þriðjudagur, desember 11, 2007

Móðir mín, maðurinn

Þegar ég var lítill var mamma einu sinni í framboði. Blaði var dreift í öll hús í bænum með myndum af frambjóðendum flokksins á forsíðu. Fyrir neðan hverja mynd var nafn frambjóðandans og starfsheiti. Fyrir neðan nafn móður minnar stóð „skrifstofumaður“, en ekki „skrifstofukona“ eins og venjan var þá.
Ég spurði mömmu út í þetta og hún útskýrði fyrir mér að hún hefði sama starfsheiti og starfsbræður hennar því hún ynni sama starf og þeir. Konur væru líka menn og fyrst enginn titlaði sig „skrifstofukarl“ sæi hún enga ástæðu til að taka sérstaklega fram í starfsheiti sínu að hún væri kona. Kynferði hennar skipti engu máli í þessu samhengi. Ég gat ekki annað en fallist á þessi rök og eftir á að hyggja hugsa ég að þetta hafi verið mín fyrstu kynni af femínisma, þótt enn ættu eftir að líða nokkur ár þangað til ég heyrði það orð fyrst.
Árin liðu, ég varð gelgja og öðlaðist vanþroskaðan karlrembuhúmor. Þá gerði ég það eitt sinn í skepnuskap mínum, þegar ég ritstýrði símaskrá nemendafélags Flensborgarskólans í Hafnarfirði, að titla þá formenn klúbba, sem voru stelpur, „forstöðukonur“ en ekki formenn. Þetta var skilið sem svívirðilegur pungrottuháttur, sem þetta auðvitað var, og þótti ekki fyndið, sem það auðvitað var ekki.
Enn liðu ár. Kvennaframboð og femínismi litu dagsins ljós. Það varð konum kappsmál að verða ekki þingmenn heldur „þingkonur“, jafnvel þótt orðið „þingkarl“ hefði aldrei heyrst. Barnalegur ungfolahroki minn, að kvengera starfsheiti, var orðinn strangfeminísk yfirlýsing, langt á undan samtíma sínum. Það sem fáum árum áður hafði verið niðrandi gagnvart konum var orðið eindreginn málstaður þeirra.
Þetta sýnir aðeins að orð hafa enga aðra merkingu en þá sem ákveðið er að gefa þeim hverju sinni. Þannig merkir orðið „herra“ í minni málvitund aðeins sá sem er hæstráðandi, „herrann“ er æðstur. Megineinkenni feðraveldisins, sem nú er í andarslitrunum, er einmitt að herrann er ávallt karl. Það gerir orðin „herra“ og „karl“ samt ekki að samheitum. Því ætti það að mínu mati að vera ánægjulegur áfangi á leiðinni til jafnréttis að konur séu „herrar“ ekki síður en karlar.
Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 12. 2007

5 ummæli:

Drekafluga sagði...

Já, já já! Þetta speglar álit mitt svo fullkomlega. (gerir það mig líka að snillingi? Það er spurning...)

Nafnlaus sagði...

Mér þykir leitt að skemma þetta fyrir þér drekafluga, en það gerir þig ekki að snillingi ;)

DÞJ er hins vegar snillingur, það er ekki spurning.

Ágúst Borgþór sagði...

Hittir naglann á höfuðið eins og svo oft áður.

Nafnlaus sagði...

Blesaður Davíð ! Góð skrif sem og í Bakþönkum Frétablaðsins í dag. Bestu jólaóskir til þín og þinna.
Garðar Harðar

spritti sagði...

Gleðileg Jól