miðvikudagur, júlí 26, 2006

Gyðingahatur

Á unglingsárum mínum bjó ég eitt ár í Bandaríkjunum. Einn vina minna þar var af gyðingaættum, en þegar ég spurði hann hvort hann væri gyðingur svarði hann: "Nei, ég er anarkisti." Í hans huga hafði orðið gyðingur merkingu sem engan veginn samræmdist því að vera anarkisti.
Það er nefnilega alls ekki augljóst hvað átt er við þegar talað er um gyðinga. Fólki hættir jafnvel til að taka sér orðið gyðingur í munn án þess að gera sér grein fyrir því sjálft hvort það er að tala um þjóðerni, kynþátt, trúarbrögð eða jafnvel alþjóðastjórnmál. Þessa dagana er alveg sérstaklega mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu til að forðast að réttlætiskennd manns geri mann að rasista.
Ég ber mikla virðingu fyrir gyðingum og finnst reyndar ekki einleikið að ekki stærri hluti jarðarbúa skuli hafa getið af sér svona marga af helstu snillingum mannkynssögunnar á sviði menningar, vísinda og heimspeki. Ég læt mér nægja að nefna Bob Dylan, Albert Einstein og Jesú Krist.
Ég ber líka djúpa virðingu fyrir gyðingdómi, þeim fornu og göfugu trúarbrögðum. Elstu trúarrit gyðinga voru skrifuð fyrir um 3000 árum og segja sögur sem þá höfðu varðveist í munnlegri geymd í um 1000 ár. Til samanburðar má geta þess að Íslendingasögurnar voru ritaðar fyrir 700 – 800 árum og segja frá atbuðum sem gerðust 200 – 300 árum fyrr. Það er hreint ótrúlegt hve krónólógía sköpunarsögunnar er lík þeim hugmyndum sem færustu vísindamenn nútímans gera sér um þróun lífsins á jörðinni. Hún er mun nútímalegri en sköpunarsaga norrænna manna sem þó er mun yngri. Í Gamla-Testamentinu er að finna elsta, þekkta mannréttindasáttmála sögunnar. Þar er kveðið skýrt á um skyldur manna gagnvart fólki af öðrum þjóðernum og því tryggð ákveðin grundvallarréttindi, hugmyndafræði sem aðrir uppgötvuðu þúsöldum síðar.
Við megum ekki rugla gyðingum og gyðingdómi saman við Ísrael. Við megum ekki gleyma sögunni og láta framferði Ísraelsríkis gera lítið úr minningu og þjáningum milljónanna sem fórust í ofsóknum nasista. Við verðum að gæta þess að ímugustur okkar á fjöldamorðum Ísraelsmanna á óbreyttum borgurum í Líbanon veki ekki með okkur óbeit á fólki eða trúarbrögðum sem aðeins eiga skilið virðingu okkar og samúð.
Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 7.

14 ummæli:

Saumakona - eða þannig sagði...

Forsetafrúin okkar, sem sjálf er gyðingur, móðgaði menn á flugvelli í upprunalandi sínu um daginn með því að segja við þá að ísraelar kæmu óorði á aðra gyðinga. Ég er henni reyndar hjartanlega sammála.

Nafnlaus sagði...

Én veit nú samt ekki betur en að 98,98475509% Ísraela séu einmitt gyðingar. Ekki það að ég sé haldinn gyðingahatri en held að þeir geti orðið lítið sagt þegar kemur að helförini. Held nú bara að gyðingar séu búnir að drepa töluvert fleiri óbreytta borgara heldur en nokkurntíma nasistar gerðu. En hitt er annað mál að gyðingatrúin er ekki svo vitlaus og það að kalla einhvern anarkista gyðing er auðvitað bara bull og vitleysa.

Hnakkus sagði...

Spritti þú kannt ekki að telja. Hvernig færðu það út að Gyðingar/ísraelsmenn hafi myrt fleiri en þær milljónir sem var slátrað í búðum nasista? Það er afar fjarri lagi. Ef við tökum svo alla sem dóu í seinni heimstyrjöldinni sem nasistar störtuðu, þá skeikar útreikningunum hjá þér um það bil tífalt meira en áður og nóg var nú samt. Það væri gaman að sjá útreikningana hjá þér ef þú hefur tíma.

Síðan er gyðingtrúin víst vitlaus...eins og önnur trúarbrögð og hjátrú.

Nafnlaus sagði...

Spurning til höfundar.
Er það klárt að Jesús hafi verið gyðingur?

Nafnlaus sagði...

Jesús var gyðingur, myrtur af gyðingum.....

Hnakkus sagði...

Jesús var nú ekki einu sinni til svo öruggt þyki. Engar almennilegar samtímaheimildir staðfesta tilvist þessa meinta manns.

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki bara spurning um hvaða heimildum á að trúa?

Nafnlaus sagði...

Ja, eða "heimildum"...

Karna Sigurðardóttir sagði...

Þetta finnst mér fallega skrifað Davíð,

Ég veit lítið um Gyðinga - og söguna yfirleitt...

Hvað sem tautar og raular borgar sig aldrei að vera rasisti, alveg sama hvað margir "gyðingar gerðu svona" og "hommar gerðu hitt"... einstaklingurinn verður að fá að vera einstaklingur...

Var ekki gaman á Borgó annars?

knús að neðan, Karna og Völmer

Davíð Þór sagði...

Þó að langflestir Ísraelsmenn séu gyðingar hefur mikill minnihluti þeirra gyðinga sem uppi hafa verið verið Ísraelsmenn. Þeir sem létust í helförinni, Bob Dylan og Jesús Kristur bera enga ábyrgð á loftárásunum á Líbanon og eiga því ekki að gjalda þeirra. Hinu má ekki heldur gleyma að mikill fjöldi Ísraelsmanna hefur óbeit á ríkisstjórn sinni.

Unknown sagði...

Samkvæmt þeim tölum sem ég hef séð er reyndar "aðeins" 80% ísraelsku þjóðarinnar gyðingar - ekki 98,9%. Um tuttugu prósent eru af öðrum uppruna.

En hvað um það. Auðvitað er stór munur á gerðum Ísraelsstjórnar annars vegar og skoðunum allra Ísraelsmanna hins vegar, svo ekki sé minnst á skoðanir allra gyðinga í heiminum. Það er ekkert samasem merki þarna á milli.

Nafnlaus sagði...

ég veit ekki hvort nokkur les yfir þessa pósta lengur en, ég hef persónulega reynslu af gyðingi, ég ætla rétt að vona að allir hinir séu ekki eins og hann, en ef svo þá er ég ekki hissa að mönnum sé illa við þá.
Hvað nasistana varðar þá skulum við ekki gleyma því að þeir töpuðu, hversu margir gyðingar skyldu hafi dáið ef þeir hefðu unnið?

Nafnlaus sagði...

þessi umæða er fyrirlitleg og óupplýst. Ísrael hóf ekki árásinar á L-on og árásaraðilinn beitir vopnum sínum innan um borgara. Þeir eru sekir. PLO framdi miklu meiri grimdarverk í L-on hér áður fyrr og þjóðirnar í kringum Ísrael haf drepið miklu meira en ísrael. Það hefur tekist að fá alla evrópumenn til að hata Ísrael og gyðinga á undanförnum árum og kennaq þeim um allt. Þetta minnir mig á söguna fyrir stríð. Og Davíð ef þú ætlar að kasta svona fullyrðingum færðu þá amk fram rök og líttu á báðar hliðarnar

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú meiri lágkúran. Þú ert í raun að segja:"Some of my best idols are Jews, but I hate Israel". Samkvæmt skilgreiningu þinni og rökleysu eiga gyðingar aðeins að vera trúarbrögð. Eitt einasta ríki má ekki tilheyra gyðingum, meðan kristfasistarnir og múslímar skipta á milli sín þorra jarðarkringlunnar.

Í löndum, þar sem gyðingar eru hataðir, t.d. í sumum ríkjum BNA (sem skýrir hegðun skólabróður þíns þar), eru sumir gyðingar hræddir við að sýna Ísraelsríki stuðning sinn og nauðsyn Ísraelsríkis að verja sig fyrir linnulausum morðárásum. Ísraelsmenn/Gyðingar eiga nágranna, sem endrum og eins lýsa því yfir að þeim beri að útrýma. Kynntu þér sögu gyðinga í löndum Araba og reyndu að skilja af hverju Bob Dylan, Einstein og margir af þínum "góðu gyðingum" ólust ekki upp á meðal múslíma.

Dylan og Einstein urðu ekki mikilmenni vegna trúarbragðanna sem þeir iðkuðu, eins og mætti skilja af bullinu í þér. En trúarbrögðin og þjóðin Ísrael hélst saman í þúsundir ára vegna trúarinnar á að Ísrael yrði aftur ríki. Þess vegna hefur þú Dylan og Einstein og aðra gælugyðinga þér til halds þegar þú hatast út í Ísraelsríki. En þeir frændur hefðu ekki lifað í dag hefðu gyðingar ekki átt sér draum, draum sem einhver prestlærlingur og súpergrínari á Íslandi telur vera martröð. Ekki held ég að gælugyðingurinn Jesús hefði verið sammála þér? En hver veit, kannski skammaðist hann sín líka fyrir að vera gyðingur og var "anarkisti" sem stundaði lýðskrumarapopp eins og þú Davíð Þór.

Mikið er nú gott að vera borgari í landi þar sem tófan og álkan voru á þingi áður en rótlausir besservisserar komu frá Noregi og fóru að segja heiminum til og byrjuðu að fá hlutverk á meðal þjóðanna. Í slíku ríki þrífst aldrei neinn Einstein eða Dylan. Það næstbesta er líklegast Davíð Þór, þó að hann sé ekki búinn að uppgötva að allt sé afstætt. Svarið fær Davíð Þór ekki í kjaftsprengjum sínum gegn Ísrael. Because the answer my friend is blowin' in the wind. Og mikið er af vindi á Íslandi