þriðjudagur, október 16, 2007

Flokksræfilsháttur

Flokksræfilsháttur íslenskra stjórnmálamanna hefur nú endanlega gengið af stjórnmálaáhuga mínum dauðum. Ekkert er metið hlutlægt, engrar samkvæmni gætir, allt er skilið samkvæmt hagsmunum flokksins.
Í kjölfar síðustu borgarstjórnarkosninga fór að halla undan fæti. Þá kölluðu Sjálfstæðismenn næstverstu útreiðina í sögu sinni „glæsilegan kosningasigur“. Sú staðreynd að R-listaflokkarnir skyldu ekki tapa neinu fylgi þrátt fyrir vandræðaganginn sem einkenndi allt kjörtímabilið, var auðvitað í augum Sjálfstæðismanna engin vísbending um að þrátt fyrir allt nytu R-listaflokkarnir óbreytts trausts kjósenda. Eftir síðustu alþingiskosningar syrti enn í álinn. Þá var fylgistap Samfylkingar kallað „varnarsigur“ þar á bæ, rétt eins og ríkisstjórnir sæki á stjórnarandstöðu en ekki öfugt. Metið á þó Guðlaugur Þór sem í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum kallaði eins atkvæðis sigur Vöku í Háskólakosningum „glæsilegan“. Hvernig er eiginlega sigur sem er „ekkert sérstaklega glæsilegur“?
Frétt vikunnar var síðan hrein revía. Dagur B. Eggertsson, sem gagnrýndi síðustu borgarstjórn fyrir að vera mynduð um völd en ekki málefni, reið á vaðið með að svara því, aðspurður hvort nýji meirihlutinn væri ekki myndaður á nákvæmlega sama hátt, að undir þessum kringumstæðum giltu allt önnur viðmið. Auðvitað var öllum ljóst að eina breytingin var hvoru megin borðsins Dagur sjálfur sat. Sjálfstæðismenn vændu Björn Inga um siðleysi fyrir að koma eins fram við sig og þeir komu sjálfir fram við Ólaf F. í fyrra og fyrir að stjórnast af hagsmunum sem var í lagi að hann stjórnaðist af á meðan hann var í samstarfi við þá. Svo veinuðu þeir að vanda að margra flokka stjórn gæfist aldrei vel, þrátt fyrir að Reykvíkingar hafi í raun endurkjörið R-listann þótt hann væri ekki í framboði. Ómar sá aðeins sterka stöðu Margrétar, Valgerður kænsku Björns Inga og UVG þótti atburðarásin í heild eingöngu afhjúpa Svandísi sem hinn raunverulega leiðtoga í borginni. Er von að maður nenni ekki að vera með?
Ég óska Reykvíkingum til hamingju með nýja borgarstjórn og nýjum borgarstjóra velfarnaðar í starfi. Um leið þakka ég fráfarandi meirihluta góð verk, einkum strætókortin. Þau eru Sjálfstæðisflokknum til fágæts sóma.
Bakþankar í Fréttablaðinu 14. 10.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"14.10.2007
"Flokksræfilsháttur"
Einn allra bezti dálkahöfundur landsins afgreiðir Orkuveitumálið í kjallara á baki Fréttablaðsins í dag. Davíð Þór Jónsson er einn fárra núlifandi manna, sem kann íslenzku og skilur pólitík. Við pistil hans má aðeins bæta tveimur atriðum. Annað er, að spillingin sigraði að lokum með Björn Inga Hrafnsson í broddi nýrrar fylkingar. Hitt er, að kontóristarnir Guðmundur Þóroddsson og Hjörleifur Kvaran gáfu REI útrásir Orkuveitunnar með svindli. Pólitíkusarnir, sem skilja ekki ensku, segjast hafa verið gabbaðir til að skrifa undir þetta. Þannig virkar ágirndin á Íslandi í dag, haustið 2007."

Svo ritar sjálfur Jónas. Öðruvísi mér áður brá og minnist þess nú þegar við vorum að bauka með útvarpsþátt sem var ekki beinlínis í náðinni hjá DV slekti þess tíma -- undir stjórn þessa sama Jónasar. Gleðileg umskipi.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Ps. Já, þarna vantar augljóslega té í "umskipi". En, sem sagt, taka má undir með Jónasi í því sem segir um íslenskuna. En að vinur minn Davíð sé einn fárra núlifandi manna sem skilur pólitík... jahá! Lengi skal manninn reyna.
kv, Jakob

Nafnlaus sagði...

Ég botna hvorki upp né niður í þessu einn segir eitthvað og annar segir hann vera að ljúga og þá segist hinn ekki hafa sagt það og þá slítur einhver stjórnarsamstarfinu og fer að grenja á meðan einn verður borgarstjóri á meðann hinn borgarstjórinn verður (d)rekinn
Ég hata svona hreppsnefndarvinnubrögð.