mánudagur, maí 11, 2009

Evrópa og yfirvegun

Það þarf hvorki að ferðast víða um Evrópu né grufla lengi í fréttum frá álfunni til að verða ljóst að Evrópusambandsandstæðingar og aðildarsinnar fara báðir með rangt mál í áróðrinum sem nú dynur á okkur úr öllum áttum og yfirgnæfir umræðu um allt annað.
Evrópa er fráleitt laus við félagsleg vandamál, fátækt og kreppu. Í mörgum löndum er atvinnuleysi landlægt og hefur verið kynslóðum saman. Byggðaröskun af völdum miðstýrðrar auðlindanýtingar er víða svo mikil að jaðrar við brot á efnahagslegum, menningarlegum og félagslegum mannréttindum íbúanna. Það er með öðrum orðum hrein firra að aðild að Evrópusambandinu ein og sér tryggi auðlegð, velsæld, hagvöxt og endalausar, sjálfbærar blómabreiður í sígrænum högum atvinnulífsins eins og barnalegustu aulahrollskratarnir láta í veðri vaka.
Hitt er líka út í hött, að í aðild felist aðeins afsal auðlinda og dauðadómur yfir fullveldi aðildarríkjanna og sérkennum þjóðanna sem þau byggja, eins og manni gæti skilist á hinu undarlega samkrulli útgerðarauðvaldsins og afdankaðara austantjaldssossa sem mest hamast gegn henni. Evrópusambandið er greinilega engin einsleit grámóða sem leggst yfir löndin og sýgur úr fólki allan þrótt, frumkvæði og sköpunarkraft. Það er ekki eins og ríki sambandsins hafi öll verið gleypt af yfirþjóðlegu svartholi sem máð hafi út einkenni þeirra hvers um sig og steypt í þau öll í sama mótið eftir staðli frá Brussel.
Það er með öðrum orðum jafnvitlaust að mála skrattann á vegginn og að vera með glýju í augunum. Þetta er ekki spurning um líf eða dauða heldur hvort aðild henti okkur eða ekki. Annað hvort byggjum við okkur framtíð í sambandinu eða utan þess. Við getum ekki byggt hana í dyragættinni – þar sem við höfum haldið okkur til þessa.
Þess vegna er ánægjulegt að ríkisstjórn flokka sem eru á öndverðum meiði hvað þetta varðar skuli hafa náð sátt um að leiða þetta mál til lykta með lýðræðislegum hætti svo hægt sé að fara að sinna brýnni verkefnum. Sömuleiðis er hlægilegt að heyra formann Sjálfstæðisflokksins tala um það sem veikleikamerki, en eins og kunnugt er logar sá flokkur stafna á milli af ágreiningi um Evrópumál. Þar er ekki einu sinni hægt að ná sátt um að lenda málinu með leikreglum lýðræðisins.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. maí 2009

Engin ummæli: