mánudagur, júní 04, 2007

Feigir fossar

Ég hef ekki gert mikið af því til þessa að setja myndir sem ég tek á netið, aðallega af því að ég tek eiginlega aldrei myndir, en líka af því að mér finnst það sem ég hef að segja svo miklu merkilegra en það sem ég hef séð. Ég veit að margir eru mér ósammála. Nú langar mig hins vegar að breyta til og sýna ykkur nokkrar myndir sem ég tók, ekki af því að þær séu svo góðar heldur finnst mér myndefnið svolítið sérstakt. Þessi fyrsta sýnir gæsahreiður á barmi jökulsárgljúfurs.


Ég var staddur austur á Héraði í síðustu viku ásamt fjölskyldunni og síðastliðinn mánudag fórum við í langa gönguferð (mér er alvara – 8 klst.). Okkur hafði verið bent á að skemmtilegt gæti verið að ganga upp með Jökulsá í Fljótsdal, frá Egilsstöðum (bænum, ekki þorpinu) að Snæfelli, þar væru skemmtilegir fossar sem ekki væri seinna vænna að sjá því að ári yrðu þeir horfnir, þetta væri síðasta sumarið sem þeir myndu renna í sinni réttu mynd. Jökulsá verður sem sagt tekin úr þessum farvegi og sett í gegn um rör og mun dælast út úr holu í dalsmynninu þegar virkjunarframkvæmdum eystra verður lokið.

Það er óneitanlega svolítið sérstök tilfinning að skoða feigt landslag. Fossarnir sem hér sjást verða ekki svipur hjá sjón að ári þegar allt jökulvatnið verður horfið úr farveginum. Þeir munu að vísu ekki þorna alveg upp, enda renna allmargar bergvatnsár af ýmsum stærðum og gerðum í farveginn, en vatnsmagnið verður brot af því sem það á að sér að vera. Að vísu er ekki mikið vatn í ánni núna, en mér skilst að það stafi af árferði en ekki framkvæmdum.
Nú virðist ára illa fyrir jökulsár, því á föstudaginn var heimsótti ég Dettifoss og tók enga mynd, enda varð ég fyrir vonbrigðum með hann. Hann var tær og sætur, næsum krúttlegur, en ekki það öskugráa og ógvekjandi skrímsli sem ég sá síðast þegar ég sá hann, bergið nötraði ekki undir honum og svei mér ef ég sá ekki hreinlega gullin mót sólu hlæja blóm.
Fossarnir eru því ekki eins tilkomumiklir á þessum myndum og öðrum sem þið kynnuð að hafa séð af þeim, en þessar eru ekki nema vikugamlar.


Ég læt fylgja með þrjár myndir sem sýna þrjár ólíkar þverár Jökulsár á Fljótsdal, þær eru af öllum stærðum og gerðum. Sú síðasta, sú sem stóri fossinn er í, heitir Laugará ...

... af því að við hana er heit laug sem var ansi gott að hlamma sér ofan í og hvlíla lúin bein eftir gönguna. Með mér á myndinni er Ísold dóttir mín.

3 ummæli:

Þorbjörn sagði...

http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=2041&gerd=Frettir&arg=7

Nafnlaus sagði...

Uuu...
Þú átt við að með þér á myndinni séu hægri öxl og upphandleggur dóttur þinnar? ;o)

Móðir, kona, meyja sagði...

Svei mér þá ef það er ekki ellimerki að eiga uppkomin börn...