miðvikudagur, apríl 28, 2010

Að ...

... gefnu tilefni ákvað ég að setja ritgerð sem ég skrifaði í haust á netið, ef einhver skyldi nenna að lesa hana. Hún er ítarlegasta greinargerðin sem ég hef hingað til gert fyrir minni afstöðu til hjónavígslu samkynhneigðra í ljósi mannréttindasjónarmiða, studd guðfræðilegum, kirkjulegum, biblíulegum og siðfræðilegum rökum. Hana má lesa hér.

mánudagur, apríl 19, 2010

Góðar fyrirmyndir

Það er gott eiga sér fyrirmyndir. Það er hollt að geta dáðst að eftirsóknarverðum eiginleikum og hæfileikum annarra og leggja sig í framkróka við að tileinka sér þá til að bæta sjálfan sig og verða eilítið aðdáunarverðari sjálfur. En auðvitað verður að vanda valið á fyrirmyndum.

Fyrir nokkrum árum missti góður vinur minn föður sinn. Þetta var stórmerkilegur karl sem naut virðingar okkar allra félaganna. Hann hafði komið víða við og gegnt margvíslegum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum, bæði í opinbera geiranum og ýmsu félagsstarfi. Allt þetta tíundaði presturinn samviskusamlega í minningarorðunum. Við það varð annar vinur minn fyrir djúpstæðri reynslu, honum fannst lítið til sjálfs sín koma og ákvað að hann þyrfti að láta meira til sín taka og leggja meira af mörkum, þótt ekki væri nema til þess að hægt væri að segja eitthvað merkilegt um hann í jarðarförinni. Skömmu síðar var þess farið á leit við hann að hann tæki að sér trúnaðarstörf fyrir fagfélag sitt og þáði hann það. Það er skemmst frá að segja að þau störf hafa verið honum til lítillar ánægju og öðru hverju hefur hann hugsað atorku og elju hins farna höfðingja, ásamt sinni eigin áhrifagirni, þegjandi þörfina.

Fyrir fjórum árum settist ég við tölvuna mína og skrifaði mína fyrstu Bakþanka. Þessir eru númer hundrað. Þegar ég byrjaði hafði ég hugsað mér að hætta eftir þann hundraðasta, ef ekki væri búið að reka mig. Mér fannst að það hlyti að vera ágætt, þá væri ég búinn að segja allt sem ég hefði fram að færa og tímabært væri að snúa sér að öðru.

Í fyrra kvaddi annar merkur höfðingi þennan heim, Flosi Ólafsson. Hann var að mínu mati einhver allra skemmtilegasti penni þjóðarinnar, lipur og hnyttinn, en á milli línanna mátti þó ávallt greina djúpa alvöru og mannúð, líka þegar hann var bara að fíflast. Ég ætla mér ekki þá dul að líkja okkur saman, en betri fyrirmynd fyrir pistlahöfund er að mínu mati vandfundin. Þegar Flosa var minnst kom m. a. fram að hann skrifaði meira en 700 pistla um sína daga. Þá varð mér svipað innanbrjósts og vini mínum í útförinni um árið, mér fannst ég sjálfur ósköp ómerkilegur.

Ég ætla því að halda áfram ótrauður um sinn, ef ég fæ. Ég lofa þó að hætta áður en aðdáun mín á Flosa, húmor hans og stíl verður mér uppspretta gremju frekar en þakklætis fyrir að hafa fengið að njóta hæfileika hans.
Bakþankar í Fréttablaðinu 17. 4. 2010

sunnudagur, apríl 11, 2010

Hlymrek á hálffimmtugu

Manni nokkrum, sem bjó úti í Búdapest,
fyrir bévítans slugs tókst að stúta pest,
sem læknar álitu
langvinna skitu
en reyndist svo hættuleg hrútapest.

Tileinkað Jóhanni S. Hannessyni

þriðjudagur, apríl 06, 2010

Utan af landi

Konan mín er utan af landi en ekki ég. Þótt þetta valdi ekki oft misskilningi á heimilinu getur þó einstaka sinnum komið fyrir að menningarlegur bakgrunnur okkar er of ólíkur til að samstundis sé fyllilega ljóst hvað átt er við með sama orðalaginu. Til dæmis stakk konan mín upp á því við mig um daginn að við færum og kíktum á gosið þegar veður væri heppilegt til þess. Þetta leist mér vel á og samþykkti ég hugmyndina samstundis. Þegar farið var að ræða ferðatilhögunina ítarlegar kom aftur á móti í ljós að það að „kíkja á gosið“ hafði ekki sömu merkingu í huga okkar beggja. Ég sá fyrir mér bíltúr út á Kambabrún til að athuga hvort við sæjum gosstrókinn bera við himin, hún sá fyrir sér göngu á Fimmvörðuháls.

Til að flækja málin enn meir þá heyrðist henni ég segja „Klambratún“ þegar ég sagði „Kambabrún“. Eftir að hún hafði þusað heillengi um höfuðborgarhyski sem bæri ekkert skynbragð á vegalengdir og víðáttur landsins okkar tókst þó að leiðrétta þann misskilning. Að vísu sárnaði mér dálítið að konan mín skyldi álíta mig svo veruleikafirrtan Reykjavíkurplebba að ég teldi mér virkilega trú um að líklegra væri að sjá gosið af Klambratúninu en héðan af Hjarðarhaganum. Henni þótti það aftur á móti ekkert ótrúlegt að reykvískum miðborgarrottum fyndust þær vera komnar langleiðina út á land þegar þær væru komnar vestan úr bæ alla leið á Klambratúnið og að þar kynni jafnvel gosið í Eyjafjallajökli að bera fyrir augu þeirra.

Það verður að viðurkennast að hugmyndin um langar gönguferðir um óbyggðir vekur með okkur mjög ólík hughrif. Ég á í raun erfitt með að lýsa því með orðum hve mér finnst tilhugsunin um að ganga tímunum saman yfir móa og grjót til þess eins að sjá móa og grjót, sem er alveg eins og móinn og grjótið þar sem við lögðum bílnum, lítið heillandi. Ef vegurinn hefði verið lagður þar hefðum við lagt bílnum þar og gengið þaðan til að sjá móann og grjótið þar sem við lögðum af stað og fundist hann miklu merkilegri en móinn og grjótið sem ferðinni var heitið að sjá.

En samband byggir á því að gefa og þiggja og þess vegna læt ég mig hafa það einu sinni til tvisvar á sumri að þramma eitthvert út í bláinn í fylgd konu minnar. Og þegar heim er komið er ég nú reyndar yfirleitt mjög ánægður. Tilhugsunin um ferðina reynist einatt mun kvíðavænlegri en ferðin sjálf.

Bakþankar í Fréttablaðinu 3. 4. 2010