fimmtudagur, desember 15, 2005

Júbí og Djeibí


Júbí

Þá er hún Unnur Birna okkar (eða Júbí eins og hún kallar sig núna) orðin Ungfrú heimur. Sjálfur er ég enginn aðdáandi fegurðarsamkeppna og fylgdist ekki með þessu. Hins vegar er varla nokkrum blöðum um það að fletta að hún hlýtur að hafa staðið sig þokkalega, stelpan, hvað svo sem segja má um réttmæti þess sem hún var að standa sig í.
Mér finnst varla nein ástæða til að fetta fingur út í það að henni sé óskað til hamingju með þetta. Það fellur varla undir starfslýsingu forsætisráðherra að fella dóma um réttmæti fegurðarsamkeppna. Hins vegar fellur það að sönnu undir starfslýsingu hans að senda fólki hamingjuóskir sem nær árangri í nafni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Reyndar blæs ég á allt þetta tal um að í Júbí sé einhver landkynning fólgin. Ég hef alla vega ekki enn hitt neinn sem veit hverrar þjóðar ein einasta alheimsfegurðardrotting hefur verið síðastliðin tíu til fimmtán ár. Keppnin verður ekkert merkilegri en hún hefur verið bara af því að Íslendingur vann í ár.
Ég er ekki heldur neinn aðdáandi hnefaleika og finnst þeir draga upp úrelta mynd af karlmennsku, að hún gangi út að vera flinkur að lumbra á öðrum. Hins vegar þætti mér eðlilegt ef Íslendingur yrði heimsmeistari í hnefaleikum að forsætisráðherrann óskaði honum til hamingju með það, jafnvel þótt íþróttin sé bönnuð á Íslandi og mér finnist hún lágkúruleg. Fegurðarsamkeppnir eru að minnsta kosti ekki ólöglegar.
Vissulega má til sanns vegar færa að það sé niðurlægjandi fyrir konur að spranga um á bíkíníi og láta leggja mat á sig eins og hvern annan hlut. Það er þó ekki niðurlægjandi fyrir neinar aðrar konur en þær sem sjálfar taka þá ákvörðun að taka þátt í því, og að mínu mati ekki næstum því eins niðurlægjandi og að standa á Arnarhóli með skilti sem á stendur: Niður með Sverri Stormsker.
Einhvern veginn finnst mér hnefaleikar ekkert niðurlægjandi fyrir mig þótt mér finnist þeir vera það fyrir þá sem taka þátt í þeim, að láta etja sér saman eins og hönum fyrir peninga.

Djeibí

Gaman að endurkomu Jóns Baldvins. Hann talar þannig að maður nennir að hlusta á hann, pólitík gengur ekki bara út á debet og kredit þegar hann opnar á sér munninn. Hins vegar veit ég ekki hvaða erindi hann á í stjórnmálabaráttuna aftur, þótt vissulega yrði það ánægjulegt að sjá Samfylkinguna ná jafnmiklu fylgi og Alþýðuflokkurinn sálugi fékk undir stjórn hans á sínum tíma.
En það vakti athygli mína að hann sagðist vera orðinn vinstrisinnaðri en hann var. Mér fannst það dálítið á skjön við það sem hann hefur sagt áður og nánast merki um að hann sé að viðurkenna að hann sé að ganga í barndóm eða verða fyrir elliglöpum. Hann er nefnilega einn hinna fjölmörgu sem haldið hefur því fram að sá sem ekki sé róttækur um tvítugt sé illa innrættur, en sá sem sé það um fertugt sé illa gefinn. Þar vitnar hann í fleyg orð höfð einhverjum þýskum tæknikrata sem ég kann ekki að nefna.
Það er að vísu gleðilegt ef honum er loksins að skiljast að það að glata æskuhugsjónum sínum og eldmóði er ekki þroskamerki heldur hrörnunarmerki. Þegar manni fer með aldrinum að verða sama um göfugari tilgang þess sem maður er að fást við og hugsar einvörðungu um hvernig það getur þjónað betur þeim tilgangi að hlaða sem mýkstum sessum undir rassgatið á manni sjálfum er maður að verða fyrir því sem kallað er kulnun í starfi og er ekki eitthvað sem maður á að stæra sig af eða réttlæta með því að kalla það þroska, jafnvel þótt einhver þýskur pólitíkus hafi einhvern tímann í fyrndinni getað kreist smávegis hlátur út á það í einhverju kokteilpartíinu.
Þegar mér er orðið skítsama um þig er það ekki vegna þess að ég hafi öðlast heilbrigða sjálfsvirðingu heldur af því að ég hef glatað mannúð minni. Það væri gaman að heyra hvað hinum nýja og vinstrisinnaða Djeibí finnst um þessa speki í dag og hvort hann vill biðja þá sem haldið hafa í hugsjónina um frelsi, jafnrétti og bræðralag þrátt fyrir að árin hafi færst yfir þá afsökunar á að hafa kallað þá fávita hérna í fyrndinni.
Sjálfur er ég nefnilega orðinn fertugur og verð stöðugt róttækari eftir því sem skítalyktin úr spillingarfjósi alheimskapítalismans verður stækari allt í kring um mig. Guð forði mér frá því að verða nokkurn tímann samdauna henni og telja það til marks um að lyktarskyn mitt sé orðið þroskaðara en það var.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það var lagið! Lifi byltingin!!!

Guðný Þorsteinsdóttir sagði...

Sammála þessu með vinstrimennskuna og þroskan.
Mörg dæmi sem afsanna þessa ömurlegu kenningu eða brandara.

T.d. að börn fæðast eitt stórt egó og er ómögulegt að setja sig í spor annarra. Heimurinn snýst bara í kringum þau.
En svo þroskast þau....allavega einhver þeirra.

Annað er að eftir því sem menntastig fólks er hærra, því meiri líkur eru á að það sé vinstrisinnað.
Varla er hægt að halda því fram að hámenntað fólk sé heimskt.... eða hvað ?

Daníel Freyr sagði...

Í fyrsta lagi þá eru hnefaleikar ekki bannaðir lengur á Íslandi.
Í annan stað þá er menntun og gáfur alls ekki það sama og margir hámenntaðir menn eru nautheimskir rétt eins og margt ómenntað fólk er fluggreint.
Í þriðja lagi þá finnst mér minnimáttakennd VG-fólks gagnvart Samfylkingu álíka skemmtileg og Æessdjí og Djeibí virðast skemmta ykkur.

Davíð Þór sagði...

Eru ólympískir hnefaleikar og hnefaleikar ekki ábyggilega sitt hvor íþróttin? Mig minnir að það hafi verið helsta röksemdin fyrir því að þeir voru leyfðir á sínum tíma.

Nafnlaus sagði...

Ólympískir hnefaleikar eru allt önnur íþrótt en hin villimennskan. Áhugamenn um hnefaleika skældu út að fá bannið við ólympískum hnefaleikum fellt niður, en hafa svo ekkert nennt að sinna þessu sporti - enda hinn raunverulegi tilgangur að fá að stunda hina íþróttina.

Í Ólympískum hnefaleikum eru menn með hjálma, loturnar eru bara þrjár og það heyrir til undantekninga að nokkur sé sleginn í gólfið.

Ágúst Borgþór sagði...

Sérkennileg kímnigáfa að segja það væri gaman að sjá Samfylkinguna fara í sama fylgi og Alþýðuflokkurinn fékk undir Jóni Baldvini. Ég veit ekki hvert lágmarkið var en Alþýðuflokkurinn komst held ég sjaldan nálægt fylgi Samfylkingarinnar núna, nema e.t.v. í kosningunum 1978, fyrir formanntíð Jóns Baldvins.