þriðjudagur, júní 12, 2007

Bölvuð ekkisens ...


Mér finnst ótrúlega sorglegt að sjá gengið út frá því sem vísu að hæfileikinn til að læra eigi að eldast af manni, að það að vera enn að þroskast og auka við þekkingu sína sé merki um vanþroska. Auðvitað ætti þessu að vera öfugt farið. Fátt ber einmitt gleggri merki um vanþroska en að geta ekki lært, þroskast og breyst, að bíta í sig skoðanir og viðhorf sem maður er ófáanlegur ofan af hvað sem tautar og raular.
Sjálfum fannst mér það að skipta um viðhorf lengi vel jafngilda því að viðurkenna að maður væri vitleysingur sem hefði ekki haft vit á að hafa rétt fyrir sér allan tímann. Síðan áttaði ég á mig á því að það var í raun heimska dauðans. Engin lífvera er óbreytanleg fyrr en hún er orðin að steingervingi.
Fyrir stuttu færði lítið smáatriði í daglega lífinu mér heim sanninn um að í mér eimir enn eftir af hæfileikanum til að þroskast, þótt kominn sé á fimmtugsaldur. Ég lenti í slysi sem gladdi mig mjög.
Ég á forláta espressókaffikönnu. Maður hellir vatni í neðri hlutann, setur kaffi í síuna, skrúfar hana saman og setur á eldavélarhellu. Kanna þessi er einn fjölmargra smáhluta sem ég tel auka lífsgæði mín. Hins vegar brenndi ég mig illa á henni um daginn.
Einhvern tímann hefði ég bölvað könnunni í sand og ösku, talið það alvarlegan hönnunargalla að hægt væri að stórskaða sig á heimilistækjum. Öll ábyrgðin á slysinu hefði í huga mínum hvílt á framleiðandanum.
Eitthvað gerði það hins vegar að verkum að ég mundi eftir öllum þeim fjölda skipta sem ég hafði glaðst við að laga mér ljúffengt kaffi á þessari sömu könnu án þess að verða fyrir skakkaföllum, en ekki bara þessu eina skipti sem ég brenndi mig. Fyrir vikið gat ég ekki talið mér trú um að ekki væri hægt að laga kaffi á könnunni án þess að meiða sig, að hugsanlega hefði ástæða óhappsins ekki verið sú að kannan væri slysagildra heldur sú að í stað þess að hafa það í huga að ég var með sjóðandi heitan hlut í höndunum var ég að tala í símann og æpa á börnin mín um leið og ég tók könnuna af hellunni.
Mér skildist að ekkert í lífinu er idíót-proof. Ef maður hagar sér eins og ídíót kemst maður að því fyrr en varir. Það er á okkar eigin ábyrgð að haga okkur ekki eins og fífl og bölva svo heiminum fyrir að vera ekki nógu fíflvænn.


Bakþankar í Fréttablaðinu 10. júní 2007

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

verð að segja að ég er nokk sammála þér þarna, og líka frábærar könnur þarna á ferð, asskoti gott kaffi sem kemur úr þessum ítölsku mokka espresso könnum.
verst þykir mér þegar maður klaufskast á blessaðri gufunni frá henni..
en þetta með lærdóminn skil ég vel, en svo er líka hægt að taka inní hve mikinn áhuga og hvöt maður hefur til þess að læra nýja hluti, en þessir þættir minnka oft með aldrinum því lengur sem maður festir sig í rútínu.
en þetta er bara mitt álit.
frábært blogg btw.
kveðja, Eddi

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá þetta "ekkisens" í fyrirsögninni. Hélt að þetta væri út dautt. Man að þetta var sagt við mann í den: "Þetta eru nú meiri andskotans ekkisens lætin" svo bara hvarf þetta "ekkisens" - mamma er meira að segja hætt að nota þetta; hún var mikil "ekkisens" mamma. Það er nú meita andskotans ekkisens uppátækið í þeirri gömlu að hafa lagt þetta á hilluna.

Kveðja, Guðmundur

Móðir, kona, meyja sagði...

Ekkisens argaþras. Er íslenskan ekki dásamlegt mál!

Nafnlaus sagði...

Mjög góður pistill og áhugaverðar pælingar.

Kv.
Olga Björt
(dyggur lesandi)

Nafnlaus sagði...

Meðvirkni með kaffikönnu eða heilagur sannleikur?