mánudagur, desember 05, 2005

Það sem ég lærði af sjónvarpinu í síðustu viku


1. Þegar ég var yngri var rómantík tilfinning á milli karls og konu. Hún spurði ekki um stað og stund, stétt eða (fjárhags)stöðu. Núna er rómantík búin til úr egypskri bómull og seld í rúmfataverslun við Grensásveg. Það þarf ekki einu sinni konu. (Þessi þróun hefur auðvitað augljósa kosti.)

2. Ef geimfarar drekka orkudrykk þegar þeir eru á sporbaug um jörðina verður hræðilegt slys, flaugin fer eitthvað út í geiminn og ekkert spyrst til hennar framar.

3. Ef maður notar tannkrem sem verndar viðkvæmar tennur og gerir þær hvítari fer maður að tala þannig að varahreyfingarnar passa ekki við það sem maður segir.

4. Að syngja með jafndrepleiðinlegri hljómsveit og INXS hlýtur að láta hvern mann á endanum grípa til örþrifaráða til að stytta sér stundir ef ekki aldur.

5. John Lennon hafði gaman af "drikkju". (Ég á hins vegar eftir að komast að því hvað það er.)

6. Allir geta fengið Avis kort og losnað þannig við að standa í biðröð. (Hvernig þeir ætla að leysa biðraðavandann þegar allir eru komnir með Avis kort er mér hins vegar enn hulin ráðgáta.)

7. Dag hvern svelta 40.000 börn í hel. Til að berjast gegn því er af einhverjum ástæðum skynsamlegra að éta fjórréttaðan galakvöldverð og eyða 21 milljón í málverk sem maður hefur ekki einu sinni séð heldur en að gefa 21 milljón plús andvirði fjórréttaðs galakvöldverðar til hjálparstarfs.

8. Til er kjöthitamælir fyrir gæðinga. Ég sem hélt að þeir væru yfirleitt ekki étnir.

9. Skjár 1 getur ekki boðið upp á dagskrá allan sólarhringinn því þá þyrftu þeir að endursýna hvern einasta þátt 30 sinnum, en eins og allir vita er 20 sinnum hæfilegt.

10. Það er svo mikið af peningum í bókaútgáfu að það er eðlilegasti hlutur í heimi að rithöfundur láti farga allri fyrstu prentun bókar sinar rétt áður en hún fer í dreifingu af því að hann fær þá flugu í höfuðið á síðustu stundu að hún mætti vera styttri. (Einhver góðhjartaður maður mætti benda Hallgrími Helgasyni á þetta.)

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hvort hrossakjötsát tíðkast meðal gæðingaeigenda, enda hef ég aldrei átt gæðing. En hitt veit ég að ég varð svo fræg að fá að klappa Hrafni frá Holtsmúla sumarið áður en hann var felldur og þann gæðing hefði ég ekki viljað leggja mér til munns frekar en sjálfdauðan hund. Kannski þessi vara, kjöthitamælir fyrir gæðinga, sé fyrir markhópinn sem stundar fjórréttað galakvöldverðsát, því það fólk fer varla að leggja sér til munns kjöt af einhverjum plebbahrossum.

Þórunn Gréta sagði...

Úps, þetta varð óvart nafnlaust....

Oskar Petur sagði...

Í hvaða þætti sástu "drikkju" JL?

Nafnlaus sagði...

Hahahaha... alltaf er nú stutt í gamla góða pirringinn og vesserbissið þrátt fyrir fróm fyrirheit um að horfa jákvæðum og umburðarlyndum augum á umheiminn. Hahahahaha...

Kveðja,
Jakob

Davíð Þór sagði...

Drikkjan var í sjónvarpsauglýsingu fyrir bókina um John Lennon. Ég sá reyndar að það var búið að breyta auglýsingunni og setja ufsilon í hana.