríkrar kærustu sem sér ekki sólina fyrir manni. Það eitt er greinilega nóg til að gera líf manns að hreinu helvíti á jörð.
Jú, jú. Auðvitað gæti það verið gaman að því tilskyldu að maður væri heppnari en Nick Lachley og hún væri andlega heilbrigð. En maður verður þá líka að vera með það á hreinu til hvers maður vill hana. Ekki til að lappa upp á skaddaða sjálfsmynd eða af því að maður telur sjálfum sér trú um að þannig leysist öll manns vandamál. Slíkt er fyrirfram dæmt til að mistakast.
Ég á það nefnilega til að gleyma því að ég hef átt ungar, fallegar og hæfileikaríkar kærustur sem sáu ekki sólina fyrir mér. Þessar stúlkur eiga fátt sameiginlegt, en þó allar það að vera ekki kærusturnar mínar lengur. Með þeim átti ég dýrðlegar stundir, sem ég sé svo sannarlega ekki eftir, þar sem mér tókst jafnvel þegar best lét að gleyma öllum mínum vandamálum um stundarsakir. En þær leystu þau ekki. Ég er kannski fyrst núna að átta mig á því að ég verð að nota aðrar aðferðir til þess. Það er auðvitað ekkert annað en geðveiki að gera sömu tilraunina aftur og aftur og reikna alltaf með nýrri niðurstöðu. Fyrir utan það hvað það er ósanngjarnt að leggja það á aðra manneskju af holdi og blóði að gera hana að lausn allra sinna vandmála. Enginn rís undir slíku. Og ef kærastan skyldi nú taka upp á því að vilja hætta að vera kærastan manns þá situr maður eftir með allt það ósnert sem maður var að flýja í faðm hennar til að byrja með.
Það er hins vegar ekki geðveiki að læra af reynslunni. Þess vegna reyni ég núorðið í hvert sinn sem ég stend mig að því að vorkenna sjálfum mér vegna bágrar hjúskaparstöðu minnar að muna að það er ekki það sem maður fær sem gerir mann hamingjusaman og að það er ekki það sem maður missir sem gerir mann óhamingjusaman. Það sem ýmist gerir mann hamingjusaman eða óhamingjusaman er það hvernig maður fer með það sem maður hefur.
Og ég treysti því að því betur sem maður fer með það sem maður hefur, þeim mun meira muni manni hlotnast.
(pistill fluttur á Rás 1 12. ágúst síðastliðinn)

Engin ummæli: