Framlag mitt til læknisfræðinnar er ekki neitt. Ég hef ekki fundið upp svo mikið sem plástur, hvað þá einhver lyf eða læknismeð- ferðir sem gert hafa líf einhverra bærilegra. Að ég hafi uppgötvað orsakir einhverra kvilla sem síðan hafi orðið til þess að hægt væri að lina þjáningar þeirra sem af þeim þjást er af og frá. Aðkoma mín að heilbrigðiskerfinu hefur alfarið einskorðast við hlutverk skjólstæðingsins og ekkert bendir til þess að á því verði breyting í þessu lífi.
Sama gildir um aðrar tækniframfarir, ég get ekki þakkað sjálfum mér neitt af þeim. Þar sem ég sit hér við tölvuna mína og sötra espressó í morgunsárið verð ég að játa að inniviðir bæði tölvunnar minnar og espressóvélarinnar eru mér jafnmikil ráðgáta og að eina ástæðan fyrir því að ég nýt góðs af þessari tækni er sú að hvort tveggja fæst úti í búð ásamt leiðbeiningum um notkun þessara tækja.
Það er með öðrum orðum ekki vegna neinna verðleika sjálfs mín sem ég nýt þeirra lífsgæða sem ég bý við heldur get ég einvörðungu þakkað það því að vera 21. aldar Íslendingur og satt best að segja rekur mig ekki minni til þess að það hafi verið upplýst ákvörðun hjá mér. Af þessu dreg ég í fyrsta lagi þá ályktun að ef ég hefði fæðst í árdaga mannkynsins hefði það sennilega ekki verið ég sem fann upp hjólið heldur einhver sem í dag er að finna upp plástur, tölvur eða espressóvélar og í öðru lagi að ástæða þess að ég fæddist ekki í árdaga mannkynsins heldur fyrir rétt rúmum fjörutíu árum hér uppi á Íslandi sé það sem á góðri íslensku er kallað hundaheppni.
Það má því að mínu mati færa gild rök fyrir því að það sé ekkert annað en helber hroki og tilætlunarsemi í mér að líta á aðgang minn að plástrum, tölvum og espressóvélum, svo fátt eitt af því sem gerir líf mitt þægilegra sé nefnt, sem sjálfgefinn og að á mér væri á einhvern hátt svindlað eða ég sviptur einhverju sem ég ætti rétt á, hefði unnið mér inn fyrir og verðskuldaði væri þetta tekið af mér.
Því er ég að hafa orð á þessu að það fer stundum í taugarnar á mér hvað við Íslendingar getum bölsótast út af þeim lúxusvandamálum sem við glímum við hverju sinni. Á sama tíma og það er helsta baráttumál íslenskra kvenna að njóta launajafnréttis eru konur víða um heim að berjast fyrir því að njóta meiri réttinda en húsdýr. Á sama tíma og það er helsta baráttumál íslenskra homma og lesbía að fá að ættleiða börn eru hommar og lesbíur víða um heim að berjast fyrir því að fá að ganga laus og þegar verst lætur að eiga ekki yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir kynhneigð sína. Á Íslandi gengur erfiðlega að fá starfsfólk á elliheimili á sama tíma og víða um heim væri erfitt að fá vistmenn á elliheimili, væru þau yfirhöfuð til, vegna þess að meðalævilíkur fólks réttlæta einfaldlega ekki tilvist slíkra stofnana. Á Íslandi höfum við áhyggjur af offitu meðal barna á sama tíma og tugþúsundir barna deyja úr hungri annars staðar á hnettinum dag hvern. Á Íslandi þurfa þeir sem stjórnvöldum stafar ógn af að óttast um starfsframa sinn og atvinnuöryggi á sama tíma og þeir sem eru stjórnvöldum erfiður ljár í þúfu víða um heim hafa ástæðu til að óttast, ekki bara um líf sitt og limi heldur einnig ástvina sinna. Á Íslandi höfum við áhyggjur af nokkrum tugum vegalausra ungmenna sem leiðst hafa á glapstigu og eru á götunni á sama tíma og börn fæðast og eru alin upp á götunni í erlendum stórborgum þar sem stjórnvöld hafa gripið til þess ráðs að gera út vopnaðar sveitir manna til að útrýma þeim eins og um rottuplágu væri að ræða.
Nú má ekki skilja þessi orð mín sem svo að ég sé að gera lítið úr þessum vandamálum og halda því fram að allt sé í lukkunnar velstandi hér á Fróni. Mér dettur ekki í hug að gefa annað í skyn en að víða sé pottur brotinn hér á landi og margt megi betur fara. Auðvitað er það hið versta mál að konur eigi erfiðara uppdráttar í atvinnulífinu en karlar, að samkynhneigðir njóti ekki sömu réttinda og gagnkynhneigðir á öllum sviðum, að Íslendingar éti sér til óbóta frá blautu barnsbeini og forkastanlegt að stjórnvöld skuli með skjalafölsunum, kúgunum og atvinnurógi keyra í gegn stórkostleg, óafturkræf umhverfisspjöll þvert á landslög og allt almennt siðferði svo ekki sé minnst á þá skelfilegu ógn sem æsku landsins stafar af eiturlyfjavandanum. En ég held samt að við ættum öðru hverju að bera okkur saman við blákaldan raunveruleikann eins og hann blasir við öllum þorra þeirra manneskja sem við deilum reikistjörnunni með en ekki bara einhverja útópíska draumsýn sem hvergi er til nema í bókum og stefnuskrám stjórnmálaflokka.
Ef við gerðum það myndum við nefnilega uppgötva tilfinningu sem er stórkostlega vanrækt en er í senn falleg, göfgandi og bráðholl fyrir sálina og magasýrurnar. Þessi tilfinning nefnist þakklæti.
Íslenskar konur eru ekki að berjast fyrir því að fá launaumslög heldur þykkari launaumslög. Íslenskir stjórnmálamenn eru hreinir götustrákar miðað við þau siðblindu varmenni sem ráða ríkjum víða annars staðar. Við höfum margt til að vera þakklát fyrir, ekki bara tölvur og espressóvélar.
Það væri líka að mínu mati sjálfsögð tillitsemi við þá, sem víða um heim eru að hætta lífi sínu í baráttu fyrir mannréttindum, sem við Íslendingar erum farnir að líta á sem jafnsjálfsögð og súrefnið sem við öndum að okkur og tökum ekki eftir frekar en súrefninu sem við öndum að okkur, að eyða þó ekki væri nema broti af þeim tíma, sem við eyðum í gremju yfir því sem okkur vantar, í þakklæti fyrir það sem við höfum.
(pistill fluttur á Rás 1 19. ágúst síðastliðinn)
Sama gildir um aðrar tækniframfarir, ég get ekki þakkað sjálfum mér neitt af þeim. Þar sem ég sit hér við tölvuna mína og sötra espressó í morgunsárið verð ég að játa að inniviðir bæði tölvunnar minnar og espressóvélarinnar eru mér jafnmikil ráðgáta og að eina ástæðan fyrir því að ég nýt góðs af þessari tækni er sú að hvort tveggja fæst úti í búð ásamt leiðbeiningum um notkun þessara tækja.
Það er með öðrum orðum ekki vegna neinna verðleika sjálfs mín sem ég nýt þeirra lífsgæða sem ég bý við heldur get ég einvörðungu þakkað það því að vera 21. aldar Íslendingur og satt best að segja rekur mig ekki minni til þess að það hafi verið upplýst ákvörðun hjá mér. Af þessu dreg ég í fyrsta lagi þá ályktun að ef ég hefði fæðst í árdaga mannkynsins hefði það sennilega ekki verið ég sem fann upp hjólið heldur einhver sem í dag er að finna upp plástur, tölvur eða espressóvélar og í öðru lagi að ástæða þess að ég fæddist ekki í árdaga mannkynsins heldur fyrir rétt rúmum fjörutíu árum hér uppi á Íslandi sé það sem á góðri íslensku er kallað hundaheppni.
Það má því að mínu mati færa gild rök fyrir því að það sé ekkert annað en helber hroki og tilætlunarsemi í mér að líta á aðgang minn að plástrum, tölvum og espressóvélum, svo fátt eitt af því sem gerir líf mitt þægilegra sé nefnt, sem sjálfgefinn og að á mér væri á einhvern hátt svindlað eða ég sviptur einhverju sem ég ætti rétt á, hefði unnið mér inn fyrir og verðskuldaði væri þetta tekið af mér.
Því er ég að hafa orð á þessu að það fer stundum í taugarnar á mér hvað við Íslendingar getum bölsótast út af þeim lúxusvandamálum sem við glímum við hverju sinni. Á sama tíma og það er helsta baráttumál íslenskra kvenna að njóta launajafnréttis eru konur víða um heim að berjast fyrir því að njóta meiri réttinda en húsdýr. Á sama tíma og það er helsta baráttumál íslenskra homma og lesbía að fá að ættleiða börn eru hommar og lesbíur víða um heim að berjast fyrir því að fá að ganga laus og þegar verst lætur að eiga ekki yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir kynhneigð sína. Á Íslandi gengur erfiðlega að fá starfsfólk á elliheimili á sama tíma og víða um heim væri erfitt að fá vistmenn á elliheimili, væru þau yfirhöfuð til, vegna þess að meðalævilíkur fólks réttlæta einfaldlega ekki tilvist slíkra stofnana. Á Íslandi höfum við áhyggjur af offitu meðal barna á sama tíma og tugþúsundir barna deyja úr hungri annars staðar á hnettinum dag hvern. Á Íslandi þurfa þeir sem stjórnvöldum stafar ógn af að óttast um starfsframa sinn og atvinnuöryggi á sama tíma og þeir sem eru stjórnvöldum erfiður ljár í þúfu víða um heim hafa ástæðu til að óttast, ekki bara um líf sitt og limi heldur einnig ástvina sinna. Á Íslandi höfum við áhyggjur af nokkrum tugum vegalausra ungmenna sem leiðst hafa á glapstigu og eru á götunni á sama tíma og börn fæðast og eru alin upp á götunni í erlendum stórborgum þar sem stjórnvöld hafa gripið til þess ráðs að gera út vopnaðar sveitir manna til að útrýma þeim eins og um rottuplágu væri að ræða.
Nú má ekki skilja þessi orð mín sem svo að ég sé að gera lítið úr þessum vandamálum og halda því fram að allt sé í lukkunnar velstandi hér á Fróni. Mér dettur ekki í hug að gefa annað í skyn en að víða sé pottur brotinn hér á landi og margt megi betur fara. Auðvitað er það hið versta mál að konur eigi erfiðara uppdráttar í atvinnulífinu en karlar, að samkynhneigðir njóti ekki sömu réttinda og gagnkynhneigðir á öllum sviðum, að Íslendingar éti sér til óbóta frá blautu barnsbeini og forkastanlegt að stjórnvöld skuli með skjalafölsunum, kúgunum og atvinnurógi keyra í gegn stórkostleg, óafturkræf umhverfisspjöll þvert á landslög og allt almennt siðferði svo ekki sé minnst á þá skelfilegu ógn sem æsku landsins stafar af eiturlyfjavandanum. En ég held samt að við ættum öðru hverju að bera okkur saman við blákaldan raunveruleikann eins og hann blasir við öllum þorra þeirra manneskja sem við deilum reikistjörnunni með en ekki bara einhverja útópíska draumsýn sem hvergi er til nema í bókum og stefnuskrám stjórnmálaflokka.
Ef við gerðum það myndum við nefnilega uppgötva tilfinningu sem er stórkostlega vanrækt en er í senn falleg, göfgandi og bráðholl fyrir sálina og magasýrurnar. Þessi tilfinning nefnist þakklæti.
Íslenskar konur eru ekki að berjast fyrir því að fá launaumslög heldur þykkari launaumslög. Íslenskir stjórnmálamenn eru hreinir götustrákar miðað við þau siðblindu varmenni sem ráða ríkjum víða annars staðar. Við höfum margt til að vera þakklát fyrir, ekki bara tölvur og espressóvélar.
Það væri líka að mínu mati sjálfsögð tillitsemi við þá, sem víða um heim eru að hætta lífi sínu í baráttu fyrir mannréttindum, sem við Íslendingar erum farnir að líta á sem jafnsjálfsögð og súrefnið sem við öndum að okkur og tökum ekki eftir frekar en súrefninu sem við öndum að okkur, að eyða þó ekki væri nema broti af þeim tíma, sem við eyðum í gremju yfir því sem okkur vantar, í þakklæti fyrir það sem við höfum.
(pistill fluttur á Rás 1 19. ágúst síðastliðinn)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli