fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Dagbókarfærsla

Nú er komin rúm vika síðan ég setti síðast eitthvað inn á þessa síðu. Ég stefni í að verða einn af þessum lélegu bloggurum sem dúkkar upp hálfsmánaðarlega á síðunni sinni til þess eins að segja að ekkert merkilegt hafi gerst í lífi hans síðan síðast. Reyndar hafði ég ekki hugsað mér að þessi síða ætti að vera eitthvað yfirlit yfir það hvað ég aðhefst frá degi til dags heldur vettvangur til að deila pælingum mínum og hugðarefnum með heimsbyggðinni. Helst áttu þetta að vera uppbyggilegar pælingar á jákvæðum nótum (ég er nefnilega að leggja mig í líma við að vera jákvæður og uppbyggilegur þessa dagana) en svo uppgötva ég mér til mikillar skelfingar þegar ég les það sem ég hef sett hingað inn nýlega og eins þegar mér dettur eitthvað í hug til að fabúlera um hérna að pælingar mínar eru alls ekki eins jákvæðar og uppbyggilegar og mér finnst að þær ættu að vera. Í gær fór ég til dæmis á foreldrafund í ónefndum grunnskóla og hitti þar tvo kennara eins afkvæma minna sem báðir voru þágufallssjúkir ("... þegar þeim langar að gera eitthvað ..."). Um þetta ætlaði ég að blogga í löngu máli og leggja út frá því þegar ég fór að kaupa ísskáp hérna um árið og enginn ísskápasölumannanna og –kvennanna réð við að fallbeygja orðið "frystir" ("... þá er svo gott að geta bara sett það í frystirinn ...") og eins þegar ég keypti nýjan rafgeymi í bílinn minn hjá rafgeymaþjónustu í Hafnarfirði og rafgeymatæknirinn, sem ekki gerir nokkurn skapaðan hlut allan liðlangan daginn nema mæla rafgeyma, selja rafgeyma og skipta um rafgeyma í bílum sagðist ætla að mæla hjá mér "geymirinn". En hvað er uppbyggilegt og jákvætt við það? Einkum þegar það bætist við eintómt gremjublogg út af málfari? Þessi síða átti ekki að vera "Davíð Þór eipar yfir málfari alþýðunnar" heldur "hinn djúpvitri Davíð Þór veitir alþýðunni hlutdeild í lausninni við lífsgátunni af yfirvegaðri mildi sinni". Einbeiti mér að því framvegis.

Engin ummæli: