föstudagur, ágúst 04, 2006

Ég þarf að losna við reytur

Ég hef verið lélegur í blogginu undanfarið og stafar það af miklum önnum við annað, kvikmyndaleik, þýðingar og önnur skrif. Ennfremur er þannig í pottinn búið hjá mér að ég hef ekki internet heima hjá mér og þarf því að stunda blogg á heitum reitum kaffihúsa borgarinnar. Reyndar má eiga von á því að ég verði duglegri á næstunni því þann fimmtánda flyt ég og hef sambúð á Hjarðarhaganum með minni heittelskuðu. Við það að við ruglum saman reytum okkar verða hins vegar til tvö eintök af sumum reytum og því eðlilegt að sú reytan sem er í lakara ástandi víki. Þess vegna þarf ég að losna við þetta:

1) Ísskáp. Hann er í toppstandi, nema hvað rafmagnsperan er farin. (Það er svo bjart í eldhúsinu hjá mér að það kemur ekki að sök). Hann er frekar nýlegur, þótt unnustan eigi annan nýrri, og þess vegna langar mig að fá pening fyrir hann. Ég held að 10.000 kall sé sanngjarnt.

2) Þvottavél (sambyggð þvottavél og þurrkari) af gerðinni Candy Alice. Hún er ókeypis fyrir hvern þann sem nennir að ná í hana. Hún er komin til ára sinna og er lítillega biluð, en það er væntanlega lítið mál að laga það auk þess sem ég hef notað hana með góðum árangri þrátt fyrir bilunina alllengi. Bilunin er þannig að þegar vélin er á næstsíðasta stað í þvottaprógramminu, rétt áður en hún fer á "stop", hættir prógrammið að halda áfram og hún er endalaust á þessum stað (þar sem hún færi yfir í þurrkun væri stillt á þurrkun). Með því að snúa takkanum einfaldlega yfir á "stop" þegar þangað er komið í prógramminu er hins vegar hægt að taka úr vélinni þvottinn sinn tandurhreinan.

3) Ryksugu. Hún fæst líka gefins. Hún er líka biluð en vel nothæf þrátt fyrir bilunina. Bilunin er í því fólgin að hún fer í gang um leið og henni er stungið í samband, þ. e. ræsirofinn (on/off takkinn) virkar ekki (er fastur á "on"). Þessari ryksugu fylgja nokkrir ryksugupokar. Þar sem ég sit á kaffihúsi get ég ekki skotist inn í eldhús og talið þá.

Það gaf svo skolli góða raun að nota bloggsíðuna til að losna við kettlingana hérna um árið að mér datt í hug að ég gæti notað hana til að losna við þessi heimilstæki líka. Áhugasamir geta skilið eftir nafn og símanúmer í kommentakerfinu hér á síðunni eða flett upp á mér í símaskránni.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég reyndi að koma reytum þínum áfram, en ég held að þú verðir að bíða eftir að markaðurinn jafni sig á auðum reytum. Ég á kettlinga til gefins

Nafnlaus sagði...

Mig vantar ísskáp !! Hann má þó ekki vera hærri en 155 cm... Get sótt hann nokkurn veginn hvenær sem er.... bjallaðu á mig, kallinn :)820-9713

Karna Sigurðardóttir sagði...

æ, en gaman að sjá að þetta er allt að komast á skrið hjá ykkur. Ég vildi ekkert frekar en vera til staðar og þrífa eldhúsinnréttingar, stunda klósettkafanir og bera kassa milli húsa í borginni. "Gangi ykkur vel" - verður því miður að vera mín hönd á plóginn.

Varastu þó að líkja Kisubörnum og JanOlafs við biluð heimilistæki :D

Knús og kveðjur, góða skemmtun og gott gengi! K og V

Nafnlaus sagði...

Ekki vill svo til að þig vantar frystiskistu. Þarf sjálfur að losa mig við flikki sem ég hef ekkert með að gera. Á aldrei neitt heimaslátrað eða neitt lík til að fela :D

Hjörtur Howser sagði...

Welcome back my friend, to the show that never ends.

Nafnlaus sagði...

Mig vantar þvottavél og ryksugu! Verð í sambandi.

Nafnlaus sagði...

Ég væri til í að eignast þessa ryksugu, bara til þess að geta sagt að ég ætti ryksugu sem Davíð Þór átti einu sinni. En þar sem ég á ágætis ryksugu, græna, sem afi minn gaf mér, þá ætla ég að láta hinum þurfandi eftir að eignast þína.

Davíð Þór sagði...

Allar eru reyturnar komnar út. Nú er bara að bíða og sjá hvort ekki þurfi að losna við eitthvað fleira þegar tekið verður upp úr kössum og reynt að finna húsgögnum stað. Það verður þá auglýst hér á þessari síðu.

Nafnlaus sagði...

Er rafmagnsperan farin? - Kertið virkar þó enn, ekki satt? :)