miðvikudagur, júlí 26, 2006

Gyðingahatur

Á unglingsárum mínum bjó ég eitt ár í Bandaríkjunum. Einn vina minna þar var af gyðingaættum, en þegar ég spurði hann hvort hann væri gyðingur svarði hann: "Nei, ég er anarkisti." Í hans huga hafði orðið gyðingur merkingu sem engan veginn samræmdist því að vera anarkisti.
Það er nefnilega alls ekki augljóst hvað átt er við þegar talað er um gyðinga. Fólki hættir jafnvel til að taka sér orðið gyðingur í munn án þess að gera sér grein fyrir því sjálft hvort það er að tala um þjóðerni, kynþátt, trúarbrögð eða jafnvel alþjóðastjórnmál. Þessa dagana er alveg sérstaklega mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu til að forðast að réttlætiskennd manns geri mann að rasista.
Ég ber mikla virðingu fyrir gyðingum og finnst reyndar ekki einleikið að ekki stærri hluti jarðarbúa skuli hafa getið af sér svona marga af helstu snillingum mannkynssögunnar á sviði menningar, vísinda og heimspeki. Ég læt mér nægja að nefna Bob Dylan, Albert Einstein og Jesú Krist.
Ég ber líka djúpa virðingu fyrir gyðingdómi, þeim fornu og göfugu trúarbrögðum. Elstu trúarrit gyðinga voru skrifuð fyrir um 3000 árum og segja sögur sem þá höfðu varðveist í munnlegri geymd í um 1000 ár. Til samanburðar má geta þess að Íslendingasögurnar voru ritaðar fyrir 700 – 800 árum og segja frá atbuðum sem gerðust 200 – 300 árum fyrr. Það er hreint ótrúlegt hve krónólógía sköpunarsögunnar er lík þeim hugmyndum sem færustu vísindamenn nútímans gera sér um þróun lífsins á jörðinni. Hún er mun nútímalegri en sköpunarsaga norrænna manna sem þó er mun yngri. Í Gamla-Testamentinu er að finna elsta, þekkta mannréttindasáttmála sögunnar. Þar er kveðið skýrt á um skyldur manna gagnvart fólki af öðrum þjóðernum og því tryggð ákveðin grundvallarréttindi, hugmyndafræði sem aðrir uppgötvuðu þúsöldum síðar.
Við megum ekki rugla gyðingum og gyðingdómi saman við Ísrael. Við megum ekki gleyma sögunni og láta framferði Ísraelsríkis gera lítið úr minningu og þjáningum milljónanna sem fórust í ofsóknum nasista. Við verðum að gæta þess að ímugustur okkar á fjöldamorðum Ísraelsmanna á óbreyttum borgurum í Líbanon veki ekki með okkur óbeit á fólki eða trúarbrögðum sem aðeins eiga skilið virðingu okkar og samúð.
Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 7.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Að drepast úr ástarsorg

Einn kunningi minn er að drepast úr ástarsorg. Bókstaflega. Ég veit að ástarsorg er ekki banvæn í sjálfri sér, en skorpulifur er það.
Mig langar ekki að gera lítið úr fallegum og göfugum tilfinningum eins og sorg eftir ástvinamissi. Auðvitað er djöfullega erfitt að þurfa að endurmeta öll framtíðaráform sín á einu bretti eftir að manneskjan sem var órjúfanlegur hluti af þeim öllum ákveður að hún vilji ekki lengur taka þátt í þeim heldur vilji hún eitthvað annað, eitthvað þar sem ekki er pláss fyrir mann sjálfan. Það er eðlilegt að syrgja allt það fagra sem átti að verða og hefði getað orðið. Það er eðlilegt að vera hnugginn á meðan maður gengur í gegn um slíkt.
En þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Það er eðlilegt að ganga í gegn um slíkt. Það er ekki eðlilegt að grafa sig í því, gefast upp og neita að halda áfram með líf sitt. Og að gera sorgina að blóraböggli fyrir eigin aumingjaskap, að nota hana sem afsökun fyrir því að hætta að bera ábyrgð á lífi sínu og drekka sig í hel er beinlínis ljótt.
Það sem einkum gerir það ljótt er hrokinn sem það lýsir. Mér finnst það hreinlega móðgandi að þessi kunningi minn virðist vera þeirrar skoðunar að þótt aðrir hafi jafnað sig eftir skilnað geti það ómögulega gerst í hans tilfelli, nánast eins og hann sé fær um að elska á einhvern dýpri hátt en allir aðrir, að aldrei hafi maður elskað konu eins heitt og hann sína fyrrverandi og því sé sorg hans sárari en nokkur fær megnað að skilja. Hann virðist trúa því að sem tilfinningavera sé hann á einhverju æðra plani en restin af mannkyninu.
En hvað er svo á bak við þessa ástarsorg? Jú, hann vill að þessi kona sé frekar með honum en manninum sem hún er með núna. Auðvitað kjósa konan, nýji maðurinn hennar og allir vinir þeirra frekar núverandi ástand. Sú staðreynd að hann er eina manneskjan í heiminum sem er á bömmer yfir því hvernig málum er háttað gefur honum enga ástæðu til að reyna að breyta því sem hann vill.
Það sem í raun fyllir þennan kunningja minn sorg er semsagt að annað fólk skuli voga sér að láta tilfinningar sínar og ástarlíf snúast um annað en að gera honum til hæfis. Hann þjáist í raun aðeins af banvænni frekju og eigingirni undir þunnu lagi af bleikri málningu.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 7.