þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Hugleiðing um háðung

Nýlega var kvikmyndin um Simpson fjölskylduna talsett á íslensku. Ekki eru allir á einu máli um ágæti þeirrar ráðstöfunar. Af ýmsu sem látið hefur verið flakka mætti hreinlega halda að hér sé ekki um það að ræða að myndin sé sýnd með íslensku tali auk frummálsins og að í tilefni þess hafi fjögurhundruðasti þátturinn verið sýndur á íslensku auk frumútgáfunnar, en ekki bara á ensku eins og hinir 399. Nei, af viðbrögðum sumra mætti ætla að teiknuð hafi verið skopmynd af þeirra persónulega Múhameð.
Að vísu virðist andúð fólks á talsetningunni vera meiri eftir því sem það er verr skrifandi á íslensku. Þannig agnúast einn netverji út í talsetninguna í næstu færslu á eftir frásögn af keppnisferð „til Akranesar“. Guð forði honum frá því að heyra íslensku talaða.
Annar netverji er svo góður í ensku að hann segir: „Simpsons á íslensku er discrace [sic]“. Hann bætir við: „ ... dicrace [sic] fyrir þáttinn ömurlega sett inná hljóðið ömurlegar raddir bara átti ekki að setja það á islensku [sic]“. Stafsetning og greinarmerkjasetningar eru bloggarans.
Enn einn fullyrðir að þeir sem tóku þýðinguna að sér ættu að skammast sín. Nú var það aðeins sá sem þetta skrifar sem tók hana að sér og hefði verið hægðarleikur að komast að því. Fyrir hvað ég á að skammast mín veit ég hins vegar ekki. Líklega fyrir að vera í þessu starfi og þiggja krefjandi verkefni sem mér eru boðin – í þeirri trú að ekkert verði úr þeim hafi ég bara manndóm í mér til að segja „nei takk“.
Loks kallar einn þetta peningasóun án þess að geta þess hvernig 20th Century Fox kvikmyndasamsteypan hefði getað varið fé til íslenskrar tungu án þess að sóa því. Alltaf lá fyrir að talsetningin var að kröfu og á kostnað hennar.
Einhvern veginn er ég ekkert miður mín yfir þessum viðbrögðum. Í ljósi staðreynda er frekar ástæða til að vera þakklátur fyrir að vera ekki kallaður „hvítnegri“ eða hótað lífláti og líkamsmeiðingum, eins og alsiða er í netheimum þegar fólki þar er misboðið. Þegar upp er staðið er nefnilega fátt íslenskri þjóð til jafnmikillar háðungar (e. disgrace) og netgasprið sem hér líðst.
Bakþankar í Fréttablaðinu 19. ágúst 2007

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef því miður ekki séð myndina (hvorki á íslensku né ensku), og get því ekki dæmt um hana. Ég sá hins vegar þátt nr. 400 á báðum tungumálum, og fannst íslenska útgáfan skemmtileg tilbreyting. Það má alltaf finna einhverja vankanta þegar svona sjónvarpsefni er þýtt og staðfært, enda alls ekki auðvelt að framkvæma svo öllum líki. Ég vona að ég sjái myndina sem fyrst á báðum tungumálum, og hlakka sérstaklega til að sjá hana á íslensku, hver svo sem útkoman er.

Nafnlaus sagði...

Mín reynsla er sú að þeir sem fullyrða hástöfum að þeir lesi ALDREI íslenska textann á kvikmyndasýningum og andskotast út í talsetningar, kunna minna í hinu erlenda máli en halda mætti.
Hvar fannstu annars þessar umræður um Simpson-talsetninguna og þýðinguna?

Davíð Þór sagði...

Mig minnir að ég hafi bara gúglað "Simpsons á íslensku" eða e. þ. h. Athugasemdin um peningasóunina var í umræðum á einhverri moggabloggsíðu sem ég les stundum. Ég man þetta ekki nákvæmlega, pistill er orðinn gamall, hann átti að birtast um verslunarmannahelgina en blaðið kom ekki út þá. Þú gætir prófað að gúgla "til Akranesar" - niðurstaðan kemur á óvart (ekki þægilega).

Gummi Erlings sagði...

Finnst nú rétt að taka fram að drengurinn sem notaði orðin "discrace/dicrace" er 11 ára, allavega skv. blogginu hans. Er annars sammála pistli Davíðs, svona að öðru leyti.

Nafnlaus sagði...

Ég er hreinlega ekki að ná þessu. Sjálfur hef ég minni en engan áhuga á að sjá Simpsons á íslensku, enda vanafastur með eindæmum og veit að ég myndi ekki geta notið myndarinnar vegna þess að raddir sem ég er ekki vanur myndu setja mig út af laginu (nota bene á ég mjög erfitt með að horfa á elstu þættina, þegar raddirnar voru hálfundarlegar og talsetningin mjög léleg).

Þetta breytir því hins vegar ekki að mér gæti ekki verið meira sama þótt þessi raddsetning sé til. Ég hef einmitt alltaf vitað að Fox stæði á bak við þetta (var þetta ekki skilyrði fyrir dreifingarréttinum eða eitthvað svoleiðis?), og þótt mér finnist ekki heillandi að sjá þetta (eða heyra öllu heldur) finnst mér bara fínt að þú hafir fengið þarna skemmtilegt verkefni (sem ég öfunda þig satt að segja fyrir) og að íslenskir leikarar hafi fengið auka vinnu. Svo getur fólk bara sleppt því að sjá myndina ef því finnst þetta lítt heillandi. Eins og ég ætla að gera (að minnsta kosti í bili... það er ekki ósennilegt að ég sýni syni mínum þetta á DVD þegar hann hefur aldur til að kunna að meta það...).

Það er stórundarlegt að horfa upp á jafnvel fullorðið fólk væla yfir því að íslensk talsetning sé til. Ég myndi skilja það ef stæði til að kippa enska Simpsons úr loftinu, en í öllum bænum. Fólk er ekki tilneytt að horfa á þetta.

Davíð Þór sagði...

Æ. Viðurkenni að ég kynnti mér ekki aldur viðkomandi, hefði þá orðað þetta öðruvísi. En punkturinn er nú reyndar ekki léleg stafsetningarkunnátta barna, heldur sá eiginleiki netsins að vera einkum vettfangur fyrir skoðanir fólks á hlutum sem það hefur greinilega ekki hundsvit á og hefur auk þess augljóslega ekki einu sinni gert lágmarkstilraun til þess að kynna sér.

Anna Kristjánsdóttir sagði...

Merkilegt nokk, þá sá ég þennan þátt sem ykkur er tíðrætt um. Ég man ekki eftir neinum hnökrum sem ég hefði býsnast yfir svo að þýðingin hlýtur að hafa heppnast ágætlega.
Ég er kannski ekki marktæk því ég horfi ekki reglulega á hinn fræga bandaríska fjölskylduföður og uppátæki hans.

Kristín sagði...

Ég trúi því ekki á þig Davíð að þú hafir svona lítið álit á Netinu! LÍFIÐ sjálft er vettvangur fyrir skoðanaviðrun án þekkingar. Netið er bara ein tjáningarleið og þó þar vaði uppi ýmislegt miður áhugavert vil ég alls ekki samþykkja að það sé EINKUM þvaður.
Auðvitað er það frábært að prófa að þýða költþætti eins og Simpsons. Ég hefði alveg verið til í að sjá afraksturinn.

Nafnlaus sagði...

Mæli með að fólk prófi líka að googla "til akureyris".

Anna Kristjánsdóttir sagði...

nafnlaus, gúgglaðu frekar orðið agureyris

Nafnlaus sagði...

Ég sá báðar útgáfur af myndinni og þær voru báðar sprenghlægilegar, hvor á sinn hátt.
Skemmtilegastar þóttu mér staðfæringarnar (Sævar Karl) og ef eitthvað er finnst mér að ganga hefði mátt lengra og staðfæra allt. Hveragerði þótti mér t.d. prýðileg þýðing á Springfield.