mánudagur, ágúst 31, 2009

Alþynnki

Það er ljótt að vera fullur í vinnunni. Drukknir menn skila alla jafna verra verki en allsgáðir og svindla þannig á vinnuveitendum sínum. Þó geta kringumstæður mildað alvarleika glæpsins, til dæmis ef vinnan er svo niðurdrepandi og vinnufélagarnir slíkt pakk að smá brjóstbirta sé nauðsynleg til að þreyja kvöldvaktina. Sömuleiðis ef vinnan er þess eðlis að vart megi greina á afurðinni hvort hún hafi verið unnin af fullum manni eða ófullum. Á hinn bóginn er það síðan auðvitað grátleg sóun á fylliríi að vera á því á jafnömurlega leiðinlegum stað og Alþingi Íslendinga.
Löng hefð er fyrir því að utanbæjarmönnum verði hált á svellinu í kaupstaðarferðum og fari offari í sollinum á mölinni. Þannig henti það til dæmis nýlega þingmannsblók eina utan af landi að fá sér eilítið rækilegar neðan í því en góðu hófi gegndi áður en hún steig í ræðustól þingsins. Í kjölfarið reyndi hún síðan fyrst að þræta fyrir að hafa smakkað það og síðan fyrir að hafa fundið nokkurn skapaðan hlut á sér, rétt eins og alsiða sé að smakka það í öðrum tilgangi. Höfðu sumir á orði að við þetta hefði Alþingi sett niður og tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, jafnvel svo djúpt í árinni að segja þetta þinginu ekki sæmandi.
Nú veit ég ekki alveg hvaða skilning þingmaðurinn leggur í orðið sæmd en benda verður á að hann er fulltrúi flokks sem réði lögum og lofum á Alþingi síðastliðna tvo áratugi og notaði þá til að breyta þinginu í viljalausa afgreiðslu fyrir ríkisstjórn, gera löggjafarvaldið að gólfmottu framkvæmdavaldsins. Á þeim tíma steyptu Sjálfstæðismenn þjóðarbúinu í svo glórulausar skuldir að þegar allt er talið jafnast þær á við að hvert einasta hús á landinu hafi brunnið til kaldra kola. Og þetta gerðu þeir bláedrú! Þeir hafa enga afsökun.
Auðvitað á maður ekki að vera fullur í vinnunni, en áður en farið er að gapa um sæmd Alþingis væri kannski ekki úr vegi að skoða hana í óbrjáluðu samhengi. Sæmd Alþingis er nefnilega alls ekki í svaðinu. Hún er ofan í iðrum jarðar. Hafi einhverjum tekist að hífa hana þaðan upp í svaðið á hann þakkir skilið, en ekki skammir frá þeim sem notuðu áratuga einræði sitt yfir stofnuninni til að gera Íslendinga að alheimsundri fyrir heimsku.
Bakþankar í Fréttablaðinu 29. 8. 2009

Engin ummæli: