mánudagur, desember 07, 2009

Þú ert aldrei einn á ferð

Helgi eina í byrjun október áttum við hjónaleysin erindi austur á Egilsstaði. Illu heilli brast þó á með óveðri á föstudeginum og um kaffileytið varð ljóst að ekkert yrði úr flugi. Þar sem erindið var brýnt ákváðum við að keyra austur, enda á þokkalega útbúnum fólksbíl með fjórhjóladrifi. Við lögðum af stað um fimmleytið og gerðum ráð fyrir að ná áfangastað um tvöleytið um nóttina. Norðurleiðin varð fyrir valinu, því veðurofsinn var mestur á sunnanverðu landinu.
Í fyrstu gekk ferðin að óskum. Hálkublettir og skafrenningur á Holtavörðu- og Öxnadalsheiði voru lítil fyrirstaða fyrir okkar ágæta fjölskyldubíl. Síðasti áfanginn, Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði, átti að vera skástur samkvæmt upplýsingasíma Vegagerðarinnar. Þar var þó slíkt snjófjúk að á löngum köflum sáum við aðeins eina stiku fram fyrir okkur þótt vegurinn væri auður. Við ókum því löturhægt.
Skyndilega rann bíllinn til og áður en ég fékk rönd við reist sat hann fastur. Nánari athugun leiddi í ljós að á u.þ.b. tíu metra kafla hafði skafið í hnédjúpan skafl þvert yfir veginn, sennilega vegna þess að til beggja handa voru vegrið sem safnað höfðu snjó á milli sín. Þarna sannaðist hið fornkveðna að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Einn skafl nægir til að leiðin á milli Akureyrar og Egilsstaða sé ófær.
Nú var úr vöndu að ráða. Ekkert þýddi að ýta bílnum. Við vorum pikkföst í skafli uppi á heiði í svartamyrkri um hánótt og höfðum ekki orðið vör mannaferða síðan á Mývatni. Farsíminn kom okkur til bjargar. Hringt var í 112 þar sem við fengum samband við lögregluna á Egilsstöðum. Við höfðum verið það forsjál að núllstilla kílómetramælinn á Akureyri og gátum því gefið upp nokkuð nákvæma staðarákvörðun. Tæpum hálftíma síðar birtist bóndi af nálægum bæ eins og frelsandi engill á fjallajeppa og kippti okkur yfir hindrunina.
Því er ég að deila þessu með ykkur að mér finnst ekki vanþörf á að minna á að um allt land er gott fólk, sem lætur sig ekki muna um að vera dregið fram úr hlýju rúminu um hánótt til að fara út í frost og fjúk til aðstoðar kjánum eins og mér, sem asnast til að ofmeta eigin getu og sýna þeim óblíðu skilyrðum, sem landið okkar gerir okkur að búa við og ferðast í, ekki tilhlýðilega virðingu.
Hafi það allt Guðs þökk fyrir, ekki síst bóndinn á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.
Bakþankar í Fréttablaðinu 5. desember 2009

6 ummæli:

GEN sagði...

Komdu sæll Davíð og þakka þér kærlega fyrir skemmtilega pistla.

Við erum víst ansi mörg feimin við að leggja hrós í belginn, en hikum ekki við að gagnrýna og benda á það sem betur má fara.

Mig langar að biðja þig um að tala um Mývatnssveit nema þegar þú átt við sjálft vatnið. Síðustu ár hefur það færst í vöxt að menn skreppa á Mývatn, eru í/á Mývatni og koma jafnvel úr Mývatni! Sveitin fallega heitir nú samt Mývatnssveit og okkur Mývetningum þykir viðkunnalegra að skreppa og vera í Mývatnssveit, og best er auðvitað að vera frá/úr Mývatnssveit. Reyndar er gaman að fara á Mývatn, en til þess þarf maður helst bát...

Bestu kveðjur,
GunnarBen

Unknown sagði...

Þetta var skemmtileg lesning. Vona að ferðin heim hafi gengið betur.

Annars myndi ég aldrei fara norðurfyrir, þar eru ótal hund-leiðinlegir fjallvegir og firðir. Sunnanmegin er sléttur breiður vegur. En hríð er hríð og þá verður maður að fara norðurfyrir.

spritti sagði...

Þar sem sveitamaður er náægt, þarftu ekki að hafa áhyggjur í snjóskafli.

Davíð Þór sagði...

Þakka ábendinguna, GEN. Þarna hefði ég senilega frekar átt að segja "við Mývatn" eða "í Mývatnssveit", því síðasti bíll sem við höfðum séð var við Hótel Reynihlíð. Sömuleiðis átti ég vitaskuld að segja "á" Jökuldal, en ekki "í" eins og mér varð á í blaðinu. (Ég leiðrétti það fyrir netið.) Annars þarf maður eiginlega að vera heimamaður í hverri sveit til að vita hvenær maður er á henni eða í henni eða hvort maður er að fara inn eða út eða fram eða upp eða niður.

ill Brilla sagði...

Ég held að það sé undirflokkur jeppakarla sem hafa þetta að áhugamáli.. Þó þeir séu asnalegir þá játa ég þeim virðingu mína, vegna þess að maður veit aldrei hvenær maður þarf hjálp þeirra sjálfur.. og þó maður sjálfur þurfi aldrei hjálp þeirra þá eru aðrir.

Egilstaðir eru sérstakir staðir... ég Prófaði einu sinni að fara þangað, það var mjög sérstakt. Ég klappaði köttum á vídjóleigu, horfði á steraköggla keyra í hringi, og tjáði mína reiprennandi íslenzku og ekki einn einasti bæjarbúi skildi orð í mér.... og ég vil ekki segja að kvenmennirnir þurfi að missa þyngd, en þær þurfa sannlega að öðlast hæð :s

ill Brilla sagði...

.... Ps. Þrátt fyrir raunir á Egilstöðum þá lofsyng ég þann stað, því að ég hef nefnilega líka prófað að koma við á Hólmavík :/