miðvikudagur, júní 07, 2006

Lengi lifi Orkuveitan!

Nýja Orkuveituauglýsingin fór mjög mikið í taugarnar á mér til að byrja með. Einkum vegna þess að mér finnst eins og í henni sé gefið í skyn að það verði að virkja á hálendinu til að fólk geti kveikt á standlömpum og haft rafmagn í tölvuna sína. Hvergi er gefið í skyn að aðeins lítið brot af því rafmagni sem nú þegar er framleitt hér á landi – án Kárahnúka – fari til heimila og vinnustaða og megnið af því til stóriðju. Líklega hafa auglýsingagerðarmennirnir haldið að þar sem megnið af sölutekjunum kemur frá almenningi hljóti hann að kaupa megnið af varningnum, en ekki að niðurgreiða hann til stórneytendanna eins og raunin er. Nema standlampar og tölvur séu betri fyrir ímyndina en álver.
En ég er búinn að taka þessa auglýsingu í sátt. Aðallega vegna þess að í henni kristallast hæfileikar okkar Íslendinga til að gera auglýsingar. Þarna er hvergi neitt til sparað að heitið geti. Alltjent vona ég að minn ágæti kunningi og fjölhæfi stórleikari, Valur Freyr Einarsson, hafi verið á þokkalegu kaupi. Þarna er stórbrotin tónlist, stórbrotið landslag, kóreógrafía á heimsmælikvarða, flinkir dansarar, flottir spesjaleffektar og leikmynd og búningar hvort tveggja óaðfinnanlegt. Þarna eru greinilega toppfagmenn á öllum póstum, í leik, söng, dansi, hljóði og kvikmyndatöku. Það vantar bara skáld.
Ég sé fyrir mér fundinn þar sem þetta var ákveðið, grunnhugmyndin er lögð fram. Auglýsingapési (A) og boss (B) ræðast við.

A: Þetta verður semsagt æðislegt spektakúl og allir fara að kaupa rafmagn eins og besefar.
B: Mér líst vel á þetta. Fáum í þetta allt helsta toppfólkið á sínu sviði á landinu.
A: Akkúrat. Músíkanta, dansara, leikara ...
B: ... og færustu kvikmyndagerðarmennina.
A: Svo ekki sé minnst á spesjaleffektana, maður. Gjósandi hverir og gufa og tilbehör.
B: ... og gott skáld til að yrkja textann.
A: Ertu snarbandsjóðandi vitlaus? Þá myndi pródjektið strax rjúka upp úr öllu böddsétti, maður
B: Ha, er það? Eru skáld svona dýr?
A: Já, hvað er þetta, maður? Fylgistu ekkert með? Gerirðu þér grein fyrir því hvað rím og stuðlar og höfuðstafir kosta?
B: Nei.
A: Nei, blessaður vertu, maður. Það myndi setja Orkuveituna á hausinn að hafa óbrjálaðan kveðskap í þessari auglýsingu.
B: Ó. Hvað gerum við þá?
A: Ég bið son minn sem er í ellefu ára bekk að setja eitthvað á blað. Eitthvað svona "allir vinir og allt í góðu lagi" bull.
B: Ræður hann við það?
A: Hann fer létt með það. Hann er með þeim betri í sínum bekk í móðurmáli.
B: Ókei. Þú ert fagmaðurinn. Ég treysti þér bara fyrir þessu.

Þessi auglýsing er með öðrum orðum fjöður í hatt íslenskrar menningar. Skáld eru svo hátt skrifuð núorðið að þrátt fyrir að vera með hæfasta atvinnufólkið á öllum sviðum á sínum snærum fannst Orkuveitunni hún ekki hafa efni á að hafa eitt slíkt í hópnum.
Hinn möguleikinn er reyndar að í öllum látunum og veseninu hafi engum hugkvæmst að auglýsingin yrði kannski áhrifaríkari ef hið sungna orð misþyrmdi ekki brageyra hvers manns sem ber skynbragð á bundið mál.
Núorðið halla ég mér aftur í stólnum þegar þessi auglýsing birtist, finn hvernig leirhnoðið særir málkennd mína og hugsa með mér "hurts so good"! Þessi auglýsing er nefnilega ekki bara afbragðsgóð kynning á starfsemi Orkuveitunnar, eins og þeir hjá Orkuveitunni vilja að fólk haldi að hún sé (ekki eins og hún er í raun), heldur einnig mun betri auglýsing á menningarstigi þeirra sem að henni standa en þeir munu nokkru sinni verða færir um að gera sér grein fyrir.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þér hefur ekki dottið í hug að...tja..slökkva á hljóðinu?

Saumakona - eða þannig sagði...

Góður!
Maður fær stundum svona "hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna"-tilfinningu að hlusta á ýmsa þá samsuðu sem borin er á borð fyrir okkur neytendur í fjölmiðlunum, barasta!

Nafnlaus sagði...

Mér skilst að höfundur textans sé eitthvað það aldýrasta skáld sem fáanlegt er á landinu um þessar mundir og sjáist oft skáskjóta sér sköllótt um götur miðborgar Reykjavíkur, líklega hlæjandi alla leiðina í bankann.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.