föstudagur, nóvember 06, 2009

Lof anarkísins

Hvað glæðir þínu geði í
gleði sem er tær og hlý
svo brosað færðu björtum himni mót
og hrekur óttann hjarta úr
og hlífir þér í kaldri skúr?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað slekkur sáran þorsta þinn
með þungan, frjóan ávöxt sinn
og stendur fast á sterkri, traustri rót
og eflir þrótt og örvar dug
og eldi blæs í kalinn hug?
Anarkí er allra meina bót.

Hvað greiðir veg um grýttan stig
og gætir þín og verndar þig
er fætur þína lemstrar lífsins grjót
og líknar þinni lúnu sál
og leysir öll þín vandamál?
Anarkí er allra meina bót.

D. Þ. J.

Engin ummæli: