þriðjudagur, júní 13, 2006

Maðurinn sem horfði á mig

Um daginn mætti ég á götu manni sem horfði á mig. Ég veit ekki af hverju hann horfði á mig, af svip hans fékk ég ekkert um það ráðið. Hann hefði þess vegna getað verið að hugsa: "Þarna er þetta helvítis fífl." En hann hefði allt eins getað hugsað: "Þarna er þessi höfuðsnillingur." Ég veit það ekki og mun aldrei vita. Kannski var hann bara að spá í hvort hann kannaðist við mig.
En hvort sem við gefum okkur að hann fyrirlíti mig eða dái er niðurstaðan sú sama: Tilfinningar og skoðanir eru einskis virði einar sér. Ef það breytir engu fyrir mig hvort maður sem ég mæti á götu hatar mig og fyrirlítur eða elskar mig og dáir hlýtur það að segja sig sjálft að jafnt hatur og fyrirlitning sem og ást og aðdáun eru ekki skíts virði fyrir neinn annan en þann sem rogast um með slíkar tilfinningar. Það er ekki fyrr en við gerum eitthvað í málunum sem tilfinningar okkar og skoðanir eru til einhvers. Ef þessi maður hefði annað hvort hrópað að mér ókvæðisorðum eða ausið mig lofi, ef hann hefði annað hvort kýlt mig eða kysst, hefðu skoðanir hans og tilfinningar haft áhrif á mig.
Það skiptir börnin mín sem sagt engu máli hvort ég elska þau eða hata ef ég sinni þeim ekki. Það er ekki fyrr en ég sýni börnunum mínum ástúð og legg þeim lið sem tilfinningar mínar í þeirra garð eiga einhvern þátt í að gera þau að heilsteyptum einstaklingum.
Það gildir unnustu mína einu hve ást mín á henni er heit í brjóstinu á mér. Þegar ég sit hreyfingarlaus og yrði ekki á hana breytir það engu fyrir hana hvort ég tilbið jörðina sem hún gengur á eða hef á henni megnan ímugust. Aldrei hefur andlega heilbrigð kona elskað karlmann af því að hann elskaði hana, heldur af því að henni féll það vel hvernig hann lét ást sína í ljós.
Það skiptir engu máli hvað maður er kærleiksríkur og góðgjarn. Ef maður á ekki samskipti við annað fólk er heimurinn jafnvel settur með mann hatursfullan og illgjarnan.
Það skiptir með öðrum orðum engu máli hvernig manni líður eða hvað manni finnst. Ef þú ert ósammála þessu er það ekki af því að ég hugsaði það, heldur af því að ég skrifaði það. Það var með öðrum orðum ekki það sem mér finnst sem hreyfði við þér, heldur það sem ég gerði.
Bakþankar í Fréttablaðinu 11. júní

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég horfði á þig um daginn, var smástund að reyna að máta þig við fólk sem ég hef þekkt í gegnum tíðina áður en ég áttaði mig að þú værir bara þú. Þá hætti ég að horfa á þig.