þriðjudagur, desember 25, 2007

Vor Guð er borg á bjargi traust


Undanfarið hefur verið kvartað undan því að afhelgun samfélagsins sé skemmra á veg komin hérlendis en æskilegt væri. Umræðuefnið er brýnt og það ber að taka alvarlega. Auðvitað ætti hið opinbera ekki að gera upp á milli trúfélaga og óeðlilegt er að kvarta undan slíkum málflutningi. En hann tekur stundum á sig aðra mynd. Fólk fullyrðir jafnvel að trúarsannfæring sé lygi og hræsni, það lýgur hatrammri baráttu gegn menntun og vísindum upp á Þjóðkirkjuna og emjar síðan eins og stunginn grís þegar það er kallað hatrammt sjálft.
Vor Guð er borg á bjargi traust. Kjánar fá ekki kollvarpað henni. Þess vegna er rangt að stilla þeim upp sem erkifjendum Guðs kristni í heimi. Með því er þeim gert hærra undir höfði en þeir verðskulda, eins og beljaki gerir mýflugu þegar hann vælir undan biti hennar. Guðlastið er ekki annað en persónulegt tilbeiðsluform kjánanna á sínu eigin ágæti. Hinn raunverulegi óvinur kastar ekki skít í gremju, hann nagar undirstöðurnar.
Óvinurinn er trúin sem er játuð í raun, ekki með munninum á tyllidögum, heldur í hjörtunum hvunndags og iðkuð með fótum og greiðslukortum. Óvinurinn er blygðunarlaus skurðgoðadýrkun. Andleg verðmæti eru heimfærð upp á dauða hluti. Eins og guð býr í tóteminu býr sjálfsvirðingin í jeppanum, frelsið í golfsettinu og sálarróin í mósaíklistaverkinu í jógasalnum í kjallaranum á glæsihúsinu sem ryðja þurfti ágætishúsi úr vegi til að rýma fyrir. Kaupmenn veigra sér ekki við því að auglýsa munaðarvarning að andvirði margra mánaðarlauna verkamanns sem gjafir í tilefni af fæðingu hans sem fæddist í fjárhúsi til að vera ofsóttur fyrir kærleikann. Hinir göfugu gefa ekki lengur ölmusu þannig að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir, heldur sem fermetrastórar ávísanir á síðum blaða, til að almenningur sjái gæsku þeirra og fyrirgefi þeim okrið og svindlið.
Óvinurinn er ekki frjáls félagasamtök um kristilega breytni á forsendum annarra lífsskoðana en kristni, jafnvel þótt þær séu aðeins illa dulbúin trú á eigin mátt og megin. Óvinurinn er hve kristilegt siðgæði í verki er langt frá því að vera almennt.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.
Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 12. 2007

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"það lýgur hatrammri baráttu gegn menntun og vísindum upp á Þjóðkirkjuna "

Jæja já, hver gerði það?

Nafnlaus sagði...

Ætli Davíð eigi hér ekki við þá sem benda á andstöðu kirkju gegn vísindum og framförum ýmsum í gegnum aldirnar og tengja Þjóðkirkjuna (að ósekju) við hana. Hugsanlega á hann þó við þá sem vilja halda því fram að trúboð í skólum -og sá "eilífi sannleikur" sem þar er boðaður- standi menntun og vísindum fyrir þrifum.

Nafnlaus sagði...

Þannig að enginn sagði þetta um Þjóðkirkjuna heldur um hina kristnu kirkju. Tengist Þjóðkirkjan hugsanlega hinni kristni kirkju ekkert - nær saga Þjóðkirkjunnar ekki lengra en fram á seinni hluta síðustu aldar?

Hver er í raun að ljúga? Ekki þó Davíð enn og aftur?

Nafnlaus sagði...

Ætlar nafnlaus að skora ódýrt? Byggir hann orð sín á handahófskenndu úrvali þess sem Davíð Þór og aðrir hafa skrifað um málið?

"Fólk fullyrðir jafnvel að trúarsannfæring sé lygi og hræsni, það lýgur hatrammri baráttu gegn menntun og vísindum upp á Þjóðkirkjuna og emjar síðan eins og stunginn grís þegar það er kallað hatrammt sjálft."

Ég er nýbúinn að eiga samtal við Matta nokkurn úr Vantrú á

http://gunnlaugur.annall.is2007-12-19/proflestur-kennarans-og-forhertir-seltirningar/

þar sem allt þetta átti sér stað, lygi vantrúarformanns, stunga og væl.

En hvort ætli svíði meira, álit Davíðs að vantrúarpennar séu ekki verðgir andstæðingar kristninnar eða að þeir ljúgi hatrammri baráttu menntunar og vísinda upp á Þjóðkirkjuna?

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki þessa færslu Davíðs???
T.d...hvað er "afhelgun samfélagsins? og hvernig getur "trúarsannfæring" verið lygi! ...og hvað er "guðlast"? ..og ég hef misst af því þegar "þjóðkirkjan" berst fyrir menntun og vísindum???...
Svona skil ég lítið!
Anna Benkovic M.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir fína grein Davíð :)
Gleðileg jól

Davíð Þór sagði...

Carlos sagði eiginlega það sem ég þarf að segja. Nema þetta:
a) "Afhelgun" er íslenska og merkir "secularization", þ. e. aftenging kirkju og hins opinbera.
b) Trúarsannfæring getur ekki verið lygi, en þegar fullyrt er að munurinn á borgaralegri fermingu og kristilegri sé sá að í þeirri fyrrnefndu sé enginn neyddur til að ljúga og hræsna er fullyrt að í þeirri síðarnefndu sé það tilfellið, trúarsannfæring sé lygi og hræsni.
c) Guðlast er einfaldlega það að lasta Guð.
Þakka fjörugar umræður. Gleðilega hátíð.