mánudagur, september 14, 2009

Árásin á Ingólfstorg

Miklar framkvæmdir eru í vændum í miðborg Reykjavíkur. Rífa á Nasa við Austurvöll og skerða Ingólfstorg til að rýma fyrir risahóteli. Ég er þeirrar skoðunar að þessar hugmyndir séu glapræði. Kemur þar einkum þrennt til.
Í fyrsta lagi er byggingin sem hýsir Nasa menningarsögulegt djásn, elsti hlusti hennar var byggður 1870. Salurinn, frá 1946, á engan sinn líka. Innréttingarnar, sem margar eru upphaflegar, eru fágætur vitnisburður um glæsileika og tísku efirstríðsáranna sem víðast annars staðar hefur vikið fyrir séríslenskum gráma og landlægri meðalmennskudýrkun. Að smíða eftirlíkingu af salnum í kjallara fyrirhugaðs hótels er auðvitað ekkert annað en hámark plebbaskaparins. Eða dytti einhverjum í hug að réttlæta eyðileggingu á handriti með þeim rökum að til sé ljósrit af því?
Í öðru lagi hlýtur að teljast fásinna að fara út í framkvæmdir af þessari stærðargráðu á sama tíma og hálfkaraðar draugahallir og tómir turnar bera hruni og kreppu ófagurt vitni á víð og dreif um borgarlandið. Væri nú ekki ráð að klára eitthvað af þeim áður en hafist er handa við jafnviðamikið og tímafrekt rask og hér er á ferðinni?
Loks hlýtur það að orka tvímælis að sá sem mest mun hagnast á þessari framkvæmd skuli vera jafnrækilega tengdur inn í annan stjórnmálaflokkinn sem myndar meirihluta í borgarstjórn, og hér er um að ræða. Einhver kynni að spyrja hvort hann eigi að gjalda þess, en spurningin er heimskuleg því svarið er augljóslega já. Hann á að gjalda þess. Frelsi auðkýfinga til stórframkvæmda er ekki forgangsmál í íslensku samfélagi eins og sakir standa.
Í nútímaþjóðfélagi er ekki nóg að sennilega sé staðið að framkvæmdum sem þessum með eðlilegum hætti. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að svo sé. Þegar fólk er í þeirri stöðu að taka ákvarðanir sem ekki aðeins hafa víðtæk áhrif á líf og umhverfi samborgaranna heldur ekki síður tekjur og gróðamöguleika stórbokka, gilda einfaldlega um það aðrar reglur en fólk almennt. Þegar eiginmaður framámanns í valdaflokki fær leyfi fyrir svona umdeildum, umfangsmiklum og langvinnum framkvæmdum í hjarta miðborgarinnar í óþökk fjölda borgarbúa, ef ekki flestra, þá minnir einfaldlega of margt á klassíska, íslenska spillingu til að verjandi sé að fallast á þær.
Bakþankar í Fréttablaðinu 12. september 2009

1 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll Davíð.

Ég rak augun í að Orð skulu standa komi til með að byrja að nýju á "rás allra landsmanna," kl. 16;10 á laugardaginn kemur, þ.e. þann 26.

Þetta eru mér miklar gleðifréttir þar sem ég býð spenntur, haust hvert, hvort þátturinn verði nú ekki örugglega á vetrardagskránni... Einnig ánægður með að (skv uppl. ruv.is) Hlín skuli vera mætt að nýju.

Ég er þegar farinn að hlakka til að heyra í ykkur þremeningum. Megi þátturinn lengi lifa!

Kær kveðja,
Sæmund.