miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Lifi Gísli Marteinn!

Þessa fyrirsögn á ekki að taka of bókstaflega. Ég komst nefnilega að því að bloggið mitt hefur verið "rassað" og valdi þess vegna fyrirsögn sem myndi gera fólk forvitið og vilja lesa það sem ég hef að segja um Gísla Martein.
Það fer nefnilega svolítið í taugarnar á mér hvað Gísli Marteinn fer upp til hópa í taugarnar á pólitískum skoðanasystkinum mínum. Ég er ósammála, mér finnst Gísli Marteinn hvorki betri né verri en gengur og gerist um fólk, svona á heildina litið. Að vísu verð ég að viðurkenna að það er svolítið sérstakt með Gísla Martein að mér finnst hann ýmist betri eða verri en gengur og gerist um fólk, hann hefur kosti og galla.
Í fyrsta lagi hef ég ekkert álit á Gísla Marteini sem stjórnmálamanni. Ég er ósammála honum um nánast allt. Reyndar sýna skoðanakannanir að ég er ósammála 80 – 85% þjóðarinnar í pólitík, þannig að hugsanlega er það ekki að marka. Að ganga í gegn um lífið í hnút af gremju í garð allra sem deila ekki stjórnmálaskoðunum manns er ekki einasta heimskulegt – fyrir mig er það hreinlega lífshættulegt (ekki bara út af því hvað þeir eru margir). Auk þess hef ég ekki orðið var við að Kjartan Magnússon, svo dæmi sé tekið, valdi jafnmiklum taugatitringi meðal vinstrimanna og Gísli Marteinn. Kannski veldur því einhver munur á stjórnmálaskoðunum þeirra þótt ég hafi ekki komið auga á hann. Mig grunar að Kjartan Magnússon fari ekki eins mikið undir skinnið á mínu fólki og Gísli Marteinn vegna þess að hann er ekki sjónvarpsmaður.
Í öðru lagi finnst mér Gísli Marteinn ekki góður sjónvarpsmaður. Það er Hemmi Gunn, svo dæmi sé tekið, ekki heldur að mínu mati. Ég verð hins vegar ekki var við að Hemmi Gunn fari eins ofboðslega í taugarnar á fólki fyrir það að vera sjónvarpi og Gísli Marteinn, þótt Gísli sé sem sjónvarpsmaður skilgetið afkvæmi Hemma. Líklega geldur Gísli þess að vera í pólítik.
Það er með öðrum orðum í lagi að vera Sjálfstæðismaður ef maður er ekki leiðinlegur sjónvarpsmaður og það er í lagi að vera leiðinlegur sjónvarpsmaður ef maður er ekki Sjálfstæðismaður. Er ég sá eini sem finnst þetta ósanngjarnt?
Persónleg samskipti mín við Gísla Marteini hafa öll verið hin þægilegustu. Það sama gildir um Hemma Gunn. Þeir eru báðir afbragðsmenn við viðkynningu. Ég reyni að dæma fólk ekki af því sem ég heyri heldur af því sem ég veit af eigin reynslu.
Þegar við Jakob Bjarnar stjórnuðum útvarpsþættinum Górillu á sínum tíma hringdi stundum í okkur strákur sem var sundlaugavörður og gantaðist í okkur. Hann átti það til að æpa í hátalarakerfið eitthvað á borð við: "Hættið að hanga í snúrunni!" hlustendum Aðalstöðvarinnar til afþreyingar, jafnvel þótt enginn væri að hanga í snúrunni. Smám saman fórum við Jakob að hlakka til að heyra í sundlaugaverðinum, vini okkar, því það var einatt uppskrift að skemmtilegu og spontant spjalli fullu af glettni. Þessi ungi piltur var Gísli Marteinn.
Í samskiptum mínum við Gísla Martein hef ég aldrei fundið fyrir kala frá honum eða fyrirvara gagnvart mér þótt honum og restinni af íslensku þjóðinni megi vera fullljóst að fyrr myndi ég naga af mér hægri höndina en að kjósa stjórnmálaflokkinn sem hann tilheyrir. Það er meira en ég get sagt um marga Sjálfstæðismenn. Hví skyldi ég þá koma öðruvísi fram við Gísla? Víst á hann það til að virka fleðulegur og tilgerðarlegur, en samkvæmt minni reynslu er það ekki leikaraskapur. Gísli er einfaldlega "næs gæi" að upplagi, jafnvel einum of "næs" til að "næsheitin" séu tekin trúanleg. Í huga fólks, einkum biturra vinstrimanna, hlýtur svona ofboðslega "næs" náungi að vera að þykjast.
Kæru bræður og systur. Slakiði aðeins á. Gefið drengnum fokkíng breik! Ég er ekki að segja að hann sé eitthvað yfirmáta merkilegur pappír, en af hverju ætti manni að vera eitthvað meira í nöp við Gísla Martein en aðra sem ekki eru neitt merkilegri pappírar en hann?
Þegar upp er staðið er Gísli Marteinn bara strákur sem er að reyna að lifa lífi sínu eins og hann kann best og gera eitthvað úr því. Sé tekið tillit til borðleggjandi staðreynda (tekna, hjúskaparstöðu, sjónvarpsáhorfs, niðurstöðu prófkjörs) verður ekki hjá því litið að honum hefur bara tekist allvel upp. Og því meir sem hann fer í taugarnar á vinstrimönnum, þeim mun betur hefur honum tekist upp.
Sem er enn ein ástæða þess að gefa drengnum fokkíng breik!

2 ummæli:

kerling í koti sagði...

Ég man vel eftir sundlaugarverðinum sem hrópaði: Ekki hanga í snúrunni, strákar!
Gaman að vita hver maðurinn er.

geimVEIRA sagði...

Gísli er bara, held ég, eins og hann er blessaður... alveg sammála því að gefa honum breik, fólk á að fá breik fyrir það að vera það sjálft.