mánudagur, júlí 20, 2009

Fyll'ann gremju


Þegar ég var yngri voru bensínstöðvar staðir þar sem vegfarendur numu staðar ef þá vantaði bensín. Þar var reyndar einnig boðið upp á ýmsa aðra þjónustu fyrir bílinn. Maður var ekki bara spurður hvort ætti að „fyll'ann“ heldur jafnvel líka hvort það ætti að athuga olíuna eða strjúka af framrúðunni. Þetta heyrir sögunni til. Æ víðar eru komnar afgreiðslustöðvar þar sem maður verður sjálfur að veita sér alla þá þjónustu sem mann vanhagar um, væntanlega til að koma í veg fyrir hvimleið persónuleg samskipti við starfsfólk. Eina leiðin til að „fyll'ann“ er að vita fyrirfram upp á krónu hve mikið bensín í viðbót tankurinn rúmar.
Þetta virðist þó ekki gert til að spara starfsfólk. Öðru nær. Flestar bensínstöðvar eru nefnilega orðnar einhver ofursjoppa, jafnvel smákjörbúð með Smáratorgsdrauma. Þar er nú öll áherslan lögð á að bjóða svo fjölbreytt úrval af samlokum, gosdrykkjum, smáréttum, grillmat og útilegudóti, auk þess sem þar eru sjaldnast færri en tvær alþjóðlegar skyndibitakeðjur með aðstöðu, að ekkert pláss er eftir fyrir frostlög eða vinnukonur.
Þá voru loftmælar líka einföld, sjálfsögð og auðskilin tæki og til á öllum bensínstöðvum. Þeir líktust penna sem smellt var á ventilinn. Þrýstingurinn ýtti þartilgerðum pinna út. Því lengra út sem pinninn fór, þeim mun meiri var þrýstingurinn. Allt saman eins frumstætt, analóg og auðskilið og framast gat orðið. Nú hefur bansett framþróunin einnig náð inn á þetta svið. Horfin er sú vinalega spurning: „Getiði lánað mér loftmæli?“ Enda er auðvitað óskiljanlegt hvað samloku- eða hamborgarasali ætti að gera við slíkt tæki. Á bensínstöðvum þar sem eru mexíkanskir skyndibitastaðir er spurningin kannski eðlilegri. Loftleiðslan kemur engum inni á staðnum við, er digítal og tölvuvædd. Maður slær inn æskilegan loftþrýsting og bíður eftir pípi, eftir að einhver góðhjartaður hefur útskýrt fyrir manni hvernig þetta virkar.
Verst er þó að þegar maður lætur móðan mása af réttlátri vandlætingu eftir að hafa heimsótt þá framtíðar-dystópíu sem íslenskar bensínstöðvar eru upp til hópa orðnar, þá góna börnin manns á mann eins og maður sé að missa vitið. Þau heyra ekki hvöss snjallyrði reiða, unga mannsins sem glymja í eyrum manns sjálfs, heldur bara tuð í geðillu gamalmenni sem ekki nær að fylgjast með. Svona læðist tíminn aftan að manni.
Bakþankar í Fréttablaðinu 18. júlí 2009

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

- Eina leiðin til að „fyll'ann“ er að vita fyrirfram upp á krónu hve mikið bensín í viðbót tankurinn rúmar. -

Var þetta fært í stílinn hjá þér, eða þarf að benda „geðilla gamalmenninu“ á hvernig maður getur fyllt á eldsneytistankinn (með greiðslukorti)?

Davíð Þór sagði...

Ég er alls ekki nógu advanseraður til að kunna svoleiðis. Mér er bara uppálagt að velja upphæð og hefja svo dælingu.

Unknown sagði...

Ekki er ég ósammála þér, þvert á móti, alveg hjartanlega sammála, þessar holur eru ekki fullar af hlutum sem mann vantar, heldur af rugli sem mann gæti langað í þegar maður sér það.

Ég verð samt að benda þér á að áður en þú hefur "dælingu" (dælir?) þá geturðu sagt sjálfsalanum að taka mjög háa upphæð, segjum 15 þúsund og fyllt tankinn. Tækin eru nefnilega þannig gerð að þau rukka þig bara fyrir það bensín sem þú dælir, þó þú hafir sagst vilja meira. Vita greinilega að það er ekkert að marka bensíndælandi gamlingja.

Nafnlaus sagði...

(Sami nafnlausi og að ofan).

Ég sé að Völundur hefur fært þig í allan sannleika um málið. Einn vina minna áttaði sig heldur ekki á því að vélin rukkar einvörðungu fyrir það magn sem dælt er, sama hversu hátt hámark er valið upphaflega. Ég kom eitt sinn að honum þar sem bensínið flæddi úr bensíntanknum því hann vildi ekki gefa olíufélaginu einn einasta millílítra gefins. Honum fannst betra að sulla eldsneytinu. En það var semsagt á misskilningi byggt.

Takk fyrir góða pistla.