laugardagur, maí 16, 2009

Í tilefni af Eurovision ...

... rifjaðist upp fyrir mér kveðskapur frá því fyrir nokkrum árum. Þá var ég að velta fyrir mér textanum við vinsælasta Eurovisionlag allra tíma, Waterloo með Abba. Textinn er ástarjátning þar sem söngkonan játar sig sigraða fyrir persónutöfrum draumaprinsins á sama hátt og Napóleón varð að játa sig sigraðan fyrir hertoganum af Wellington, við Waterloo. Í textanum er þess hvergi getið að eftir þá orrustu lágu 45.000 – 60.000 manns í valnum. Þess vegna datt mér í hug hvort ekki væri hægt að staðfæra textann með því að setja saman jafnósmekklega tilvísun í eitthvað blóðbað eða níðingsverk sem Íslendingar tengja sig frekar við. Þetta varð niðurstaðan. Ég nennti ekki að klára textann, fannst brandarinn eiginlega kominn til skila og óþarfi að halda áfram með hann.

Njálsbrenna
(lag: Björn Ulvæus og Benny Andersson/texti: D. Þ. J.)

Æ, æ. – Í hjarta mér er Bergþórshvoll að brenna.
Ég hlæ – ég brosi'og mæti örlögunum eins og Skarphéðinn.
Í Njálu af natni'er því lýst
og nautninni sem af því hlýst.

Njálsbrenna! – Ég beygi mig núna, þú brenndir Njál.
Njálsbrenna! – Í brjósti mér kveiktirðu ástarbál.
Njálsbrenna! – Ástin er háski og háspenna!
Njálsbrenna! – Í hjarta mér logar nú Njálsbrenna!

... o.s.frv.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

tíhí :D

Nafnlaus sagði...

Enn ógeðfelldara er þegar börnin syngja hið kristilega „Jósúa sat um Jeríkó". Þar er og hvergi getið um blóðbaðið, þar sem menn, konur og börn voru vegin í stórum stíl.

Með kveðju,
Orri Harðarson.