Þórunn Gréta klukkaði mig. Það þýðir víst að mér ber siðferðileg skylda til að greina frá átta atriðum varðandi sjálfan mig sem ekki eru á allra vitorði. Gjörið svo vel.
1. Ég vann einu sinni sem sviðsmaður hjá Sjónvarpinu. Mitt þekktasta (alræmdasta) verk frá þeim tíma er sennilega að hafa stjórnað vindvélinni í vídeóinu við Eurovisonlag Eyva, „Ég er vindurinn sem sem þýtur“. Ætli það sé ekki mitt stærsta framlag til íslenskrar poppsögu.
2. Á þessum tíma var þátturinn Á tali hjá Hemma Gunn á dagskrá Sjónvarpsins. Einu sinni kom hljómsveitin Sálin hans Jóns míns þangað til að frumflytja (mæma) nýtt lag. Bassaleikarinn komst ekki svo ég, sem sviðsmaður, var settur í hljómsveitarbúning, bassi hengdur á mig og ég látinn þykjast spila á hann í útsendingunni. Lagið var „Þig bara þig“.
3. Eina setningin sem ég hef fengið að segja sem leikari á sviði í Þjóðleikhúsinu er: „Gúggú, gúggú ... gúggú!“ Það var í hlutverki bilaðrar gauksklukku í Uppreisninni á Ísafirði eftir Ragnar Arnalds.
4. Árið 1989 bauðst mér skólavist í leiklistarskóla í Punjab á Indlandi. Eftir að hafa hugsað málið afþakkaði ég boðið. Ég er enn að naga mig í handarbökin yfir því. Ég hefði lært panjabi og hugsanlega orðið Bollywoodstjarna.
5. Ég hef komið í öll pláss á Íslandi nema Hrísey (og Litla-Árskógssand og Hauganes ef þeir staðir teljast til „plássa“).
6. Ég er þýðingapervert. Ég þýði enska dægurlagatexta sem ég heyri í útvarpinu mér til afþreyingar (t. d. á ég „No No Song“ með Ringo Starr og „Three Little Birds“ með Bob Marley ef einhvern langar að flytja þá). Einu sinni þýddi ég m. a. s. eina af mínum eftirlætisbókum, „The Hitchhiker's Guide to the Galaxy“ eftir Douglas Adams („Á puttanum um himingeiminn“), sjálfum mér til skemmtunar í frístundum mínum. (Hún kom út skömmu síðar í annarri þýðingu undir nafninu „Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina“.)
7. Fjárhættuspil eru einn fárra lasta sem ég hef aldrei getað tamið mér. Mér finnst þau bæði leiðinleg og heimskuleg.
8. Í áttunda lagi er kannski við hæfi að geta þess að í dag er áttahundruðáttugastiogáttundi dagurinn í röð sem ég er edrú.
Að lokum á ég að klukka tvo í viðbót. Ég klukka Ísold og Núma.
7 ummæli:
Ég hef ekki komið í öll pláss á landinu, en ég hef komið í öll plássin sem þú hefur ekki komið í.
Til hamingju með 888unda edrúmennskudaginn!
þú átt örugglega möguleika á betri svona átta atriðum en flest okkar hinna. Ég ansaði ekki einu sinni mínu klukki :D
og ég væri verulega til í að lesa þína þýðingu á Hitchhikers... - þó ég lesi helst allt á frummáli sem ég á annað borð skil.
skil þetta vel með þýðingarpervertismann
´ég er einmitt að þýða rökkurturninn eftir Stephen King mér til skemmtunar
Ég hefi sömuleiðis komið til allra þeirra staða sem þú hefur ekki komið til, en ég á eftir Kópasker og Bakkafjörð. Þekki fólk á báðum stöðum svo það er bara að skreppa og bjóða sjálfri sér í kaffi
Það er skömm frá því að segja, en ég hef líklega ekki komið í nema fimmtán prósent plássa á landinu.
En þýðingapervertismann skil ´mjög vel. Kannske það sé ráð að stofna stuðningssamtök; Translators Anonymous?
Væri ekki ómaksins virði að stofna hljómsveit til að flytja "Nei-nei lagið"? Þetta er uppáhalds lagið mitt og ég er reiðubúinn til að hjálpa til á hvern þann hátt sem ég get, þó það þýði að ég verði að syngja.
Skrifa ummæli