laugardagur, ágúst 01, 2009

Níðsálmur

Í gærkvöld stýrði ég hagyrðingamóti á Fjarðarborg í Borgarfirði eystri. Var þar margt um manninn og glatt á hjalla eins og við var að búast. Ég get engan veginn gert grein hér fyrir öllu sem þar var ort. En mig langar þó að deila níðvísu, sem ort var um yðar einlægan, með lesendum. Svo er mál með vexti að fyrr í mánuðinum prédikaði ég við messu í Hjaltastaðarkirkju. Einn hagyrðinganna hafði séð það auglýst og leist ekki nema rétt mátulega á. Um það fjallar þessi kveðskapur, sem er undir passíusálmshætti. Höfundurinn er Andrés Björnsson frá Gilsárvöllum á Borgarfirði eystri.

Gamminn hann geysa lætur
um Guð sinn í kirkjunnar reit
svo bera þess aldrei bætur
bændur í Útmannasveit.
Um englana víst þó veit.
Tæpast er til þess gerður,
trúhitinn þarna verður
fimmtán á Farenheit.

Engin ummæli: