fimmtudagur, júlí 13, 2006

Að drepast úr ástarsorg

Einn kunningi minn er að drepast úr ástarsorg. Bókstaflega. Ég veit að ástarsorg er ekki banvæn í sjálfri sér, en skorpulifur er það.
Mig langar ekki að gera lítið úr fallegum og göfugum tilfinningum eins og sorg eftir ástvinamissi. Auðvitað er djöfullega erfitt að þurfa að endurmeta öll framtíðaráform sín á einu bretti eftir að manneskjan sem var órjúfanlegur hluti af þeim öllum ákveður að hún vilji ekki lengur taka þátt í þeim heldur vilji hún eitthvað annað, eitthvað þar sem ekki er pláss fyrir mann sjálfan. Það er eðlilegt að syrgja allt það fagra sem átti að verða og hefði getað orðið. Það er eðlilegt að vera hnugginn á meðan maður gengur í gegn um slíkt.
En þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Það er eðlilegt að ganga í gegn um slíkt. Það er ekki eðlilegt að grafa sig í því, gefast upp og neita að halda áfram með líf sitt. Og að gera sorgina að blóraböggli fyrir eigin aumingjaskap, að nota hana sem afsökun fyrir því að hætta að bera ábyrgð á lífi sínu og drekka sig í hel er beinlínis ljótt.
Það sem einkum gerir það ljótt er hrokinn sem það lýsir. Mér finnst það hreinlega móðgandi að þessi kunningi minn virðist vera þeirrar skoðunar að þótt aðrir hafi jafnað sig eftir skilnað geti það ómögulega gerst í hans tilfelli, nánast eins og hann sé fær um að elska á einhvern dýpri hátt en allir aðrir, að aldrei hafi maður elskað konu eins heitt og hann sína fyrrverandi og því sé sorg hans sárari en nokkur fær megnað að skilja. Hann virðist trúa því að sem tilfinningavera sé hann á einhverju æðra plani en restin af mannkyninu.
En hvað er svo á bak við þessa ástarsorg? Jú, hann vill að þessi kona sé frekar með honum en manninum sem hún er með núna. Auðvitað kjósa konan, nýji maðurinn hennar og allir vinir þeirra frekar núverandi ástand. Sú staðreynd að hann er eina manneskjan í heiminum sem er á bömmer yfir því hvernig málum er háttað gefur honum enga ástæðu til að reyna að breyta því sem hann vill.
Það sem í raun fyllir þennan kunningja minn sorg er semsagt að annað fólk skuli voga sér að láta tilfinningar sínar og ástarlíf snúast um annað en að gera honum til hæfis. Hann þjáist í raun aðeins af banvænni frekju og eigingirni undir þunnu lagi af bleikri málningu.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 7.

5 ummæli:

Fríða sagði...

Vá hvað mig hefur stundum langað til að skrifa svona færslu um konu sem ég veit um og lætur svona eftir skilnað, eins og hennar skilnaður sé æðri öðrum skilnuðum um leið og hún ætlast til að allir sem gengið hafi í gegn um skilnað skilji hana svo vel. Hún myndi gersamlega frysta mig úti ef hún læsi svona hjá mér.. er reyndar kannski löngu búin að því. Vegna þess að ég vorkenni ekki rassgat að vera skilin. Ég kannski vorkenni henni að vera ekki búin að koma sér upp úr þessari sjálfsvorkunn fyrir löngu síðan. Nei annars, það er enginn tilgangur í þannig vorkunn heldur.

spritti sagði...

Iss, það eru líka til verri dauðdagar en að drepast úr ástarsorg, td að kremjast hægt. Það er leikfang satans.

Nafnlaus sagði...

Dabbi minn ! ert´orðinn latur?
Skrifa meira, drekka minna..

Nafnlaus sagði...

Davíð Þór

Með þeim betri greinum sem þú hefur skrifað og eru nú margar þeirra nóbelsverðlaunaverðar:-)

Skil alveg hvað þú ert að fara með henni.

Nafnlaus sagði...

Frábærar greinar hjá þér! Sérstaklega þessi hér um vin þinn sem er að drepast úr frekju hehehhe!

Ég er að safna inn skemmtilegum pælingum á mína síðu og setti linkinn þinn þar inn á.

Takk fyrir að vera til!

Kærleikskveðja Jólanta