þriðjudagur, október 04, 2005

Hin sönnu lífsins gæði

Þegar ég var að alast upp þótti mér ekkert eins fyrirlitlegt og hið svokallaða lífsgæðakapp- hlaup. Ekkert var í mínum huga eins ótöff. Mér þóttu það satt best að segja örlög verri en dauðinn að verða fórnarlamb þess, að helga líf sitt og vilja því einu að koma sér sem best fyrir, eiga flottasta bílinn, stærsta húsið og frönskustu gluggana og gefa skít í það sem skipti máli; listina og lífið og undrið yfir því að vera til.
Nú þegar ég er kominn á þann aldur að ég ætti miðað við meðalævilíkur íslenskra karlmanna að vera að byrja seinni hálfleikinn horfir þetta hins vegar pínulítið öðruvísi við mér. Ekki svo að skilja að mig sé farið að dreyma um Mússójeppa eða að fasteignaauglýsingar séu orðnar mitt eftirlætis lesefni, heldur er ég farinn að leggja aðra merkingu í orðið lífsgæði en áður og finnast kapphlaup í þeim tilgangi að öðlast það, sem ég nota orðið lífsgæði um núorðið, ekkert sérstaklega heimskulegt.
Án þess að gera mér grein fyrir því hef ég nefnilega helgað árin frá því að ég komst til manns annarri tegund af lífsgæðakapphlaupi sem reyndist, þegar upp var staðið, síst gáfulegra en hitt sem ég fortakslaust fyrirleit. Hér á ég við að í stað þess að safna auði safnaði ég minningum, ævintýrum, óvenjulegum uppákomum og svona almennt talað því sem ég hafði talið mér trú um að þætti spennandi fortíð og áhugavert lífshlaup. Þetta var það sem ég leit á sem lífsgæði. Ég öfundaði fólk sem farið hafði á mótórhjóli til Mongólíu, lent í útistöðum við frumbyggja Afríku, búið í kommúnum, sofið hjá Hollywoodstjörnum eða lifað einhvers konar bóhemlífi sem væri efni í viðtal í glanstímariti.
Staðreyndin er hins vegar sú að þannig líf er afskaplega þreytandi til lengdar, einkum vegna þess að í mínu tilfelli var mótórhjólið ekki mótórhjól heldur Fíat bifreið og Mongólía var ekki Mongólía heldur einhver útihátíð eða þegar verst lét einhver íbúð í Hraunbænum, frumbyggjarnir voru ekki frá Afríku heldur yfirleitt frá Grindavík eða einhverjum svoleiðis stað og hvað Hollywoodstjörnurnar varðar þá bera fæst orð minnsta ábyrgð. Bóhemlífið var enn eitt tilbreytingarlaust fyllerí á reykvískri knæpu. Það fyndna er auðvitað að ég var að telja mér trú um að þetta lífsgæðakapphlaup væri eitthvað meira töff en það sem ég var í örvæntingu að forðast að taka þátt í.
Núorðið finnst mér í rauninni ekkert eins töff og það að vera hjartanlega sama um það hvort maður þyki töff eða ekki og ekkert eins ótöff og það að helga líf sitt og vilja því einu að þykja töff.
Sem betur fer virðast mér þessi viðhorf vera að ryðja sér til rúms í síauknum mæli meðal ungs fólks. Vil ég í því sambandi til dæmis nefna hina bráðskemmtilegu Silvíu Nótt á Skjá einum og það hvernig hún tætir sjálfhverfu töffaraskapardýrkunarinnar sundur og saman í miskunnarlausu háði í þáttum sínum og sömuleiðis þann nafnlausa snilling og meinhæðna þjóðfélagsrýni á DV sem er heilinn á bakvið hina kostulegu en vanmetnu fígúru Egil Gilzenegger, sem öðru hverju skrifar pistla í blaðið þar sem niðurstaðan er ávallt sú sama: sá sem hér heldur á penna er of illa gefinn til að geta haldið á penna og hugsað skýrt samtímis. Mótsagnirnar í þeim skrifum eru svo fyndnar og skemmtilegar að oftar en ekki skellir maður upp úr við lesturinn.
Um daginn skrifaði hann til dæmis pistil þar sem hann byrjar á að lýsa því yfir að sjálfur sé hann fáránlega skemmtilegur og telur svo upp alla sem eru að hans mati leiðinlegir, en á þeim lista er einkum fólk sem sýnir því áhuga sem það er að gera, einkum þó þá sem sjá ástæðu til að hafa skoðanir. Og Guð hjálpi þeim sem eru svo ótöff að hafa hugrekki til að berjast fyrir þeim. Og svo á maður að trúa að náungi sem hefur ekkert merkilegra að skrifa um en það hvað aðrir séu leiðinlegir sé skemmtilegur.
Til að bæta gráu ofan á svart lítur Egill þessi Gilzenegger á sjálfan sig sem holdgerving karlmennskunnar, en að hans mati gengur hún út á að forðast andlegt erfiði eins og heitan eldinn, nota dagkrem og næturkrem og brúnkukrem, vera með strípur, raka af sér bringuhárin og plokka augabrúnirnar þannig að ef hann hefði verið að alast upp í Hafnarfirði á sama tíma og ég hefði hann aldrei verið kallaður annað en Egill píka.
Það besta við Gilzenegger er þó að jafnvel þótt hann væri raunveruleg persóna þyrfti ég ekki að hafa neinar áhyggjur af því að kalla hann sjálfhverfan fæðingarhálfvita í þessum pistli. Hann væri auðvitað allt of töff, ekki bara til að hlusta á Rás 1 og heyra það, heldur líka til að viðurkenna að það kæmi honum í uppnám hvað lúða eins og mér finnst, lúða sem finnst ekkert eins töff og það að líða vel í sínu eigin skinni eins og skaparinn sneið það utan um mann. Það eru sönn lífsgæði að mínu mati. Það er þess virði að að því sé keppt.
(pistill fluttur á Rás 1 . 17. júní 2005)

Engin ummæli: