mánudagur, desember 29, 2008

Draumvísa

Í nótt dreymdi mig draum sem var eins og út úr Íslendingasögum. Hann var svo þrunginn merkingu að ég hlýt að óska eftir ráðningu hans hjá frómum lesendum. Hann var á þessa leið:
Mér fannst að ég væri að taka útvarpsviðtal við Megas. Spurningarnar áttu að vera út í hött til að gefa kost á hnyttnum tilsvörum, en það fór fyrir ofan garð og neðan. Þegar Megas spurði mig hvað fyrir mér vekti með þessum þætti og ég svaraði því til að ég vonaðist til að hann slægi í gegn hló hann. Að skilnaði gaf hann mér síðan ferhyrnta, græna leðurpjötlu með áþrykktu tvískiptu mynstri sem hörð var og skorpin eins og gamalt bókarspjald. Síðan fór hann með vísu.
Þegar ég kom heim reyndi ég að fara með vísuna fyrir konuna mína en rak fljótt í vörðurnar. Þá kom aftur á móti í ljós að hún hafði heyrt þessa vísu áður, kunni hana og fór með hana fyrir mig.
Þetta þótt mér merkilegt og ég fór að velta því fyrir mér hvort algengt væri að fólk dreymdi rétt kveðnar vísur, sem jafnvel væru eftir aðra en það sjálft. Þá datt mér í hug að sennilega væri þessi vísa hreint bull, en mér fyndist hún bara vera góð og rétt kveðin þar sem mig væri að dreyma.
Þá vaknaði ég, eins og jafnan gerist þegar ég geri mér grein fyrir því í draumi að mig sé að dreyma. Hins vegar mundi ég vísuna. Hún er svona:

Mælt er að ég hafi mælt við því já
að menn skyldu þegar og án þess að hvá
landinu varpa í einingu á
úthafsölduna, svei mér þá
- úthafsölduna, svei mér þá.

Nú óska ég eftir ráðningu.

þriðjudagur, desember 23, 2008

Ömurleg jól


Ömurlegustu jól sem ég hef lifað voru árið 1993. Ég var nýfráskilinn og nýfluttur inn í íbúðarkytru í miðborginni. Megnið af hafurtaskinu mínu var því ýmist enn í kössum eða hjá minni fyrrverandi. Kringumstæður mínar höfðu verið þannig að lítið hafði farið fyrir jólaskapinu hjá mér á aðventunni og ofan á það var ég staurblankur. Af þeim sökum ákvað ég að gera ekkert úr jólunum, heldur herja þess í stað á fjölskylduboðin yfir bláhátíðarnar og halda svo áfram með líf mitt eins og ekkert hefði ískorist. Hins vegar gekk einhver pest þessi jól, þannig að mamma lagðist í bælið og boðinu á jóladag var aflýst. Þar sem ég átti ekki í nein önnur hús að venda var ég því einn heima í hálfkaraðri og óskreyttri íbúð. Ég sauð mér frosna ýsu sem ég átti og át hana með kartöflum og smjöri. Það var jólasteikin mín.
Ég hef alloft orðið niðurdreginn um dagana, en aldrei hefur annað eins svartnættisþunglyndi með sjálfsvorkunn og algjöru vonleysi hellst yfir mig og þennan jóladag. Samt var ekkert við kringumstæðurnar í sjálfu sér sem hefði átt að gera mig dapran. Ýsa er góður matur og húsnæði manns er alla jafna ekki skreytt í hólf og gólf. Ef þetta hefði verið virkur dagur í janúar hefði ekki verið nein ástæða til að kvarta. En þetta var ekki virkur dagur í janúar heldur jóladagur. Hann á að vera öðruvísi en aðrir dagar ársins.
Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er sú að ég get ímyndað mér að þessi jól sé svipað ástatt um marga. Jólaskapið hefur eflaust víða átt erfiðara uppdráttar nú en oft áður út af áhyggjum og fjárhagslegu óöryggi. Aðventan kynni að hafa gert ýmsum erfitt um vik að fyllast sama jólaanda og vanalega.
Ég vil samt skora á þá sem þannig er ástatt fyrir um að hunsa ekki jólin með öllu. Það er beinlínis mannskemmandi að gera sér engan dagamun á þessum árstíma. Íburður er óþarfur, jafnvel bara til vansa. Pínulítið greni, kerti, jólakúla, engill eða stjarna ætti ekki að vera neinum ofviða. Ekki heldur dós af jólaöli, súkkulaðimoli, sneið af hreindýrakæfu eða annað sem hver tengir sínum jólum. Það er beinlínis sálartortímandi að gera ekkert til að lyfta sér upp eða lífga upp á umhverfi sitt núna í svartasta skammdeginu.
Ég mæli alla vega ekki með því.
Gleðileg jól.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 12. 2008

þriðjudagur, desember 09, 2008

Lygamöntrur

Tungumálið er sennilega hættulegasta vopnið sem maðurinn hefur fundið upp. Með því virðist nefnilega vera hægt að svipta venjulegt fólk heilbrigðri skynsemi og telja því trú um nánast hvaða himinhrópandi vitleysu sem er. Einkum virðast mér þó Íslendingar berskjaldaðir fyrir áhrifum tungumálsins. Ef setning er sett fram í formi algildra sanninda eða spekiyrða og þulin nógu oft fer fólk sjálfkrafa að álíta hana rétta. Gildir þá einu hve miklum dómadags þvættingi hefur verið komið fyrir í henni. Dæmi um þetta gæti verið setningin: „Sjaldan lýgur almannarómur.“ Þeir sem almannarómur hefur tekið til umfjöllunar vita ósköp vel að hraðlygnara fyrirbæri er vandfundið, ef það á annað borð er til.
Annað dæmi gæti verið setningin: „Það sem drepur mann ekki gerir mann sterkari.“ Þessi setning lýsir óskiljanlegu hugsunar- og tillitsleysi. Hvað með alla þá sem orðið hafa fyrir hremmingum sem marka þá fyrir lífstíð og gert hafa þá veikari fyrir? Hvað með bæklandi og limlestandi sjúkdóma, áföll og harm sem aldrei hverfur? Vissulega er hægt að lifa af sorg og kvöl og jafnvel að eflast við ágjöf. En margir lenda einnig í raunum sem veikja þá til muna það sem þeir eiga eftir ólifað, þótt þær dragi þá ekki beinlínis til dauða.
Sömuleiðis veit ég ekki hvaða húmorslausi þurs mælti fyrstur: „Öllu gamni fylgir nokkur alvara.“ Þetta er einhver mesta endemis þvæla sem ég hef nokkru sinni heyrt. Mörgu gríni fylgir hreint engin alvara. Fullt af gamni er sett fram í þeim tilgangi einum að kalla fram brosviprur og er ekki ætlað að hafa neina tengingu við neitt sem á nokkurn hátt má flokka undir alvöru. Með því að telja öllu gamni fylga einhver alvara er gamansömu fólki gerðar upp annarlegar hvatir, meiningar eru lesnar inn í fullkomlega græskulaust glens og ánægjan af hreinræktuðu og tæru gríni eyðilögð fyrir öllum.
Ástæða þess að ég er að vekja máls á þessu er að um þessar mundir virðist mér enn ein lygamantran af þessu tagi vera að fara á kreik. Sú setning hlýtur auðvitað að ofbjóða réttlætiskennd hvers manns og nísta hann í raunveruleikaskynið. Því má þessi blekking alls ekki verða að viðurkenndri staðreynd í huga nokkurs manns. Setningin er svona: „Við tókum öll þátt í þessu.“
Bakþankar í Fréttablainu 7. 12. 2008.