þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Habbðu vet ...

Ömmur mínar voru afar ólíkar. Önnur var fín frú í Reykjavík sem átti það til að fornemast ógurlega, en sjálf gætti hún þess að sénera aldrei nokkurn mann. Amma í sveitinni fæddist aftur á móti á Fljótsdalshéraði aldamótaárið 1900 og átti það til að fussa og sveia yfir því sem henni fannst lítið vet. Afi í sveitinni, sem alist hafði upp á Barðaströndinni, habbði hins vegar litlar áhyggur og saggði mér oft sögur.
Um allt þetta fólk þótti mér og þykir enn óskaplega vænt þótt það sé nú farið yfir móðuna miklu. Óaðskiljanlegur hluti minningar þeirra og persónu var talsmáti þeirra, orðaforði og málsnið. Ég held að það hafi gert mér gott að alast upp við ólíkan framburð og málfar kynslóða sem nú hafa kvatt. Ég tel það hafa skerpt og eflt tilfinningu mína fyrir móðurmáli mínu. Það eitt að á Hringbrautinni var farið niður á milli hæða en á Stóru-Fellsöxl var farið ofan, varð mér ungum tilefni til heilabrota.
Í síðustu tveim pistlum mínum hef ég ráðist harkalega á norðlenskan framburð, kallað hann hljóðvillu og fært sýndarrök fyrir því að hann sé rangur. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fullyrt var að norðlenskur framburður væri fallegur og festulegur, eins og fegurð og festuleiki geti ekki verið smekksatriði, og að hann sé réttur. Og af hverju er hann réttari en annar? Jú, af því að gömul kona úr Eyjafirði talaði þannig. Eru ömmur þá aðeins marktækur mælikvarði á fegurð og réttmæti íslenskuframburðar ef barnabörnin þeirra heita Valgerður, en ekki ef þau heita Davíð?
Sjálfur er ég af suðvesturhorninu og eðlilegur talandi minn ber þess vott. Gamlir karlar og kerlingar hafa hiklaust kallað hann rangan og ljótan í mín eyru, eins og það sé enginn dónaskapur. Það var því gaman að fylgjast með viðbrögðum þeirra þegar þau urðu sjálf fyrir barðinu á nákvæmlega sama hroka og yfirlæti og þau hafa alist upp við að eðlilegt sé að sýna því hvernig öðrum er eiginlegt að tala móðurmál sitt. Þeim sem hafa norðlenskan framburð virðist nefnilega hafa verið innrætt það frá frumbernsku að þeir tali fallegra og betra mál en aðrir. Fyrir því hafa þeir þó engin rök, aðeins einhverja hjartans sannfæringu.
Staðreyndin er sú að allar ömmur tala hljómfagra og litríka íslensku, ekki bara eyfirskar, heldur líka ömmur að austan og vestan. Já, og líka ömmur sem töluðu dönskuskotna reykvísku.
Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 8.2010

3 ummæli:

Hildur Ýr sagði...

Ég hef lesið pistlana um norðlensku hljóðvilluna og hafði gaman að. Ég hins vegar hef það frá fyrirlestri sem ég sat í vetur hjá Sigríði Sigurjónsdóttur að norðlenski framburðurinn/hljóðvillan sé upprunalegri og íslensk málnefnd ákvað fyrir allnokkru að allt sem væri upprunalegt væri betra. Svo þetta fólk er eflaust alið upp í því að þeirra talsmáti sé bestur og réttastur. Ég man eftir því að hafa verið skömmuð fyrir linmælgi þegar ég var barn og átti ég þó engan að af þessu málsvæði.
Takk fyrir skemmtilega pistla.

Sigga Lára sagði...

Einu sinni hitti ég Helling sem var í uppreisn gegn þeim dómum tímans að hans framburður á íslensku væri rangur og ljótur. Uppástóð að það ætti að segja Reygjavíg, og svo framvegis.

Fram að því var ég harðmælgissnobb, en áttaði mig þarna á því að það er, einmitt, dónaskapur.

Fólk af Suðurlandi er gjarnan linmæltara en fólk af Norðurlandi. Allir sem ég þekkti fyrir austan og voru alvarlega flámæltir eru löngu farnir yfir móðuna en hins vegar eru nokkrir menn á mínum aldri á Héraði sem tóku þetta upp og eru búnir að venja sig á eins konar ný-flámælgi.

Það er gaman að málið skuli vera fjölbreytt og fjölskrúðugt og leiðinlegt að snobba.

Varríus sagði...

Er í alvörunni eitthvað yfirlæti eftir hjá norðlenskumælandi fólki? Að því leyti þóttu mér pistlarnir svolítið missa marks þó fyndnir væru sem slíkir.

Vitaskuld ekki nærri því eins fyndnir og hið ótrúlega skólameistaralega bréf Tryggva Gíslasonar. Þar var vissulega yfirlæti en það var af embættistoga en ekki -búsetu.

Sjálfur er ég Zelig. Tala norðlensku í Hálfvitakreðsum, en linast allur innanum annað fólk. Og gott ef ekki lenast í samneyti við austfirðinga.